Atlantshafsbandalagið og Rússland koma saman til fundar

20.4.2016

Í dag fór fram í Brussel fundur NATO-Rússlandsráðsins en í því eiga sæti aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Rússland. Ráðið hefur ekki komið saman til fundar í hartnær tvö ár vegna aðgerða Rússlands í Úkraínu. Rætt var um átökin í Úkraínu og framkvæmd Minsk-samkomulagsins, aðgerðir til draga úr spennu og auka gagnsæi á hernaðarsviðinu og þróun öryggismála í Afganistan.

„Ég tel afar jákvætt að NATO-Rússlandsráðið hafi fundað um þessi mikilvægu málefni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. „Atlantshafsbandalagið og Rússland eru vissulega ósammála um margt en það er mikilvægt að halda samtalinu áfram og leita leiða til að koma á friði í Úkraínu".

Bandalagsríkin ítrekuðu einarðan stuðning við fullveldi Úkraínu og áréttuðu fordæmingu á ólöglegri innlimun Krímskaga í Rússland. Þau lýstu einnig áhyggjum af vaxandi átökum í austurhluta Úkraínu og áreiti gagnvart vopnahléseftirlitsmönnum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE. Kallað var eftir því að allir aðilar að Minsk-samkomulaginu uppfylltu skyldur sínar.

Bandalagsríkin lýstu áhyggjum af því að dregið hefði úr gagnsæi og upplýsingagjöf tengdum auknum hernaðarumsvifum Rússa. Farið var fram á að Rússland taki þátt í samstarfi um endurbætur á alþjóðlegu regluverki til að auka gagnsæi og traust, þá sérstaklega svokölluðu Vínarskjali á vettvangi ÖSE. 

Þá var rætt um öryggisástandið í Afganistan og þær áskoranir sem stjórnvöld þar í landi standa frammi fyrir. Bandalagið vinnur áfram að því í samvinnu við heimamenn að bæta stöðugleika og öryggi. 

Til baka Senda grein