Heimsmarkmið SÞ, flóttamenn, aðkoma einkageirans og fjármögnun þróunarmála í brennidepli

19.2.2016

  • Ísland og Írland á fundi DAC
    Ísland og Írland á fundi DAC

Mörg stór og aðkallandi mál í þróunarsamvinnu og mannúðarstarfi voru rædd á ráðherrafundi Þróunarsamvinnunefndar OECD sem lauk í París í dag. Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.

Umfjöllunarefni fundarins og umræður um þau sýndu mikil tengsl á milli þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar og nauðsyn þess að byggja brýr þar á milli. Nokkrir háttsettir gestir frá Sameinuðu þjóðunum tóku þátt í fundinum, m.a. Jan Eliasson varaframkvæmdastjóri SÞ. Lögðu þeir  áherslu á að langtíma þróunarsamvinna og fyrirbyggjandi aðgerðir skipti sköpum við að koma í veg fyrir neyðarástand í mannúðarmálum, sem um 125 milljónir manna í heiminum búa nú við.

Ný Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru rauði þráðurinn á fundinum en þau verða leiðarvísir í öllu starfi SÞ fram til 2030. OECD ætlar að stuðla að því að markmiðin náist en stofnunin hefur miklu við að bæta, ekki síst á sviði greiningarvinnu og tölfræði. Hið síðasttalda er einn helsti styrkur þróunarsamvinnunefndarinnar, en á hennar vegum er haldið utan  um allar tölur um opinber framlög til þróunarmála. Á fundinum voru teknar ákvarðanir um uppfærslu á reglum um hvað megi telja fram sem opinbera þróunaraðstoð, annars vegar tengt friðar- og öryggismálum, og hins vegar aðferðum til að efla einkageirann í þróunarsamvinnu. Almennt er orðið viðurkennt að þátttaka einkageirans sé forsenda fyrir því að Heimsmarkmiðin náist.

Ísland varð aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD árið 2013.  Meðal þess sem Ísland talar fyrir innan nefndarinnar er aðstoð við fátækustu þróunarríkin; trúverðugleiki í skilgreiningum á hugtakinu opinber þróunaraðstoð og síðast en ekki síst samþætting kynjasjónarmiða í alla þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. 

Til baka Senda grein