Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 109, 18. nóvember 1999 Ræða fastafulltrúa Íslands hjá S.þ. um stöðu flóttamanna og trúfrelsi.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 109




Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Þorsteinn Ingólfsson sendiherra, ávarpaði þriðju nefnd samtakanna þann 9. og 16. þ.m. Ávörpin fjölluðu um trúfrelsi og stöðu flóttamanna.

Í ávarpi sínu um trúfrelsi vitnaði hann í skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þar er lögð áhersla á að trúfrelsi sé meðal grundvallarmannréttinda eins og staðfest er í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í samningnum um borgaraleg og pólitísk réttindi.

Hann sagði að með aukinni alþjóðavæðingu muni samskipti fólks af ólíkum uppruna og menningu aukast. Mikilvægt væri því fyrir ríki að efla umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu almennings gagnvart trúarbrögðum annarra og koma þannig í veg fyrir átök og deilur. Einnig benti hann á að langt væri í land með að útrýma mismunun á grundvelli trúar. Það væri áhyggjuefni að öfgafullum trúarhreyfingum yxi stöðugt ásmegin og kæmi það ekki síst niður á konum og trúarhópum sem væru í minnihluta.

Fastafulltrúi vakti athygli á grófum mannréttindabrotum Talíbana gagnvart konum í Afghanistan á grundvelli trúarbragða. Konur þar gætu ekki haft áhrif á eigin örlög. Mannréttindi væru altæk og því ekki hægt að réttlæta mannréttindabrot þeirra með því að skírskota til trúarbragða, venja eða hefða.

Fastafulltrúi gerði jafnframt að umtalsefni þá áþján sem Baháa minnihlutatrúhópurinn býr við í Íran. Hann fagnaði því að breytingar til batnaðar á sviði mannréttindamála hafi átt stað í Íran að undanförnu. Það væri hinsvegar áhyggjuefni að enn væru grundvallarmannréttindi Baháa virt að vettugi. Hvatti hann írönsk stjórnvöld til að breyta um stefnu í þessum efnum.

Ennfremur lagði fastafulltrúi áherslu á menntun sem forvörn í þessu tilliti. Hér væri um að ræða verkefni sem ríkistjórnir og óháð félagasamtök gætu tekið höndum saman um.

Í ræðu sinni um starfsskýrslu flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna þakkaði fastafulltrúi árangursríkt starf flóttamannafulltrúans en sagði það á ábyrgð allra að gæta mannréttinda flóttamanna. Hann gerði jafnframt grein fyrir fyrirkomulagi á móttöku flóttamanna til Íslands og fjallaði sérstaklega um ,,stuðningsfjölskyldur" flóttamanna og mikilvægi þeirra í að auðvelda aðlögun að íslensku samfélagi.

Ræður fastafulltrúa fylgja hjálagt.

- SCAN0455.TIF



- SCAN0275.TIF





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. nóvember 1999.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum