Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 112Haustfundur utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra VES í Lúxemborg 22.-23. nóvember 1999

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 112


Haustfundur utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Vestur-Evrópusambandsins var haldinn í Lúxemborg 22.-23. nóvember 1999. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Á fundinum var helst fjallað um þróun sameiginlegrar evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins og með hvaða hætti auka mætti bolmagn Evrópuríkja á hernaðarsviðinu. Þá skiptust ráðherrarnir á skoðunum í vinnukvöldverði um ástand og horfur á Balkanskaga og í Tsjetsjeníu.
Á fundinum var samþykkt frekari efling tengsla VES og Evrópusambandsins, hvort tveggja með því að VES láti ESB í auknum mæli í té upplýsingar og aðgang að stofnunum og með samþykki sérstaks skjals um skrásetningu VES á búnaði og liðsafla sem VES-ríki gætu lagt af mörkum til aðgerða á vegum ESB. Þetta fylgir í kjölfar þess að fastaráð VES hefur samþykkt að skipa Javier Solana, háttsettan fulltrúa ESB á sviði utanríkis- og öryggismála, nýjan framkvæmdastjóra VES.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, flutti ávarp þar sem hann vísaði til þróunar sameiginlegrar evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu innan ESB og fyrirsjáanlegra afleiðinga hennar fyrir VES. Hann sagði að farsælt samstarf aðildarríkja ESB og evrópskra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins innan VES væri sérstæð arfleifð þessara samtaka sem bæri að varðveita. Hann sagði að þótt íslensk stjórnvöld styddu viðleitni ESB, þá væri miður ef skilgreina ætti sameiginlega evrópska öryggis- og varnarmálastefnu aðallega á grundvelli samrunans innan ESB. Með því móti yrði samstöðu VES-ríkjanna stefnt í hættu. Ef þetta ferli innan ESB ætti að verða til hagsbóta fyrir Evrópu í heild og til eflingar Atlantshafstengslanna, þá yrði að byggja á tilhögun samstarfsins innan VES. Greið upplýsingamiðlun og boð um þátttöku frá ESB til aukaaðildarríkja VES gæti komið í veg fyrir erfiðleika og óvissu. Hann benti á að þótt Ísland væri ekki aðildarríki ESB, þá væri það engu síður Evrópuríki. Íslensk stjórnvöld vildu ekki trufla sjálfstæða ákvarðanatöku ESB, en vonuðu jafnframt að sjálfstæði stofnana skyggði ekki á sóknina að sameiginlegu markmiði, þ.e. öryggi og stöðugleika í Evrópu.
Í fundarlok samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu sem berst síðar í dag. Þess má geta að sendinefnd Íslands lét bóka í fundargerð fastaráðs VES fyrirvara við 1. setningu 2. mgr., þar sem lýst er velþóknun á niðurstöðum leiðtogafundar ESB í Köln. Í bókuninni er vísað til niðurstaðna leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Washington D.C. og væntanlegra ákvarðana ESB um þátttökurétt evrópskra bandalagsríkja utan ESB og fyrirvari gerður við þennan þátt niðurstaðna leiðtogafundarins í Köln.
Upplýsingar um Vestur-Evrópusambandið er að finna á alentinu (http:\\www.weu.int).



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. nóvember 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum