Hoppa yfir valmynd
25. janúar 1996 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisrh. með framkvstj. ESB

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 004



Ísland tók við formennsku í EFTA og EES um síðustu áramót. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fundi með
fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB til að ræða ýmis málefni er varða samstarf EFTA og ESB. Jafnframt voru til umræðu á
þessum fundum ýmis mál sem snerta tvíhliða samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Fulltrúar ESB sem
utanríkisráðherra hitti að máli eru Hans van den Broek sem fer m.a. með samskipti við Evrópuríki og utanríkis- og
öryggismál, Leon Brittan sem fer m.a. með málefni Norður-Ameríku, ýmissa Asíuríkja og Alþjóðastofnunarinnar og Emma
Bonino sem fer m.a. með sjávarútvegsmálefni.

Á fundinum með Hans van den Broek var rætt um EES og EFTA málefni, ríkjaráðstefnu ESB og stækkun þess, samskipti
við ríki utan EES, öryggismál í Evrópu og samskipti Íslands við ESB. Utanríkisráðherra kom á framfæri mótmælum
Íslendinga vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB að leggja lágmarksverð á innfluttan lax frá Íslandi og Noregi. Færð
voru rök fyrir því að þessi ákvörðun ESB stæðist ekki EES-samninginn og þess krafist að hún yrði felld úr gildi.

Við Leon Brittan ræddi utanríkisráðherra auk Evrópumála aukin samskipti Evrópusambandsins við Bandaríkin, ríki Asíu og
málefni er snerta Alþjóðaviðskiptastofnunina. Utanríkisráðherra lýsti yfir áhuga á þátttöku EFTA ríkjanna í auknu samstarfi
við Bandaríkin og Asíu. Lagði hann til að komið yrði á fót nefnd embættismanna til að skiptast á skoðunum um málið.

Á fundinum með Emmu Bonino voru m.a. rædd úthafsveiðimál og krafa Íslands um að lágmarksverð á innfluttum laxi frá
Íslandi og Noregi yrði aflétt var áréttuð.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 25.01.1996

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum