Hoppa yfir valmynd
9. maí 2007 Utanríkisráðuneytið

Opnun RES Orkuskóla

Ræða Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra

við formlega opnun RES Orkuskóla á Akureyri

Góðir áheyrendur, kæru vinir,

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að vera með ykkur við þetta hátíðlega tækifæri. Ég er sérstaklega ánægð og stolt yfir því að vera hér í dag við formlega opnum RES Orkuskóla á Akureyri.

Ég hef iðulega haft á orði að eitt merkasta framlag Íslands til umhverfisverndar sé sjálfbær nýting okkar á endurnýjanlegum auðlindum. Virkjun sem hér er byggð og nýtir okkar umhverfisvænu og endurnýjanlegu orkulindir dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Þegar álverið á Reyðarfirði tók til starfa í síðasta mánuði var því ekki einungis stigið framfaraskref fyrir Austfirði og Ísland, heldur fyrir heiminn allan. Útblástur koltvíoxíðs frá álveri sem knúið er kolum er tífalt meiri en frá álveri sem fær orku frá vatnsfallsvirkjun, og ef álið væri ekki framleitt hér á vistvænan hátt yrði það framleitt annars staðar, í flestum tilvikum með kolum eða jarðgasi með tilheyrandi aukinni mengun.

En við getum gert fleira til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifum í heiminum en að nýta eigin orkulindir. Ísland er nefnilega meðal fremstu þjóða í heiminum í notkun og þróun á tækni til að nýta endurnýjanlega orkugjafa. Í dag eru um 90% bygginga á Íslandi hituð með jarðvarma. Frumorkuþörf okkar er að þremur fjórðu hluta mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í heiminum öllum er hlutur endurnýjanlegrar orku aðeins um 15%. Þó búa margar þjóðir vel hvað endurnýjanlegar orkulindir varðar, en hefur skort reynslu og þekkingu til að nýta þær sér til hagsbóta.

Þessarar reynslu og þekkingar höfum við hins vegar aflað í gegnum árin og áratugina og í starfi mínu sem utanríkisráðherra, og þar áður sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hef ég hvarvetna orðið vör við að litið er til Íslands sem forystuþjóðar á sviði endurnýjanlegrar orkunýtingar. Fyrir skemmstu átti ég t.a.m. fund með pólskri starfssystur minni og varaforsætisráðherra Slóvakíu um aukið samstarf í orkumálum. Í undirbúningi er samstarfsyfirlýsing við Indland – annað fjölmennasta ríki heims. Hér stöndum við einfaldlega fremst þjóða og samstarf við okkur þykir eftirsóknarvert.

Íslensk fyrirtæki eru í dag leiðandi á alþjóðavísu í þróun endurnýjanlegra orkugjafa og orkubera, sem og í rannsóknum á því hvernig stuðla megi að bættri orkunýtni. Þá hafa fyrirtæki hér á landi einnig stuðlað að því að minna þróuð ríki, geti nýtt sér þessa möguleika. Nýlega opnaði ég t.a.m. fyrsta áfanga nýrrar hitaveitu í borginni Xian Yang í Kína, sem íslenskir fjárfestar og vísindamenn á vegum ENEX-Kína koma að því að reisa. Kínversk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2020 muni 15% allrar orkunotkunar í Kína koma frá endurnýjanlegum orkulindum. Það má hverjum ljóst vera að það skiptir miklu fyrir umhverfið og mannkynið að hjálpa Kínverjum að ná þessu marki. Það geta Íslendingar gert með útflutningi á þekkingu og verkviti, sem og fjárfestingu í slíkum verkefnum. Þróunarsamvinna okkar Íslendinga tekur einnig aukið mið af þessari þörf og íslenskt hugvit á sviði jarðvarma er nú nýtt í þróunarverkefnum í Nikaragúa og Úganda.

Góðir áheyrendur,

Besta mögulega framlag okkar Íslendinga til umhverfisverndar á heimsvísu er að efla jarðvarmarannsóknir og rannsóknir á öðrum endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum og orkuberum. Þannig getum við stuðlað að því að heimurinn öðlist sem besta þekkingu á orkulindum, sem víða eru óbeislaðar og vannýttar. Nýting þeirra getur skipt höfuðmáli, ekki aðeins fyrir umhverfið, heldur einnig fyrir hagsæld og uppbyggingu á viðkomandi svæði. Það er skoðun mín að Ísland eigi að verða alþjóðleg miðstöð í orkurannsóknum. Við höfum allar forsendur til að vera leiðandi í nýtingu á visthæfum orkugjöfum og hér á landi getum við boðið upp á háskólanám á þessu sviði af bestu gerð.

Mannauður er það dýrmætasta sem hver þjóð býr yfir. Án mannauðs náum við ekki að nýta þann auð sem náttúran hefur látið okkur í té. Okkur Íslendingum hefur með menntun og reynslu tekist að beisla þau öfl náttúrunnar sem áður stóð ógn af. Vel menntuð þjóð er besta trygging fyrir áframhaldandi hagvexti. Þjóðir heims keppast við að bæta sitt menntakerfi og æ fleiri horfa til þeirra tækifæra sem felast í því að bjóða útlendingum að sækja menntun til sinna landa. Við Íslendingar eigum gott menntakerfi en við getum ekki frekar en aðrir verið í fremstu röð á öllum sviðum. Þess vegna er svo mikilvægt að við veljum okkur þær greinar þar sem við búum yfir hvað mestri þekkingu á heimsvísu og vinnum skipulega að því að miðla okkar þekkingu til annarra.

Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna og Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna eru mjög góð dæmi um það hvernig við höfum getað lagt okkar að mörkum til að byggja upp þekkingu í þróunarlöndum. Nú er í skoðun að setja upp þriðja háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi á sviði landgræðslu og jarðbóta, þar sem Íslendingar hafa sömuleiðis heilmargt fram að færa.

Útflutningur á menntun er í reynd nýtt hugtak á Íslandi. Við höfum hins vegar lengi flutt inn menntun þar sem okkar námsmenn hafa leitað til náms víða um heim. Þeir hafa flutt með sér gríðarlega þekkingu og átt sinn stóra þátt í að Íslendingar hafa náð að skapa sér einhver allra bestu lífskjör sem þekkjast. Þekkingarstig okkar á ákveðnum sviðum er nú orðið svo hátt að við getum launað greiðann ef svo má að orði komast. Í síauknum mæli getum við boðið útlendingum upp á menntun sem þeir geta naumast öðlast annars staðar. Menntun sem hinir erlendu nemar geta nýtt sér til hagsbóta fyrir ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur samfélag sitt og þjóð.

Áratugaþekking okkar á beislun fallvatna og jarðhita skapa okkur ný tækifæri til sóknar í útflutningi á menntun. Menntun erlendra nemenda á þessu sviði hér á landi skapar á móti tengsl og tækifæri til áframhaldandi samtarfs okkar landa í millum um beislun náttúruauðlinda, allri heimsbyggðinni til hagsbóta.

Opnun RES Orkuskóla hér í dag er sérstaklega mikilvæg í þessu tilliti. Skólinn er í raun svar við brýnni þörf sem til staðar er og kallað er eftir um heim allan. Hann sameinar allt í senn - þekkingu, hugvit, reynslu og framsýni, og er einn fárra skóla á þessu sviði í heiminum. Og hvar annars staðar ætti alþjóðlegur háskóli á sviði orkurannsókna að vera en í höfuðstað Norðurlands, í námunda við Mývatnssveit þar sem Kröfluvirkjun er að finna, Bjarnarflag, Jarðböðin og fleira. Ylræktin sem stunduð er á Hveravöllum og Hitaveita Húsavíkur eru heldur ekki langt undan, nú eða hitaveitan hér í bænum og á Ólafsfirði sem er ein sú elsta á landinu. Hér eru einnig vatnsaflsvirkjanir í næsta nágrenni, t.d. Laxárvirkjun, Blönduvirkjun og auðvitað Kárahnjúkavirkjun.

Dugmiklir einstaklingar og framsýn fyrirtæki og stofnanir hafa fyrst og síðast gert okkur kleift að standa hér í dag af þessu tilefni. Sem utanríkisráðherra hefur mér verið bæði ljúft og skylt að leggja mitt lóð á vogarskálarnar. Ég hef verið fullvissuð um að á stjórnarfundi Þróunarsjóðs EFTA þann 23. maí n.k. muni verða samþykkt að veita um 150 milljón króna styrk til verkefnisins. Hér er um að ræða verkefni sem RES og fimm fremstu tækniháskólar Póllands hafa sameinast um að hrinda úr vör. Ásamt rannsóknum er tilgangur verkefnisins að mennta pólska verkfræðinga í orkufræðum við RES Orkuskóla á Akureyri. Mér skilst að þessi styrkur muni tryggja nemendagjöld fyrir á fimmta tug nemenda í meistara- og doktorsnám á næstu tveimur árum.

Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn og er þess fullviss að RES Orkuskóli verði ekki aðeins góð viðbót við hið ört vaxandi háskólastarf á Akureyri og nærumhverfi sínu til hagsbóta, heldur nái jákvæð áhrif hans langt út fyrir landsteinana.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum