Hoppa yfir valmynd
23. júní 1997 Utanríkisráðuneytið

Óopinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar til Bosníu-Hersegóvínu

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 061

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra er í óopinberri heimsókn í Bosníu-Herzegóvínu dagana 22.-24. júní.
Utanríkisráðherra mun kynna sér árangur af stuðningi Íslendinga við endurreisnarstarfið í Bosníu-Herzegóvínu. Fjárframlögum Íslendinga hefur aðallega verið varið til styrktar heilbrigðismálum þar í landi. Fyrir tilstilli Íslendinga eru í Bosníu-Herzegóvínu nú starfrækt tvö gervilimaverkstæði og annast íslenska fyrirtækið Össur hf. smíði og framleiðslu á gervilimum fyrir stríðshrjáða Bosníumenn. Einnig er fyrirhuguð aðstoð á sviði ungbarna- og mæðrahjálpar á næstunni.
Þá mun Halldór Ásgrímsson einnig eiga fund með utanríkisráðherra Bosníu-Herzegóvínu, Jadranko Prlic. Í dag ræddi Halldór við heilbrigðisráðherra Bosníu-Herzegóvínu um aðstoð á sviði heilbrigðismála.
Á leiðinni til Bosníu-Herzegóvínu hafði utanríkisráðherra stutta viðdvöl í Zagreb í Króatíu þar sem hann átti fund með utanríkisráðherra Króatíu, dr. Mate Granic, um stjórnmálaástandið þar um slóðir og áhuga Króatíumanna um aðild að fjölþjóðastofnunum í Evrópu. Sömuleiðis voru ræddir möguleikar á auknum viðskiptum milli landanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum