Endurnýjanlegir orkugjafar og tengslin styrkt

22.9.2016

  • Lilja Alfreðsdóttir og Ban Ki-moon.

Möguleikinn á frekari nýtingu jarðvarma til húshitunar og raforkuvinnslu var umræðuefnið á fundi sem Ísland, Kenýa og IRENA, alþjóðastofnun um endurnýjanlega orkugjafa, stóðu fyrir í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í dag. Á fundinum hvatti Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra til aukins samstarfs á þessu sviði og bauð fram sérfræðiþekkingu Íslands, gæti hún orðið að gagni fyrir aðrar þjóðir. Þá ræddi hún um mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og vísaði m.a. til Parísar-samningsins sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland hefur fullgilt samninginn og í gær afhenti utanríkisráðherra Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ, fullgildingarskjal Íslands því til staðfestingar. 

Nú hafa um 60 ríki fullgilt samninginn og er sá fjöldi ríkja samanlagt ábyrgur fyrir um 48% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Til að samningurinn taki gildi þarf fullgildingu frá ríkjum sem samanlagt losa a.m.k. 55% af gróðurhúsalofttegundum.

Samhliða Allsherjarþingi SÞ í New York hefur Lilja átt tvíhliða fundi með fulltrúum ýmissa þjóða. Þeirra á meðal utanríkisráðherra Sviss, Didier Burkhalter, þar sem rætt var um samstarf þjóðanna og sameiginleg hagsmunamál. Þá fundaði ráðherra með Edward Nalbandian, utanríkisráðherra Armeníu, en ríkin fagna 20 ára stjórnmálasambandi á næsta ári og voru ráðherrarnir sammála um að styrkja tengsl ríkjanna á viðskipta- og stjórnálasviðinu að því tilefni. Lilja fundaði einnig með Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástralíu, þar sem rætt var um mannréttinda- og jafnréttismál, og með starfssystur sinni frá Namibíu, Netumbo Nandi-Ndaitwah. Þar var samvinna þjóðanna á sviði landgræðslumála til umræðu. 

Þá tók Lilja þátt í fundi ríkja sem styðja baráttu LGBT+ fólks til að njóta fullra mannréttinda. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa lagt áherslu á að virða réttindi LGBT+ fólks og leggur þeim mikilvæga málstað lið á vettvangi SÞ. Meðal frummælenda var Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna. 

Til baka Senda grein