Áhugi á frekara samstarfi við ÖSE um jafnréttis- og orkumál

11.10.2016

  • Lilja tekur á móti Lamberto Zannier
    Lilja tekur á móti Lamberto Zannier

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með Lamberto Zannier, framkvæmdastjóra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, sem staddur er hér á landi í tengslum við málþing í tilefni þess að 30 eru liðin frá Höfðafundinum í Reykjavík. Þau ræddu áhrif og arfleifð fundarins og mikilvægi þess að deiluaðilar ræði ágreining sinn og leiti lausna, sem einkenndi hafði Höfðafundinn og þær viðræður sem þar áttu sér stað.

Þau ræddu einnig stöðuna í austurhluta Úkraínu þar sem eftirlitssveitir ÖSE hafa starfað í hálft þriðja ár, sem og málefni flóttamanna. Þá lýsti Zannier áhuga á að fá Íslendinga til frekara samstarfs í jafnréttismálum og orkumálum. Vaxandi áhugi er á orkuöryggi innan stofnunarinnar og ræddu þau sérþekkingu Íslendinga á sviði sjálfbærrar orku, sem mætti kynna á vettvangi ÖSE.  Þá hefur stofnunin áhuga á að halda svokallaðar rakarastofuráðstefnu með Íslendingum, sem miðar að því að virkja karlmenn í umræðu um jafnréttismál.

Til baka Senda grein