Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 008, 10. febrúar 1999: Breytingar í skipan sendiherra 1999.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 008

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að gera eftirfarandi breytingar á skipan sendiherra í utanríkisþjónustunni.
Helgi Ágústsson, ráðuneytisstjóri, tekur við embætti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn 15. apríl n.k. Hann verður jafnframt sendiherra gagnvart Litháen, Tyrklandi og Bosníu og Hersegóvínu. Helgi var skipaður sendiherra í utanríkisþjónustunni árið 1987. Hann var sendiherra í London árin 1989 til 1995 og ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins frá árinu 1995.
Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í París, tekur við embætti ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins 8. mars n.k. Sverrir var skipaður sendiherra árið 1985 þegar hann tók við embætti skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu. Hann var skipaður fastafulltrúi Íslands hjá EFTA í Genf árið 1987, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu árið 1989, fastafulltrúi Íslands hjá NATO í Brussel árið 1990, fastafulltrúi Íslands hjá Vestur-Evrópusambandinu árið 1993 og hefur verið sendiherra í París frá árinu 1994.
Róbert Trausti Árnason, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, fer til starfa á Íslandi frá sama tíma. Róbert var skipaður sendiherra árið 1990. Hann var ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins árin 1994 og 1995 og tók við embætti sendiherra í Kaupmannahöfn árið 1996.
Kornelíus Sigmundsson, forsetaritari, tekur við embætti sendiherra Íslands í Helsinki 1. apríl n.k. Hann verður jafnframt sendiherra gangvart Eistlandi, Lettlandi og Úkraínu. Kornelíus var skipaður sendiherra árið 1996 eftir að hann tók við embætti forsetaritara.
Sigríður Ásdís Snævarr, prótókollstjóri, tekur við embætti sendiherra Íslands í París 1. apríl n.k. Hún verður jafnframt fastafulltrúi Íslands hjá OECD, FAO og UNESCO og sendiherra gagnvart Spáni, Portúgal, Ítalíu og Andorra. Sigríður var skipuð sendiherra árið 1991. Hún var sendiherra í Svíþjóð árin 1991 til 1996, en þá tók hún við embætti prótókollstjóra.
Guðni Bragason, sendiráðunautur mun gegna störfum prótókollstjóra frá 15. mars nk.
Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra, tekur við embætti sendiherra Íslands í London 15. júní n.k. Hann verður jafnframt sendiherra gagnvart Írlandi, Hollandi, Indlandi og Grikklandi. Þorsteinn var kosinn alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Suðurlandskjördæmi 1983 og varð fjármálaráðherra ásamt ráðherra Hagstofu Íslands 1985. Því starfi gegndi hann til 1987 er hann varð forsætisráðherra og gegndi störfum til 1988. Árið 1991 varð Þorsteinn sjávarútvegsráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra og hefur gegnt þeim störfum síðan.
Benedikt Ásgeirsson, sendiherra Íslands í London, tekur við embætti skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu 15. apríl n.k.. Benedikt var skipaður sendiherra árið 1994. Hann tók við embætti sendiherra Íslands í London árið 1995.
Þórður Ægir Óskarsson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, tekur við embætti fastafulltrúa Íslands hjá ÖSE í Vín 1. mars n.k. Hann var skipaður sendiherra um síðustu áramót.
Kristinn F. Árnason, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu, tók við embætti sendiherra Íslands í Osló 15. janúar sl. Hann er jafnframt sendiherra gangvart Slóvakíu, Tékklandi, Póllandi, Fyrrum sambandslýðveldi Júgóslavíu, Makedóníu og Kýpur. Kristinn var skipaður sendiherra árið 1998.
Stefán Haukur Jóhannesson, skrifstofustjóri almennrar skrifstofu, var skipaður sendiherra í janúar 1999 og tók þá við embætti skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 10. febrúar 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum