Fríverslun rædd á fundi utanríkisráðherra Íslands og Færeyja

27.3.2017

  • Guðlaugur Þór og Poul Michelsen

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti hádegisverðarfund með Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja á föstudag, 24. mars, en fundurinn var haldinn í tengslum við komu færeyskrar viðskiptasendinefndar hingað til lands.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir ýmis mál er varða samskipti landanna. Meðal annars ræddu þeir umsókn Færeyinga um aðild að EFTA, en Færeyingar hafa óskað eftir aðild að samtökunum og nýtur umsóknin stuðnings danskra stjórnvalda. Utanríkisráðherra ítrekaði fyrri yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda um eindreginn stuðning við umsókn Færeyinga.

Ráðherrarnir ræddu einnig um stöðu Hoyvíkursamningsins og hvernig greiða megi enn frekar fyrir viðskiptum milli landanna. Þeir fóru einnig yfir stöðu viðræðna milli landanna um samspil Hoyvíkursamningsins við samninga á sviði fiskveiða, en sjávarútvegsráðherrar landanna ákváðu í desember 2015 að hefja slíka skoðun. Þá ræddu þeir samvinnu landanna á norrænum og alþjóðlegum vettvangi og um möguleg áhrif fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr ESB.

Loks ræddu ráðherrarnir um stöðu vinnu við að kanna kosti þess að gerður verði fríverslunarsamningur milli Íslands, Færeyja og Grænlands, en vinnuhópur skipaður fulltrúum landanna þriggja var settur á stofn síðasta sumar til að kanna möguleika á gerð slíks samnings eða annars konar samstarfssamnings milli landanna. 

Ráðherrarnir stefna að því að ræða samskipti landanna frekar í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands og utanríkisráðherra til Færeyja í lok maí. Þá munu ráðherrarnir funda ásamt Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, hér á landi síðar á þessu ári, í samræmi við ákvörðun utanríkisráðherra landanna þriggja frá síðasta ári um árlega fundi þeirra til að ræða sameiginleg hagsmunamál á sviðum viðskipta og utanríkismála. 

Til baka Senda grein