Mannréttindi hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands

27.2.2017

  • Guðlaugur Þór og mannréttindafulltrúi SÞ.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, lagði áherslu á að mannréttindi væru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands í ávarpi sínu fyrir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag, en þetta er í fyrsta skipti sem utanríkisráðherra Íslands sækir árlega ráðherraviku mannréttindaráðsins frá því að það var sett á fót í núverandi mynd fyrir um tíu árum.

Í ræðu sinni sagði Guðlaugur Þór að ekki væri hægt að ætlast til að mannréttindi séu virt í fjarlægum löndum ef ekki er hugað fyrst að stöðu mannréttinda heimafyrir. Þess vegna fögnuðu íslensk stjórnvöld því að fá tækifæri til að undirgangast þá jafningjarýni sem fram fer á vegum Mannréttindaráðsins, en Ísland var tekið fyrir í annað skipti hjá ráðinu sl. haust. Margar góðar ábendingar hefðu borist frá öðrum aðildarríkjum SÞ í jafningjarýninni, bæði nú og síðast þegar Ísland undirgekkst rýnina, árið 2011. 

Utanríkisráðherra gagnrýndi víðtæk mannréttindabrot í Norður-Kóreu og á Filippseyjum þar sem meintir glæpamenn hafa verið teknir af lífi án dóms og laga. Þá harmaði hann hlutskipti óbreyttra borgara í löndum eins og Jemen og Sýrlandi þar sem stríð hafa geisað. Ennfremur gagnrýndi ráðherrann bágborna stöðu kvenna í Sádí-Arabíu, ofsóknir gegn minnihlutahópum í Myanmar og gegn hinsegin fólki (LGBTQ) víða um heim. Ráðherra lýsti ennfremur áhyggjum af stöðu mála í austurhluta Úkraínu og á Krímskaga. Þá hvatti hann tyrknesk stjórnvöld, þrátt fyrir erfiða stöðu, til að virða skuldbindingar sínar í mannréttindamálum, þ.m.t. að tryggja sjálfstæði dómskerfisins og virða frelsi fjölmiðla.

Guðlaugur hitti mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra‘ad Al Hussein, einnig á fundi í dag og ræddu þeir m.a. ástand mannréttindamála í heiminum. Lýsti Zeid þar áhyggjum sínum af þróuninni undanfarin misseri og lagði áherslu á að stjórnmálaleiðtogar yrðu að tala fyrir mannréttindum hvarvetna á óvissutímum sem þessum.Guðlaugur Þór þakkaði mannréttindafulltrúanum einnig sérstaklega fyrir starf sitt í þágu mannréttinda í heiminum, í ræðu sinni: „Þú hefur verið óhræddur við að varpa ljósi á mannréttindabrot hvar í heimi sem þau viðgangast og ljáð þeim rödd sem ekki hafa hana." 

Fyrr í dag hitti utanríkisráðherra Filippo Grandi, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar SÞ, og skrifuðu þeir Grandi undir samkomulag sem felur í sér loforð af hálfu íslenskra stjórnvalda um a.m.k. 50 mkr. í óeyrnamerkt kjarnaframlög næstu þrjú árin. Er samkomulag þetta í samræmi við áherslur þróunarsamvinnuáætlunar stjórnvalda. Grandi þakkaði á fundinum íslenskum stjórnvöldum fyrir þann mikla stuðning sem þau hefðu veitt undanfarið ár, m.a. með 325 milljóna króna framlagi í fyrra sem var liður í aukafjárveitingum ríkisstjórnar og Alþingis til flóttamannavandans haustið 2015. Grandi sagði þennan stuðning mikils metinn, sem og móttaka Íslendinga á meira en eitt hundrað sýrlensku kvótaflóttafólki á undanförnu ári. Blikur væru á lofti í flóttamannamálunum og því væri mikilvægt að ríki eins og Ísland héldu ekki að sér höndum andspænis gríðarmiklum vanda, en 65 milljónir manna eru nú á flótta frá heimilum sínum í heiminum.

Utanríkisráðherra mun einnig skrifa undir samkomulag um framlög við forsvarsmenn OCHA, Samræmingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum, í heimsókn sinni til Genf að þessu sinni.

Upptaka af ávarpi utanríkisráðherra

Til baka Senda grein