Hoppa yfir valmynd
22. apríl 1997 Utanríkisráðuneytið

53. þing Mannréttindaráðs S.þ.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 32

Fimmtugasta og þriðja þingi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem staðið hefur yfir sl. sex vikur í Genf, er nú lokið. Í Mannréttindaráðinu eiga sæti 53 ríki, sem kosin eru af Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna til þriggja ára í senn. Yfir tvö þúsund þátttakendur sóttu þingið. Þar af var helmingur þeirra fulltrúar einstakra ríkisstjórna en aðrir voru fulltrúar alþjóðasamtaka og margvíslegra félagssamtaka. Af hálfu Norðurlanda á Danmörk nú sæti í Mannréttindaráðinu, en Ísland á áheyrnaraðild að því. Auk Mannréttindaráðsins leggur Ísland mannréttindamálum helst lið á alþjóðlegum vettvangi innan Evrópuráðsins, í Eystrasaltsráðinu og hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
Um það er ekki lengur deilt, að mannréttindi eru ekki lengur einkamál sérhverrar þjóðar heldur óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála. Málflutningur ríkisstjórna, alþjóðasamtaka svo og félagssamtaka í Mannréttindaráðinu miðast nú við að mannréttindi séu algild og á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls. Mannréttindaráðið lítur á það sem skyldu sína að standa vörð um virðingu manneskjunnar, fjölbreytileika mannsins og þeirrar menningar sem hann býr við.
Ágreiningur austurs og vesturs er nú alveg horfinn úr störfum ráðsins, en aftur á móti setur ágreiningur á milli þróaðra ríkja og þróunarríkja nú meiri svip á starf þess. Þróunarríkin hafa beitt sér fyrir pólitískari stjórn á starfi Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindaskrifstofu samtakanna, en vestræn ríki hafa harðlega andmælt þessum hugmyndum. Mörg þróunarríkjanna hafa jafnframt sakað vestræn ríki og bandamenn þeirra um að efna til deilna í stað umræðna um stöðu mannréttinda í einstökum ríkjum, þar sem höfuðáhersla væri lögð á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi á kostnað félagslegra og efnahagslegra réttinda svo og réttinn til þróunar.
Þessi ágreiningur kom skýrast fram í ályktunartillögu Danmerkur og fjórtán annarra ríkja, þ. á m. Íslands, um stöðu mannréttinda í Kína. Af á annað hundrað ályktunartillögum sem lagðar voru fram á þingi Mannréttindaráðsins var þetta sú tillaga sem mesta athygli vakti. Mannréttindaráðið tók ekki formlega afstöðu til ályktunartillögunnar, þar sem fulltrúi Kína lagði fram dagskrártillögu (no-action) sem var samþykkt með 27 atkvæðum; 17 voru á móti og 9 ríki sátu hjá. Í umræðum sem fóru fram um dagskrártillöguna, áður en gengið var til atkvæða, mótmæltu fulltrúar vestræna hópsins tillögunni, m.a. á þeim forsendum, að Kína ætti ekki að hlýta sérmeðferð af hálfu Mannréttindaráðsins heldur njóta sömu meðferðar og önnur ríki, sem til umræðu væru í ráðinu. Það væri bæði skylda og ábyrgð Mannréttindaráðsins að taka afstöðu til hinnar eiginlegu ályktunartillögu. Dagskrártillaga Kína væri bæði beint gegn hæfni og trúverðugleika ráðsins til að fjalla um og taka afstöðu til mannréttinda hvar sem væri í heiminum. Misnotkun Kína á fundarsköpum Mannréttindaráðsins bæri sérstaklega að harma með tilliti til stöðu Kína sem handhafa fasts sætis í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Fulltrúar Afríku- og Asíuríkja studdu hinsvegar dagskrártillögu Kína, m.a. með vísun til þess, að ályktunartillaga Danmerkur og fleiri ríkja miðaði að fordæmingu á Kína og mannréttindaástandinu í landinu í stað þess að hvetja til uppbyggilegrar umræðu um stöðu mannréttinda í Kína.
Á Mannréttindaþinginu voru fluttar fjórar norrænar ræður, þ.e. um réttindi minnihlutahópa, um lágmarks mannúðarmörk (Minimum Humanitarian Standards), um réttindi frumbyggja og um fjöldafólksflutninga og fólk á vergangi. Auk þess átti Ísland aðild að ræðu Evrópusambandsins um varðhald og pyntingar, þar sem m.a. var vikið sérstaklega að tyrkneskum stjórnvöldum sem ekki hafa léð máls á samvinnu við sérstakan fulltrúa Mannréttindaráðsins á sviði baráttunnar gegn pyntingum.
Á þinginu var Ísland meðflutningsaðili að ályktunartillögum um friðarferlið í Mið-Austurlöndum, landnám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum, styrkingu Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, um dauðarefsingu, um aftökur, um baráttu gegn pyntingum, um réttindi minnihlutahópa, um lágmarks mannúðarmörk, um vettvang fyrir frumbyggja innan Sameinuðu þjóðanna, um afnám hvers kyns fordóma gagnvart trúarbrögðum, um réttindi barnsins, um afnám ofbeldis gegn konum og um gerð yfirlýsingar um réttindi og ábyrgð einstaklinga og hópa til að kynna og verja grundvallarmannréttindi. Jafnframt var Ísland meðflutningsaðili að sérstökum ályktunartillögum um stöðu mannréttinda í Austur-Tímor, Íran, Írak, Kína, Kúbu, Nígeríu, Burma, Súdan og Zaire.
Á Mannréttindaþinginu var að lokum minnt á, að á næsta ári verða fimmtíu ár liðin frá samþykkt Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 22. apríl 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum