Mikilvægi menntunar og baráttunnar fyrir bættu stjórnarfari og virðingu fyrir réttarríkinu

24.9.2016

  • Lilja í allsherjarþinginu.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra gerði menntun og baráttuna fyrir bættu stjórnarfari og virðingu fyrir réttarríkinu að meginefni ræðu sinnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Í upphafi gerði utanríkisráðherra fólksflutninga að umtalsefni og rifjaði upp reynslu Íslendinga frá síðustu öld þegar fjórðungur landsmanna hélt til vesturheims í leit að betra lífi. „En Íslendingar voru ekki flóttamenn. Þeir flúðu ekki stríð og hörmungar heldur voru þeir að leita betra lífsviðurværis fyrir sig og fjölskyldur sínar,” sagði utanríkisráðherra. Í dag hefðu hins vegar tugmilljónir manna neyðst að flýja stríð og ofbeldi í heiminum og langtímamarkmið alþjóðasamfélagsins yrði að vera að breyta átökum í frið og skapa efnahagleg tækifæri þar sem engin væru fyrir. Þannig mætti koma í veg fyrir að mannauður glatist.

Í þessu samhengi vék utanríkisráðherra að átökunum í Sýrlandi og framlagi Íslands til flóttamannavandans. Lilja fordæmdi harðlega árásir á bílalest Sameinuðu þjóðanna, sem var að flytja hjálpargögn, og árásir og mannfall í Aleppo. Þá ítrekaði ráðherra nauðsyn þess að friðsamleg lausn næði fram að ganga og kom jafnframt á framfæri þakklæti til grannríkjanna Tyrklands, Líbanon og Jórdaníu sem hefðu axlað byrðar vegna þeirrar neyðar sem skapast hefur vegna fólks sem flýr átökin í Sýrlandi.

Þá vék utanríkisráðherra að mannréttindum og réttarríkinu og sagði að ef lög byggðu ekki á mannréttindum myndu þau aldrei njóta stuðnings almennings til langframa, heldur sá fræjum misréttis og grafa undan samfélagsgildum. Þannig gætu slæmir stjórnarhættir ógnað öryggi þjóða og valdið óstöðugleika. Ekkert ríki væri eyland í alþjóðasamfélaginu. Sagði ráðherra jafnframt að alþjóðalög væru undirstoðir samskipta á milli ríkja og stöðugleika í alþjóðasamfélaginu. „Fyrir friðsama smáþjóð eins og Ísland eru alþjóðalög okkar sverð, skjöldur og skjól,” sagði Lilja.

Í þessu samhengi gerði Lilja Kóreuríkin að umtalsefni og sagði það sláandi að á sunnanverðum Kóreuskaga væri eitt fremsta og þróaðasta hagkerfi heims sem risið hefði úr mikilli fátækt fyrir um hálfri öld. Norður-Kórea væri hins vegar ein fátækasta þjóð heims, þar sem einræðisstjórn ríkir, landsframleiðsla væri 5% á við Suður-Kóreu og fátækt og hungur viðvarandi. Lilja sagði kjarnorkuáætlanir Norður Kóreu valda miklum áhyggjum. „Með áætlunum sínum ógnar stjórnin í Pyongyang öryggi eigin þjóðar, stöðugleika í Asíu og í raun heimsbyggðarinnar,” segir Lilja og fordæmdi kjarnorkutilraunir Norður Kóreu, sem eru í trássi við alþjóðalög og samninga.

Utanríkisráðherra vitnaði í orð Nelsons Mandela sem sagði að menntun væri öflugasta vopnið til að breyta heiminum. Sagði hún þessi orð og þessa hugsun endurspegla forsendur fyrir góðum stjórnarháttum. „Ef fólk þekkir ekki rétt sinn og virðir ekki skoðanir annarra þá verður erfitt að byggja upp friðsamleg og samstillt samfélög.” Hún sagði menntun vera leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands. Íslendingar hefðu reynt það sjálfir á síðustu öld þegar þjóðin reis til bjargálna. „Þessum árangri hefði aldrei verið unnt að ná án öflugs skólakerfis og óheftu aðgengi almennings að æðri menntastofnunum.”

Ennfremur sagði utanríkisráðherra menntun hafa tryggt konum aukinn rétt sem birtist meðal annars í auknum fjölda kvenna sem eru utanríkisráðherrar. Baráttunni væri þó fráleitt lokið og víða í heiminum væri réttur kvenna fyrir borð borinn sem kæmi niður á jafnt konum, körlum og samfélaginu í heild sinni. 

Í lok ræðu sinnar þakkaði utanríkisráðherra aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, fyrir störf sín á undanliðnum áratug og nefndi sérstaklega jafnrétttsmál og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Ræða utanríkisráðherra á allsherjarþingi SÞ

Til baka Senda grein