Fagnar tillögu landgrunnsnefndar SÞ um Ægisdjúp, áfram sótt varðandi Reykjaneshrygg

15.4.2016

Íslenskum stjórnvöldum hafa borist tillögur landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk íslenska landgrunnsins vestur af Reykjaneshrygg annars vegar og á Ægisdjúpi í suðurhluta Síldarsmugunnar hins vegar. Tillagan felur í sér svar nefndarinnar við kröfugerð sem Ísland skilaði í apríl 2009. Niðurstaða landgrunnsnefndarinnar var að fallast á kröfur Íslands varðandi Ægisdjúp í samræmi við upprunalega greinargerð þar um og um ytri mörk vestur af Reykjaneshrygg innan 350 sjómílna. Hins vegar var ekki tekin afstaða til suðurmarka undan Reykjaneshrygg og gögn um svæðið utan 350 sjómílna vestur af hryggnum voru ekki talin styðja nægilega kröfur Íslands um að það teldist náttúrulegur hluti landgrunnsins.

 

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fagnar tillögu nefndarinnar um Ægisdjúpið, þar sem hún geri Íslandi kleift að ákvarða með bindandi hætti ytri mörk landgrunnsins á því svæði og ganga formlega frá samningi þar að lútandi við nágrannaríkin. „Ég lýsi hins vegar vonbrigðum yfir tillögu nefndarinnar um mörkin vestur af Reykjaneshrygg, enda víkur nefndin töluvert frá tillögu undirnefndarinnar án þess að færa fyrir því sérstök rök. Það dregur úr trúverðugleika ferlisins og gerir stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna málið áfram á þann hátt sem hafréttarsamningurinn gerir ráð fyrir.“

 

Stjórnvöld hafa undanfarið unnið að afmörkun landgrunns austurhluta Reykjaneshryggjar á grundvelli hins sameiginlega skilnings sem skapaðist með undirnefnd landgrunnsnefndarinnar. Utanríkisráðherra hefur í ljósi þeirrar tillögu sem nú liggur fyrir um vesturhlutann ákveðið að samhliða því verði áfram sótt í málinu og unnið að mótun endurskoðaðrar greinargerðar fyrir vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar  með það fyrir augum að heildstæð mynd af öllu svæðinu liggi fyrir þegar nefndin fær það til skoðunar á ný.

 

Í samræmi við viðtekið verklag hjá landgrunnsnefndinni kom hún á fót undirnefnd til að fara yfir kröfur Íslands. Undirnefndin skoðaði málið ítarlega í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Í þeirri vinnu skapaðist sameiginlegur jarðfræðilegur skilningur varðandi skilgreiningu ytri markanna og víðáttu landgrunnsins. Undirnefndin skilaði tillögum á þeim grunni til landgrunnsnefndarinnar í febrúar 2014. Landgrunnsnefndin í heild sinni hefur haft málið til umfjöllunar síðastliðin tvö ár.

 

Niðurstaða landgrunnsnefndarinnar er sett fram í formi tillögu til stjórnvalda. Fallist stjórnvöld á tillögu nefndarinnar telst ákvörðun um ytri mörk á þeim grunni bindandi samkvæmt hafréttarsamningnum. Fallist stjórnvöld ekki á tillögu nefndarinnar gerir samningurinn hins vegar einnig ráð fyrir að stjórnvöld geti skilað endurskoðaðri greinargerð til nefndarinnar innan hæfilegs tíma.

Til baka Senda grein