Norðurskautsráðið: Samvinna og friður

19.9.2016

  • Ráðherrar Norðurskautsríkjanna.

Norðurskautsráðið var stofnað í Ottawa 19. september 1996  í því skyni að efla samvinnu, samhæfingu og samskipti um málefni norðurslóða milli norðurskautsríkjanna, með virkri þátttöku frumbyggjasamtaka á norðurslóðum og annarra íbúa þar. Í dag fögnum við tveggja áratuga samstarfi um norðurslóðir og væntum friðar og stöðugleika á svæðinu til langframa. 

Síðustu tvo áratugi hefur samvinna um málefni norðurslóða skilað góðum árangri, allt frá brautryðjandi rannsóknum og skýrslum til áætlana og verkefna sem hafa orðið að veruleika og skilað mikilvægum og hagnýtum niðurstöðum. Norðurskautsráðið er einhuga í því að fást við það langtímaverkefni sem áhrif loftslagbreytinga á norðurslóðum eru og viðurkennir nauðsyn þess að grípa til bráðra aðgerða á heimsvísu á grundvelli Parísarsamningsins frá 2015. Með vinnu okkar er stefnt að bættum  hag íbúa á norðurslóðum, þ.á.m. frumbyggja, að verndun umhverfisins og  sjálfbærri þróun á gervöllu svæðinu, auk varðveislu  menningararfleifðar og lífsviðurværis frumbyggja.     

Samvinnan  á norðurslóðum spannar  alla þætti lífs og starfsemi á svæðinu. Norðurskautsráðið er í fararbroddi í þessari samvinnu og er öflugasti vettvangur virkrar samvinnu og samræmdra aðgerða á norðurslóðum. Árangur Norðurskautsráðsins má einnig rekja til virkrar þátttöku fulltrúa frumbyggjasamtakanna.     

Vísindarannsóknir á heimsmælikvarða

Norðurskautsráðið hefur verið í fararbroddi í að leggja fram vísindalegar rannsóknir á heimsmælikvarða, fást við áhrif hnattvæðingar og loftlagsbreytinga og greiða fyrir lausnum þessara krefjandi verkefna með samvinnu. Ráðið hefur  lagt sitt af mörkum til samþykktar bindandi reglna Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um smíði, búnað og rekstur skipa (e. Polar code), Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni og Minimatasamningsins um aðgerðir gegn losun kvikasilfurs svo nokkuð sé nefnt. 

Norðurskautsráðið hefur haft forystu um  mikilvæg sameiginleg verkefni, eins og Rammaáætlun um samvinnu gegn olíumengun frá olíuvinnslu og starfsemi á sjó á hafsvæðum norðurskautsins, Umgjörð um verndarsvæði í hafi á norðurslóðum, Aðgerðarramma vegna sóts og metans og Áætlun um vöktun á líffræðilegum fjölbreytileika á norðurslóðum, og vinnur nú að því að auka andlega vellíðan alls staðar á norðurslóðum. Nýtt verkfæri til stuðnings  umhverfisvernd á norðurslóðum, sem veitir fjárstuðning til verkefna sem miða að því að draga úr mengun, var sett á stofn í júlí 2014.     

Tveir lagalega bindandi samningar, sem Norðurskautsráðsið stóð að og gilda alls staðar á norðurslóðum, eru til vitnis um mikilsverða framþróun og hafa eflt samvinnu á norðurslóðum. Hér er um að ræða Samning um samstarf um leit og björgun á sjó og í lofti á norðurslóðum og Samning um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á norðurslóðum.     

Öryggi og efnahagur á norðurslóðum

Norðurskautsráðið hefur greitt fyrir tilurð nýs fyrirkomulags svæðisbundinnar samvinnu og samskipta, eins og Háskóla norðurslóða, vöktunarkerfis fyrir norðurslóðir (SAON), samstarfs strandgæslustofnana norðurskautsríkjanna á sviði leitar og björgunar, Efnahagsráðs norðurslóða og vettvangs fyrir eftirlitsaðila undan ströndum á norðurslóðum. 

Um leið og við göngumst við  ábyrgð okkar og forustuhlutverki við að tryggja umhverfisvernd og sjálfbæra þróun telja norðurskautsríkin samvinnu undir forsjá Norðurskautsráðsins vera gott tækifæri til þess að ýta undir jákvætt framlag af hálfu áheyrnaraðila og annarra áhugasamra hagsmunaaðila.      

Á þessari tuttugu ára afmælishátíð Norðurskautsráðsins áréttum við, norðurskautsríkin, skuldbindingu okkar gagnvart undirstöðuatriðum Ottawa-yfirlýsingarinnar. Sú skuldbinding felst í því að vinna saman og með samtökum frumbyggja þegar krefjandi áskoranir og tækifæri blasa við. Það er staðföst ætlun okkar að stuðla að velmegun, framþróun og sjálfbærni umhverfisins komandi kynslóðum til hagsbóta. 

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkja Norður-Ameríku

Timo Soini utanríkisráðherra Finnlands

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra Íslands

Stéphane Dion utanríkisráðherra Kanada

Kristian Jensen utanríkisráðherra Konungsríkisins Danmerkur

Børge Brende utanríkisráðherra Noregs

Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússneska sambandsríkisins

Margot Wallström utanríkisráðherra Svíþjóðar

Til baka Senda grein