Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

Undirr. samn. um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 90


Í dag undirrituðu Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Niels Helveg Petersen utanríkisráðherra Danmerkur og Jonathan Motzfeldt formaður landstjórnar Grænlands í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki samning um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands. Samtímis voru undirritaðar bókanir milli Íslands og Noregs annars vegar og Danmerkur og Noregs hins vegar um endanlega afmörkun hafsvæðisins þar sem lögsaga Íslands, Grænlands og Jan Mayen skerst.
Samkomulag náðist síðastliðið sumar milli Íslands annars vegar og Danmerkur og Grænlands hins vegar um afmörkun umdeilda hafsvæðisins norður af Kolbeinsey. Ágreiningur hafði verið uppi allt frá því Íslendingar færðu lögsögu sína út í 200 sjómílur árið 1975. Þá ákváðu Íslendingar að nota Grímsey og Kolbeinsey sem viðmiðunarpunkta vegna miðlínu á þessu hafsvæði, en Danmörk gerði fyrir hönd Grænlands fyrirvara við þessa ákvörðun. Ágreiningurinn hafði legið niðri um nokkurt skeið, en kom upp á ný í kjölfar loðnuveiða danskra skipa á umdeilda svæðinu sumarið 1996. Með samkomulagi aðila var bundinn endi á ágreining þeirra í eitt skipti fyrir öll. Samkomulagið, sem tók bæði til afmörkunar fiskveiðilögsögu og landgrunns, fól í sér viðurkenningu á fullum áhrifum Grímseyjar við afmörkunina, en hafsvæðið umdeilda vegna Kolbeinseyjar skiptist þannig að Íslendingar fá 30% í sinn hlut og Grænlendingar 70%. Niðurstaðan byggðist á heildarmati á öllum þeim þáttum sem höfðu áhrif á afmörkunina, svo sem grunnlínum, viðmiðunarpunktum, því að hve miklu leyti löndin eru háð fiskveiðum, lengd viðkomandi stranda og nauðsyn stöðugleika og varanleika. Óskin um að varðveita og efla hið góða samband milli grannþjóðanna Íslendinga annars vegar og Dana og Grænlendinga hins vegar stuðlaði ekki síst að lausn málsins.

Samningurinn sem undirritaður var í dag lýtur ekki einungis að umdeilda hafsvæðinu norður af Kolbeinsey heldur nær hann til allrar miðlínunnar milli Íslands og Grænlands sem hefur verið yfirfarin af sérfræðingum landanna. Samningurinn fylgir með fréttatilkynningu þessari ásamt uppdrætti er sýnir hin nýju lögsögumörk.
Ekki hefur enn náðst samkomulag um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja en samningaviðræðum verður haldið áfram. Aðstæður varðandi hafsvæðin tvö eru á margan hátt ólíkar og er tekið fram í áðurnefndum samningi að afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands hafi ekki fordæmisgildi að því er varðar afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 11. nóvember 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum