Hoppa yfir valmynd
31. október 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr.086, 31. október 2000Íslensk hönnun og íslenskar kvikmyndir í Norræna húsinu í NY

Utanríkisráðuneytið

Fréttatilkynning

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 086


Íslensk hönnun og íslenskar kvikmyndir verða í sviðsljósinu á næstu mánuðum í Norræna húsinu í New York sem formlega var tekið í notkun 17. október síðastliðinn. Fyrsti menningaratburðurinn í húsinu, sýning á verkum ungra norrænna hönnuða verður opnuð
3. nóvember næstkomandi. Alls taka sjö ungir íslenskir hönnuðir þátt í sýningunni og kynna þar fjölmörg verkefni sem mörg hafa vakið athygli að undanförnu.

Íslensku hönnuðirnir eru Ásmundur Hrafn Sturluson, Bergþóra Guðnadóttir, Guðbjörg Kr. Ingvadóttir, Karólína Einarsdóttir, Linda Björg Árnadóttir, Sesselja H. Guðmundsdóttir og Tinna Gunnarsdóttir. Jafnframt mun fyrirtækið OZ kynna nýjan tölvuleik á veraldarvefnum sem helgaður er landafundum Norrænna manna í Norður-Ameríku. Hægt er að taka þátt í leiknum á slóðinni www.Icelandnaturally.com

Vægi hönnunar fer vaxandi í starfsemi íslenskra fyrirtækja, ekki síst vegna útrásar þeirra og markaðssóknar á erlendum mörkuðum. Stórstígar framfarir á sviði samskipta-og upplýsingatækni hafa aukið möguleika hönnuða til að starfa á alþjóðlegum atvinnumarkaði. Form Ísland, samtök hönnuða, valdi fulltrúa Íslands og undirbjó þátttöku þeirra á sýningunni.

Íslensk kvikmyndahátíð hefst í Norræna húsinu í byrjun nóvember og stendur út mánuðinn. Boðið verður uppá fjórar íslenskar kvikmyndir, Engla alheimsins í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar, Ungfrúna góðu og húsið í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur, Fíaskó Ragnars Bragasonar og 101 Reykjavík í leikstjórn Baltasar Kormáks.

Norræna húsið í New York er rekið af Norrænu samtökunum í Bandaríkjunum, "American Scandinavian Foundation". Markmið þeirra er að stuðla að auknum samskiptum Bandaríkjanna og Norðurlandanna á sviði mennta-og menningarmála.

Nánari upplýsingar um starfsemi Norræna hússins í New York er að finna á slóðinni www.amscan.org



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 1. nóvember 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum