Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 087, 06.11.2000 Fríverslunarsamningur EFTA og Mexíkó

Samningaviðræðum EFTA ríkjanna og Mexíkó um fríverslun er nú lokið með áritun samningsins af hálfu aðalsamningamanna EFTA ríkjanna og Mexíkó í Genf. Benedikt Jónsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf, leiddi viðræðurnar fyrir hönd EFTA ríkjanna. Stefnt er að því að undirrita samninginn í Mexíkó í lok þessa mánaðar.
Hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland, því Mexíkó er mikilvægur og vaxandi markaður og innflutningstollar eru háir.
Full fríverslun mun gilda í viðskiptum með iðnaðarvörur. Í dag eru háir tollar lagðir á í innflutningi til Mexíkó á flestum vörutegundum og gefur samningurinn íslenskum framleiðendum mikilvæg tækifæri til að sækja á ný mið.
Mikilvægasti þáttur samningsins fyrir Íslands er fríverslun með sjávarafurðir. Mexíkó leggur 30% toll á flestar sjávarafurðir. EFTA ríkin fá sambærilegan aðgang að markaði Mexíkó og ESB fyrir sínar sjávarafurðir. EFTA ríkin sömdu um frjálsari upprunareglur en ESB fyrir saltaðan þorsk, sem gefa þeim tæki færi til að flytja inn heilan þorsk, vinna hann og salta og selja hann til Mexíkó tollfrjálst.
Tollur á sjávarafurðir fellur ýmist niður við gildistöku samningsins, eða verður afnumin í nokkrum þrepum á nokkrum árum.
Mexíkó og hvert EFTA ríkjanna hafa gert tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarvörur. Skýr tenging er milli þessara tvíhliða samninga og fríverslunarsamningsins sjálfs og gilda sambærileg ákvæði um viðskipti með tilteknar landbúnaðarvörur og aðrar vörur. Mexíkó fær sambærilegan aðgang og ESB fyrir grænmeti og ávexti, en í staðinn fær Ísland tollfrjálsan aðgang fyrir grænmeti og hross á fæti.
Í samningnum eru grunnákvæði um þjónustuviðskipti og fjárfestingar. Um er að ræða ákvæði um frjálsa fjármagnsflutninga og tryggingu fyrir því að samningsaðilar taki ekki upp nýjar reglur sem hamli viðskipti með þjónustu, auk ákvæða um afnám takmarkana á tíu árum. Þetta tryggir EFTA ríkjunum sömu stöðu gagnvart Mexíkó og Evrópusambandsríki og ríki Norður Ameríku hafa hvað varðar þjónustuviðskipti. Stefnt er að gerð tvíhliða fjárfestingasamnings milli Íslands og Mexíkó.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum