Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2007 Utanríkisráðuneytið

Samstarfsverkefni við Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP)

Ávarp
Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra
í tilefni af samstarfsverkefni við Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP)
Þriðjudaginn 17. apríl 2007, Grand Hótel kl. 08.15-09.30

 

Ladies and Gentlemen,

I would like to begin by extending a warm welcome to our guests from the UNDP Nordic Office in Copenhagen, Mr. Jakob Simonsen, director, and Mr. Søren Mandrup Petersen, policy advisor. I believe this is not their first visit to Iceland and will not be their last, as today is an important milestone in the relationship between Iceland and the UNDP, which I will come to later. I will now switch over to Icelandic. 

Góðir fundargestir,

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin á þennan morgunverðarfund sem haldinn er í tilefni af undirritun samstarfsverkefnis utanríkisráðuneytisins og Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) í samstarfi við Viðskiptaráð. 

Með samþykki Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna árið 2000 sameinaðist alþjóðasamfélagið um átta markmið þróunarsamvinnu sem m.a. stefna að því að draga úr fátækt, bæta lífsgæði fólks, vernda náttúruna, og stuðla að jákvæðum áhrifum hnattvæðingar á fólk um heim allan.

Eitt af Þúsaldarmarkmiðunum - það áttunda í röðinni - leggur áherslu á að styrkja hnattræna samvinnu um þróun. Í því felst meðal annars samstarf við einkageirann og hefur þátttaka hans í efnahagslegri þróun fátækari ríkja aukist mjög á undanförnum árum. Einkafyrirtæki sjá í sífellt meira mæli sóknarfæri á nýjum mörkuðum og aukin samfélagsleg vitund fyrirtækja hvetur þau til að leggja sitt af mörkum við útrýmingu á fátækt. Einkafyrirtæki skapa atvinnu og fjárfestingar í miklum mæli, auk þess sem þau greiða skatta til hins opinbera og stuðla þannig að uppbyggingu á grunngerð samfélagsins og samfélagsþjónustu. Hlutverk fyrirtækja er ekki síður mikilvægt við framkvæmd verkefna og sem tenging við frjáls félagasamtök og aðra sem starfa að uppbyggingu og að því markmiði að útrýma fátækt. Uppbygging einkageirans í þróunarríkjum er því í dag álitið eitt af mikilvægustu verkefnum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, enda er hagvöxtur, samhliða félagslegum umbótum, alger forsenda þess að draga megi úr fátækt.  

Viðskiptalífið hefur löngum verið uppspretta hugmynda, frumkvæðis og nýsköpunar. Ef við lítum okkur fjær í þetta sinn má til dæmis nefna Grameen bankann og stofnanda hans Muhammad Yunus, sem hlaut á síðasta ári Friðarverðlaun Nóbels fyrir frumkvöðlastarf í bankastarfsemi í Bangladesh. Grameen bankinn veitir fátæku fólki, einkum konum, lán og eykur þannig möguleika þeirra og tækifæri til að brjótast úr viðjum fátæktar.

Með tilkomu hnattvæðingar og ört vaxandi alþjóðlegra viðskipta hafa tengsl frjálsra markaðsafla við velferð og efnahagslegan uppgang í þróunarríkjum orðið æ ljósari.  Sýnt hefur verið fram á að fjárstreymi frá einkageiranum til þróunarríkja hefur aukist margfalt á við opinbera þróunaraðstoð. Markmið opinberrar þróunarsamsamvinnu hljóta því að miða að aukinni þátttöku einkageirans til að ná Þúsaldarmarkmiðunum. Einkageirinn gegnir grundvallarhlutverki í að auka velferð og búa til störf í þróunarríkjum og er þannig vel til þess fallinn að beina sjónum að eiginlegum þörfum fátækra og auka kaupmátt þeirra.

Góðir gestir,

Árið 1999, á World Economic Forum ráðstefnunni, hvatti þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, viðskiptalífið til að starfa nánar með Sameinuðu þjóðunum og frjálsum félagasamtökum, og vinna að aukinni félagslegri ábyrgð fyrirtækja. Verkefnið kallaði hann Global Compact sem hefði það markmið að finna sameiginlega fleti hjá hinu opinbera og einkageiranum þar sem frumkvæði og áræðni einkafyrirtækja mætti hefðbundnari stofnunum ríkisvaldsins þannig að báðir hefðu hag af og útkoman yrði til bóta fyrir alla, ekki síst hina fátæku.

Þrátt fyrir aukna áherslu á þróunarsamvinnu á undanförnum árum hefur að mínu mati upp á vantað að íslensk stjórnvöld ynnu markvisst með einkageiranum á þessu sviði. Umsvif íslenskra fyrirtækja hafa vaxið mikið og stunda nú fjöldamörg fyrirtæki viðskipti um heim allan. Því er mál að bæta hér úr og leggja meira að mörkum til framgangs Þúsaldarmarkmiðanna. Við eigum að nýta þann kraft sem íslensk fyrirtæki búa yfir og skapa vettvang til að efla viðskiptatengsl íslenskra fyrirtækja við þróunarlöndin. 

Íslensk fyrirtæki hafa farið víða í sinni útrás. Þó að meginútrás okkar hafi legið til þróaðri ríkja, þá finnast íslensk fyrirtæki í jafn ólíkum löndum og Namibíu, Úganda, Nígeríu, Níkaragúa, Kína og Tælandi, og er þá lítið eitt upp talið. Íslensk fyrirtæki eru því að störfum í þróunarlöndum og að þróunarverkefnum víðs vegar um heiminn og hafa klárlega hlutverki að gegna baráttunni gegn fátækt.

Í ráðuneytinu er í bígerð að skoða nánar með hvaða hætti best megi tryggja aðild,  aðgang, þátttöku og hlutverk atvinnulífsins í málefnum þróunarsamvinnu. Í þessu sambandi má t.d. minnast á hugmyndir um svo kallað “þróunarráð” líkt og þekkist víða í okkar helstu nágrannalöndum og ég hef lagt til í nýlegri skýrslu um skipulag þróunarsamvinnu. Þá hef ég einnig áhuga á því að skoða kosti þá sem kunna að felast í stofnun sérstaks fjárfestingarsjóðs sem komið gæti að útrás íslenskra fyrirtækja til þróunarríkja og uppbyggingu viðskipta við þróunarlönd. 

Slíkir sjóðir eru reknir í flestum nágrannalöndum okkar og hafa gefið góða raun.  Framsókn íslenskra fyrirtækja hefur einkennst af dugnaði og djörfung. En á mörkuðum þróunarríkja gilda oft á tíðum lögmál sem eru framandi og ólík menning og siðir sem taka þarf tillit til. Hér geta hins vegar tengsl, sérfræði- og staðarþekking opinberra aðila og alþjóðastofnanna, líkt og UNDP, komið að góðum notum. 


Góðir fundargestir,

Það er einmitt þetta samstarf milli einkageirans og hins opinbera sem við viljum freista þess að styrkja með tilkomu þessa verkefnis sem hér er kynnt í dag.  Sören Petersen, verkefnastjóri Nordic Business Outreach hjá UNDP í Kaupmannahöfn, hefur líkt uppbyggingu samstarfsverkefna einkageirans og hins opinbera við listsköpun. Engin örugg forskrift er til fyrir slíku samstarfi þar sem ólíkir aðilar, sem allir virðast hafa ákveðnar efasemdir um ágæti hvers annars, koma saman til skrafs og ráðagerða. 

Það er aðeins þegar allir hlutaðeigandi eru tilbúnir til að líta framhjá fordómum og staðalímyndum, og horfa frekar til styrkleika og jákvæðra hvata samstarfsaðilanna að raunverulegur árangur næst. Samstarf byggir jú fyrst og fremst á sameiginlegum hagsmunum allra hlutaðeigandi. 

Verkefnið sem hér á eftir verður kynnt kallast: “Nordic Business Outreach” og hefur nú þegar verið hleypt af stokkunum í Noregi og Danmörku og gefið góða raun. Stuðningur ráðuneytisins nemur 150.000 bandaríkjadölum og mun verkefnið standa yfir næstu þrjú árin, en þá verður árangur þess metinn og ákvörðun tekin um framhald þess. Á þessu þriggja ára tímabili er stefnt að því að setja saman fimm tilraunaverkefni í samstarfi við íslensk fyrirtæki, stofnanir og samtök og láta þannig reyna á raunhæft samstarf opinberra aðila og einkageirans.

Ég tel mikilvægt fyrir stjórnvöld að nýta þetta tækifæri sem skyldi svo að vinna megi að yfirlýstum markmiðum um helmingun fátæktar og öðrum Þúsaldarmarkmiðum fyrir 2015 í uppbyggjandi, spennandi og áhrifaríku samstarfi við einkageirann og frjáls félagasamtök.

Now, if I shift briefly back to English in order to hand over the torch to our good guests for a more detailed description of UNDP´s role and the goal of the Nordic Business Outreach project in Iceland. 

Thank you.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum