Hoppa yfir valmynd
18. apríl 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 029, 18. apríl 1998: Fundur utanríkisráðherra með Thomas R. Pickering, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 29

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti í gær fund með Thomas R. Pickering aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Fundurinn fór fram í utanríkisráðuneytinu í Washington D.C.
Rætt var um svæðissamstarf í Norður-Evrópu, þar með talið á vettvangi Eystrasaltsráðsins og Barentsráðsins. Rætt var sérstaklega um hið svokallaða Norðaustur-Evrópufrumkvæði Bandaríkjamanna, sem miðar að því að renna stoðum undir þátttöku Eystrasaltsríkjanna í samstarfi Vesturlanda á sviði efnahagsmála og öryggismála og styðja svæðissamstarf við Eystrasaltið, þ.m.t. við Norðvestur-Rússland. Utanríkisráðherra lýsti þeim vilja Íslendinga að eiga samvinnu við Bandaríkjamenn um frumkvæðið og halda áfram aðstoð við Eystrasaltsríkin í samvinnu við Norðurlöndin og aðildarríki Eystrasaltsráðsins, t.d. á sviði björgunar á sjó og landi og flugumferðarstjórnar.
Þá var rætt um réttindi kvenna á þessu svæði og bauð utanríkisráðherra að fyrirhuguð sameiginleg ráðstefna árið 2000 um réttindi kvenna á Norðurlöndunum, í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi yrði haldin á Íslandi.
Samstarf þjóðanna í tilefni árþúsundaskiptanna bar á góma. Á næstunni munu bandarísk og íslensk stjórnvöld tilnefna sameiginlegan starfshóp til að undirbúa sameiginleg verkefni fyrir árið 2000. Meðal verkefna í undirbúningi má nefna samstarf Norðurlandaráðs og Smithsonian-safnsins um sýningu um siglingar og landafundi víkinga.
Rætt var um umhverfismál, stöðu mála eftir Kýótósamkomulagið, nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og auðlindanýtingu. Utanríkisráðherra lagði áherslu á rétt strandríkja til skynsamlegrar nýtingar lífrænna auðlinda hafsins, þ.m.t. sjávarspendýra.
Í umræðum um framtíð varnarsamstarfsins lagði utanríkisráðherra áherslu á að varnarsamstarf landanna yrði áfram óbreytt á grundvelli varnarsamningsins.

Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. apríl 1998.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum