Íslenska jarðhitaverkefnið í Austur-Afríku fær góða einkunn í óháðri úttekt

29.9.2016

  • Jarðhiti

Fjögurra ára samstarfsverkefni um jarðhitaleit í austanverðri Afríku milli utanríkisráðuneytisins og Norræna þróunarsjóðsins (NDF) lýkur á næsta ári. Verkefnið fær prýðisgóða einkunn í óháðri úttekt.  

„Meðal þess sem fram kemur í úttektinni er að verkefnið svarar augljósri og brýnni þörf landa í Austur-Afríku, þjálfunarþátturinn hafi gengið mjög vel og mælst vel fyrir meðal þátttakenda,  jarðhitaleit og yfirborðsrannsóknir hafi verið í háum gæðaflokki og góðar líkur séu taldar á því að markmið verkefnisins náist, þótt óvissa sé um jarðhita og magn hans í flestum landanna,“ segir María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytis. 

Íslenska jarðhitaverkefnið - Geothermal Exploration Project - hófst árið 2013 í samfjármögnun með Norræna Þróunarsjóðnum (NDF) en það er líka tengt viljayfirlýsingu Íslands og Alþjóðabankans í jarðhitamálum (Geothermal Compact).  Í verkefnisskjali við upphaf verkefnis var gert ráð fyrir áfangaúttekt og samið var við  Nordic Consulting Group að loknu alþjóðlegu útboði. Úttektaraðilar heimsóttu Ísland og þrjú landanna sem njóta stuðnings frá verkefninu, Eþíópíu, Kenía og Rúanda, og áttu fundi með fjölda aðila sem að verkefninu koma með einum eða öðrum hætti, auk þess að meta ýmis verkefnisgögn.

„Þessi áfangaúttekt skilar traustum niðurstöðum og tillögum varðandi stöðu jarðhitaverkefnisins og framkvæmd þess til verkefnisloka. Í úttektinni segir að verkefnið sé mikilvægt, vel undirbúið og framkvæmt. Engin umtalsverð gagnrýni er sett fram og góðar líkur taldar á því að markmiðin náist,“ segir María Erla.

Um óvissuna varðandi jarðhita og magn hans segir María Erla að frá upphafi hafi ætlunin verið að leiða í ljós hversu mikinn nýtanlegan jarðhita væri að finna í löndum í sigdalnum í Austur-Afríku og því komi ekki á óvart að háhita hafi ekki verið að finna í mörgum landanna eins og Úganda, Rúanda, Búrúndi, Sambíu og Mósambík. „Því er svo við að bæta að vel heppnuð jarðhitaleit í Eþíópíu mun að öllum líkindum mjög fljótlega verða grunnur að jarðhitaborunum með fjármögnun frá Alþjóðabankanum,“ segir hún.

Í úttektinni kemur fram að nokkrar  breytingar hafa orðið á verkefninu í framkvæmd, borið saman við upprunalegt verkefnisskjal. Allar falli þær þó vel að verkefnishugmyndinni og  það er mat úttektaraðila að breytingarnar séu jákvæðar. Þá telja þeir að vinnan við að koma á laggirnar þekkingarsetri um jarðhita í Kenía - African Geothermal Center of Excellence - sé mikilvæg. 

Úttektarskýrslan 

Til baka Senda grein