Endurreisn sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna minnst

26.9.2016

  • Utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands

Utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands minntust þess við athöfn í Höfða í dag að 25 ár eru liðin frá endurreisn sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna en Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði þeirra og taka upp stjórnmálasamband við ríkin þrjú.

Linas Antanas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháen, Edgars Rinkçviès, utanríkisráðherra Lettlands, Jürgen Ligi, utanríkisráðherra Eistlands og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, undirrituðu yfirlýsingu þar sem þau ítrekuðu vilja sinn til samvinnu og að treysta enn frekar vináttubönd þjóðanna. Við athöfnina rifjaði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra upp aðdraganda viðurkenningarinnar, sem var einmitt undirrituð í Höfða. Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, sem átti stóran þátt í sjálfstæðisviðurkenningu Íslendinga, var viðstaddur athöfnina en S. Björn Blöndal, staðgengill borgarstjóra, bauð gesti velkomna. 

Að athöfn lokinni áttu utanríkisráðherrar Íslands og Eystrasaltsríkjanna vinnufund með forsætisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, þar sem fjallað var um málefni Sameinuðu þjóðanna að lokinni þátttöku í allsherjarþinginu, ástandið í Sýrlandi, málefni flóttafólks og öryggismál í Evrópu.

Á málþingi í Norræna húsinu var sjónum svo beint að samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, m.a. innan Eystrasaltsráðsins.  Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fluttu opnunarávörp og utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands tóku þátt í pallborðsumræðum.

Til baka Senda grein