Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 010, 10. febrúar 1998: Ísland tekur þátt í heimssýningunni í Hannover árið 2000

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

      Nr. 10

      Ríkisstjórnin samþykkti í dag tillögu utanríkisráðherra um að staðfesta þátttöku Íslands á heimssýningunni í Hannover árið 2000. Heimssýningin verður haldin dagana 1. júní til 31. október það ár í Hannover í Neðra Saxlandi í Þýskalandi undir yfirskriftinni
      ,,Mannkyn, Náttúra og Tækni".

      Þýskaland er eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslands með um 13,3% af heildarútflutningi og 11,3% af heildarinnflutningi landsmanna. Jafnframt kemur fjöldi þýskra ferðamanna til Íslands ár hvert. Innan Þýskalands er norðurhluti þess mikilvægastur fyrir Ísland og jafnframt eru íslensk fyrirtæki beinir þátttakendur í atvinnurekstri þar.

      Yfirskrift sýningarinnar er kjarninn í alþjóðlegri umræðu líðandi stundar og tengist stefnumótun og ímynd íslensks atvinnulífs og um leið nýsköpun þess. Þannig mun heimssýningin tengjast með beinum hætti alþjóðavæðingu íslenskra útflutningsfyrirtækja, sókn þeirra og íslensks ferðamannaiðnaðar til framtíðar, grundvallaðan á samspili manns og náttúru.

      Varðandi þátttöku er um þrjá mismunandi kostnaðarsama möguleika að ræða. Bygging varanlegs sýningarskála, bygging tímabundins sýningarskála eða leiga á svæði innan núverandi sýningarsvæðis. Fermetragjald innan sýningarhalla er 1.200 þýsk mörk. Gert er ráð fyrir að taka á leigu svæði af skipuleggjendum sýningarinnar frekar en að fara í sérstakar byggingarframkvæmdir sem eru mjög kostnaðarsamar.

      Utanríkisráðuneytið
      Reykjavík, 10. febrúar 1998

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum