Hoppa yfir valmynd
29. september 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 067, 29. september 2000. Opinber heimsókn Madeleine Albright utanríkisráðherra Bandaríkjanna

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 067


Dr. Madeleine K. Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kemur í opinbera heimsókn til Íslands á morgun, 30. september, í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.

Á samráðsfundi utanríkisráðherranna í Ráðherrabústaðnum á laugardagsmorgun verða gagnkvæm samskipti Íslands og Bandaríkjanna efst á baugi, þar á meðal framkvæmd varnarsamningsins og á hvern hátt minnst verði farsæls varnarsamstarfs ríkjanna og fimmtíu ára afmælis samningsins þann 5. maí 2001.

Halldór Ásgrímsson og Madeleine K. Albright munu ennfremur ræða málefni Atlantshafsbandalagsins og Evrópusamstarf í öryggis-og varnarmálum, alþjóðlega friðargæslu og viðskipti Íslands og Bandaríkjanna, þar á meðal möguleika á nýjum viðskiptatækifærum á milli Íslands og Alaska. Ráðherrarnir munu einnig ræða árangursríkt samstarf Íslands og Bandaríkjanna í tilefni árþúsundamóta og landafunda norrænna manna í Norður-Ameríku.

Madeleine K. Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun jafnframt eiga fund með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, þiggja hádegisverðarboð utanríkisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu, kynna sér sögu og staðhætti á Þingvöllum, heimsækja varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli og hitta aðstandendur alþjóðlegrar ráðstefnu um konur og lýðræði og ræða framhald á því ferli er hófst í Reykjavík í september á síðasta ári.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. september 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum