Hoppa yfir valmynd
23. júní 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 060, 23. júní 1999. Ræður utanríkisráðherra á þingmannasamkomu Evrópuráðsins og á sameiginlegu þingi Bosníu-Herzegóvínu.

Fréttatilkynning frá
Utanríkisráðuneytinu
___________________



Nr. 060


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins ávarpaði í dag þingmannasamkomu Evrópuráðsins í Strasbourg, Frakklandi. Þingmannasamkoma Evrópuráðsins kemur saman fjórum sinnum á ári og er skipuð fulltrúum frá þjóðþingum aðildarríkjanna.

Í upphafi ræðu sinnar fjallaði utanríkisráðherra um hlutverk Evrópuráðsins vegna uppbyggingarstarfsins í Kosovo. Evrópuráðið hefði, að hans áliti, mikilvægu hlutverki að gegna við uppbyggingu mannréttinda og lýðræðislegra stjórnarhátta í kjölfar átakanna á Balkanskaga vegna einstakrar reynslu þess af sambærilegu uppbyggingarstarfi í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu á síðasta áratug. Mikilvægt væri að nýta sérþekkingu þess í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir. Hann lýsti jafnframt yfir stuðningi Evrópuráðsins við stöðugleikaáætlun Evrópusambandsins ( ESB ) fyrir uppbyggingarstarf í Suðaustur-Evrópu.

Utanríkisráðherra áréttaði stuðning sinn við stækkun Evrópuráðsins og mikilvægi þess að umsóknarríkin virtu grundvallarreglur þess um mannréttindi, lýðræði og reglur réttarríkisins. Jafnframt lýsti hann stuðningi sínum við umsóknir Armeníu, Aserbaídsjan, Bosníu-Hersegóvínu og Mónakó um aðild að Evrópuráðinu, að uppfylltum skilyrðum ráðsins um aðild.
Utanríkisráðherra greindi þingmannasamkomunni einnig frá heimsókn sinni til Bosníu-Hersegóvínu 19.-21. júní sl. ásamt Daniel Tarschys aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, en ferðin var farin í þeim tilgangi að ræða við stjórnvöld í Bosníu-Hersegóvínu um umsókn ríkisins um aðild að Evrópuráðinu. Í heimsókn sinni átti utanríkisráðherra m.a. fundi með forsætisnefnd Bosníu-Hersegóvínu, ráðherraráði og Jadranko Prlic utanríkisráðherra Bosníu-Hersegóvínu. Utanríkisráðherra ávarpaði einnig sameinað þing Bosníu-Hersegóvínu í Sarajevo þann 19. júní. Í ávarpi utanríkisráðherra á þingmannasamkomu Evrópuráðsins í dag áréttaði hann vilja Evrópuráðsins til að starfa náið með stjórnvöldum í Bosníu-Hersegóvínu með það að markmiði að efla mannréttindi, lýðræði og réttarríkið þannig að Bosnía-Hersegóvína uppfylli kröfur Evrópuráðsins um aðild.

Í máli utanríkisráðherra kom fram að Ísland teldi mikilvægt að efla samvinnu og samráð Evrópuráðsins við aðrar alþjóðastofnanir, sérstaklega Evrópusambandið (ESB) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Ákjósanlegt tækifæri gæfist til slíks á þessu ári en Noregur gegndi nú formennsku í ÖSE en Finnland myndi leiða starf ESB á síðari hluta ársins. Mikilvægt væri að efla og samhæfa samstarf þessara stofnana, auka skilvirkni þeirra og koma í veg fyrir tvíverknað.


Ræða utanríkisráðherra á þingmannasamkomu Evrópuráðsins 23. júní er hjálögð. Einnig fylgir með ræða utanríkisráðherra á sameinuðu þingi Bosníu-Hersegóvínu í Sarajevo frá 19. júní sl.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. júní 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum