Hoppa yfir valmynd
11. júní 2002 Utanríkisráðuneytið

Almannavarnaæfingin Samvörður 2002

Nr. 061

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Samvörður 2002

Almannavarnaæfingin Samvörður 2002, verður haldin á Íslandi dagana 24. - 30. júní næstkomandi. Framkvæmdastjóri æfingarinnar af Íslands hálfu er Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslunnar.

Æfingin er hluti af alþjóðlegu öryggis- og varnarmálasamstarfi Atlantshafsbandalagsins og er þriðja Samvarðaræfingin sem haldin er á Íslandi. Markmið slíkra æfinga er að styrkja og samhæfa aðgerðir herja og borgaralegra stofnana aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess á sviði friðargæslu og björgunarstarfa og æfa viðbrögð við náttúruhamförum.

Alls munu 550 Íslendingar taka þátt Samverði 2002, á einn eða annan hátt, en það verða m.a. starfsmenn Landhelgisgæslunnar, Flugmálastjórnar, Rauða kross Íslands, Almannavarna ríkisins, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lögreglu, slökkviliðs og almannavarnanefnda. Þá mun fjöldi sjálfboðaliða frá deildum Rauða krossins og Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu taka þátt en björgunarsveitir leggja til bíla, báta, leitarhunda og fl.

Erlendir þátttakendur verða u.þ.b. 500 talsins. Yfirmaður varnarliðsins í Keflavík er framkvæmdastjóri æfingarinnar af hálfu NATO og annarra erlendra þjóða sem taka þátt í henni en varnarliðið mun m.a. leggja til þyrlubjörgunarsveit og stórar flutningaþyrlur Bandaríkjahers. Frá Eistlandi, Belgíu og Litháen koma björgunarsveitir og sjúkraflokkar, frá Uzbekistan og Rúmeníu koma björgunarsveitir og Danir koma með tvö varðskip og þyrlur. Aðrar þjóðir sem taka þátt í æfingunni eru Austurríki, Þýskaland, Írland, Kanada, Portúgal, Holland, Noregur, England, Pólland, Svíþjóð og Slóvakía.

Landhelgisgæslan og Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafa í sameiningu skipulagt Samvörð 2002 en undirbúningur svo fjölmennrar og umfangsmikillar æfingar er töluverður og hefur í raun staðið í rúmt ár. Þrjár undirbúningsráðstefnur með fulltrúum innlendra og erlendra þátttakenda hafa verið haldnar á því tímabili.

Æfingin er þrískipt og hefst með málþingi í Reykjavík 24. júní en þar munu sérfræðingar á sviði jarðvísinda og björgunarstarfa halda fyrirlestra. Samtímis verða fyrirlestrar um öryggismál haldnir í Keflavík fyrir undirmenn sveita þátttökuríkjanna.

Annar hluti æfingarinnar felst í þjálfun erlendra björgunarsveita úti á landi 25-27. júní. Sérfræðingar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu munu sjá um þann þátt. Á sama tíma verður haldin stjórnstöðvaræfing en hún felst í samhæfingu stjórnstöðvar Samvarðar við aðrar stjórnstöðvar sem að æfingunni koma.

Vettvangsæfingin, sem er aðalæfingin, fer fram 28.-30. júní. Meginverkefnið er að bjarga fólki frá eyju þar sem eldgos og jarðskjálftar ógna lífi þess, í þessu tilviki frá Vestmannaeyjum. Bregðast þarf við ýmsum áföllum eins og skemmdum á byggingum, lokun hafnar og flugvallar vegna hraunflæðis, öskufalls og klettahruns. Jafnframt þarf að slökkva elda, bjarga fólki úr skemmdum húsum, hlúa að slösuðum og sjúkum og öðru flóttafólki. Fólkið verður flutt með þyrlum og skipum í öruggt skjól í Þorlákshöfn.

Fjölmiðlum verður boðið að fylgjast með æfingunni sem kynnt verður nánar þegar nær dregur. Upplýsingamiðstöð Samvarðar 2002 verður í upplýsingaskrifstofu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Landhelgisgæsluna og NATO og fyrirhugað er að opna heimasíðu þar sem m.a. verður hægt að nálgast upplýsingar um markmið æfingarinnar, þátttakendur og dagskrá.

Boðað er til sérstaks kynningarfundar fyrir fjölmiðla, þriðjudaginn 18. júní, klukkan 14.30, í utanríkisráðuneytinu í gluggasal á 2. hæð.


Kveðjur,
Rútur



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 11. júní 2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum