Hoppa yfir valmynd
26. mars 2007 Utanríkisráðuneytið

Byggðastefna í sjálfbæru samfélagi

Góðir ráðstefnugestir,

Umræða um sjálfbæra þróun í alþjóðlegu samhengi á sér ekki langa sögu. En á undanförnum tveimur áratugum hefur þetta hugtak orðið að lykilhugtaki í allri umræðu um það hvernig alþjóðasamfélagið eigi að bregðast við þeim brýnu úrlausnarefnum sem við blasa á sviði umhverfismála. Þessi úrlausnarefni eiga það sameiginlegt að engin ein þjóð er þess megnug að leysa úr þeim ein og óstudd, heldur verða þau aðeins leyst með samhentu átaki allra þjóða. Gagnvart þessum úrlausnarefnum eiga þjóðir heims tvo valkosti: ætlum við að vera hluti af vandanum eða lykilinn að lausninni?

Það er ekki spurning í mínum huga að við Íslendingar ætlum okkur að vera hluti af lausninni. Við höfum í raun mikið fram að færa í þeim efnum, þrátt fyrir að við séum að sönnu fámenn og teljumst ekki til þeirra ríkja sem mest hafa völdin í alþjóðlegu samstarfi. En það á ekki að draga úr okkur kjarkinn að leggja okkar af mörkum við að leita raunhæfra og skynsamlegra lausna til þess að þróun mannlífs á jörðinni getir orðið sjálfbær.

Af þessum sökum er ég þeirrar skoðunar að stærsta verkefnið í íslenskum stjórnmálum á næstu áratugum sé að skapa forsendur fyrir öfluga þróun íslensks efnahags- og atvinnulífs innan marka sjálfbærrar þróunar. Kjarninn í hugmyndinni um sjálfbæra þróun er sú sjálfsagða krafa að við eigum að búa í haginn fyrir þær kynslóðir sem á eftir koma. Sjálfbær þróun þýðir ekki að við eigum ekki að nýta auðlindir okkar til að skapa okkur betri lífskjör. Öðru nær, sjálfbær þróun felur það í sér að okkur er einmitt heimilt að nýta auðlindir okkar og umhverfi, en þeirri nýtingu verður þó að setja þær skorður að ekki má ganga á möguleika framtíðarkynslóða til þess að nýta og njóta þessara gæða. Sjálfbær þróun vísar ekki aðeins til umhverfisins, heldur einnig til atvinnu, efnahags, búsetu, menningar og mannlífs. Það verður að gæta jafnvægis á milli allra þessara þátta – ef við gerum einum þættinum of hátt undir höfði er hættan sú að við missum sjónar af heildarmyndinni. Ef við leggjum ofurkapp á þróun atvinnu- og efnahagsmála kann það að verða á kostnað umhverfisins, en á sama hátt býður ofurkapp á umhverfisvernd þeirri hættu heim að við missum sjónar af mikilvægi öflugs efnahags- og atvinnulífs fyrir þróun samfélagsins.

Ég vona að allir sem hér eru staddir geti tekið undir að við eigum að stefna að sjálfbærri þróun. En sjálfbær þróun er vissulega háleitt markmið og það er sjaldnast vandalaust að ná slíkum markmiðum. Vandinn í þessum efnum er finna hinn gullna meðalveg við ákvarðanir um nýtingu náttúruauðlinda og umgengni við umhverfið. Við megum ekki ganga á arfleið framtíðarkynslóða Íslendinga, en þær kynslóðir sem nú byggja landið eiga rétt á því að nýta sér auðlindir landsins og umhverfi til þess að skapa sér betri lífskjör. Hér þarf því að draga markalínur milli þess sem við teljum ásættanlegt innan marka sjálfbærrar þróunar og þess sem við teljum að geti ekki samræmst þessu markmiði. En það hlýtur einmitt að vera viðfangsefni lýðræðislegra stjórnmála að draga þessa markalínu og í lýðræðislegu samfélagi er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt að fólk hafi á því skiptar skoðanir hvar markalínan skuli dregin.

En sjálfbær þróun hlýtur að sama skapi að vera eitt af þeim leiðarljósum sem við fylgjum eftir við mótun byggðastefnu hér á landi. Ég er þeirrar skoðunar að ef við ætlum að vinna í anda sjálfbærrar þróunar hljótum við að reyna að sporna við þeirri búseturöskun sem orðið hefur á síðustu áratugum og leita leiða til þess að skapa skilyrði fyrir byggð um landið allt – en ekki eingöngu á suðvesturhorninu. En til þess að svo geti orðið hljótum við að verða að skapa skilyrði fyrir íbúa á landsbyggðinni til þess að þróa atvinnu- og efnahagslíf, menningu, umhverfi og mannlíf á sínum heimaslóðum. Að mínu viti höfum við fullreynt það úrræði að ætla að láta stjórnmálamenn um að skapa atvinnu á landsbyggðinni. Það verkefni er best geymt í höndum heimamanna – en það er hlutverk okkar stjórnmálamannanna að skapa heimamönnum skilyrði til að geta nýtt sér styrk og möguleika sinnar heimabyggðar til þess að skapa sínu byggðarlagi möguleika til sjálfbærrar þróunar. Og sú þróun þarf að vera sjálfbær – þ.e.a.s. hún þarf að geta staðið undir sér sjálf og skapað möguleika til áframhaldandi búsetu. Vandinn við hina gömlu byggðapólitík, þar sem hið opinbera átti að útvega störfin, var einmitt fólginn í því að sú stefna var ekki sjálfbær – þau störf sem sköpuðust fyrir opinbera íhlutun gátu oft á tíðum ekki staðið undir sér sjálf. Lykillinn í sjálfbærri byggðaþróun hlýtur því að vera sköpun atvinnutækifæra sem hafi allar efnahagslegar, rekstrarlegar, félagslegar og umhverfislegar forsendur til þess að standa undir sér.

Í þeim efnum sýnist mér að Þingeyjarsýslur búi við ákjósanlega stöðu. Ég nefni þá atvinnuuppbyggingu sem orðið hefur í tengslum við hvalaskoðun hér á Húsavík. Sú uppbygging ber hugviti heimamanna og sjálfbærri nýtingu á þeirri auðlind sem býr í hafinu gott vitni. Þá er í Þingeyjarsýslunum ekki aðeins náttúrufegurð sem á sér enga líka í veröldinni, heldur er hér gnægð jarðhita sem virkja má til raforkuframleiðslu. Þingeyingar hafa því aðgang að hreinum og umhverfisvænum orkulindum. Annað gott dæmi um sjálfbæra nýtingu auðlindanna í þágu atvinnuuppbyggingar og ferðaþjónustu eru hin stórkostlegu jarðböð í Mývatnssveit, sem 62.500 manns heimsóttu á síðasta ári. Með slíkar auðlindir undir fótum sér er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að íbúar Þingeyjarsýslna og Norðurlands eystra hafi áhuga á að nýta þessar auðlindir til að styrkja stoðir samfélagsins hér nyðra.

En hvernig má nýta frekar þessar auðlindir til atvinnu- og verðmætasköpunar? Frammi fyrir þessari spurningu standa Þingeyingar. Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina leitað margvíslegra leiða og lagt mikla vinnu í að reyna að finna kosti til þess að nýta þær orkulindir sem við eigum til að skapa hér verðmæti og atvinnu, laða hingað erlenda fjárfesta og afla okkur aukinna gjaldeyristekna. Sá kostur sem hefur reynst raunhæfastur er að selja orkuna til orkufreks iðnaðar, einkum álframleiðslu. Staðreyndin er einfaldlega sú að ef við ætlum okkur að skapa verðmæti úr þessari auðlind þá eru aðrir kostir ekki raunhæfir og litlar líkur á því að það muni breytast á næstu árum.

Það skyldi því engan undra að Þingeyingar hafi áhuga á að nýta þær orkulindir sem má finna í jörðu í Þingeyjarsýslum til þess að reisa hér álver. Það er jafnframt staðreynd að öflugt fyrirtæki á þessu sviði, Alcoa, hefur sýnt áhuga á að reisa álver í grennd við Húsavík, sem myndi skapa fjölmörg störf hér á þessum slóðum og hleypa nýjum krafti í atvinnu, byggð og mannlíf. Þetta álver myndi fá raforkuna frá jarðhitavirkjun og bygging slíks orkuvers myndi ekki hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Hér er því um að ræða atvinnustarfsemi sem rúmast vel innan marka sjálfbærrar þróunar.

Ég er eindregið þessarar skoðunar. Það virðist hins vegar vera að ekki séu allir á sama máli. Þannig hafa báðir stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir það á stefnuskrá sinni að ekkert verði af þessum framkvæmdum á næstu árum. Í dag virðist orðið „stóriðjustopp“ vera nýjasta tískuorðið í íslenskum stjórnmálum.

Það er vitaskuld eðlilegt að við stöldrum við og vegum og metum hvaða kosti við höfum. Það er ekkert nema sjálfsagt að Þingeyingar spyrji sig hvernig þeir geti nýtt sér þær auðlindir sem hér eru til staðar til að treysta stoðir atvinnulífsins hér fyrir norðan, skapa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri og skapa þannig möguleika til þess að mannlíf hér eflist og dafni á komandi árum. En hvaða kostir eru í stöðunni í þeim efnum?

Andstæðingar stóriðju hafa hafa reyndar komið fram með ýmsar hugmyndir í þeim efnum. Fræg eru ummæli þingmanns Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs þegar hún hvatti til þess að nýta fjallagrösin og nýlega hefur formaður flokksins og þingmaður þessa kjördæmis varpað fram hugmyndum um að við einbeitum okkur að útflutningi á vatni og nýtum norðurljósin til eflingar ferðaþjónustu á Mývatnsöræfum. Vandinn við þessar hugmyndir og fleiri þeirra hugmynda sem varpað hefur verið fram sem mögulegum valkostum við stóriðju er að engin þeirra er raunhæf sem framtíðarlausn, þó svo að þær geti verið ágæt viðbót við annað. Þessir kostir eru ekki líklegir til þess að skapa nægilegan fjölda starfa sem geta staðið undir sér, enginn þeirra gefur okkur nægjanlegan arð af auðlindinni, enginn þeirra er líklegur til þess að efla byggðalögin á landsbyggðinni svo heitið geti. Eins og ég nefndi hér áðan, þá nægir ekki að líta til umhverfisins eingöngu þegar við tölum um sjálfbæra þróun, það verður líka að taka tillit til efnahags, atvinnu, menningar og mannlífs.

En þrátt fyrir þetta virðist sem sumir stjórnmálaflokkar séu tilbúnir til þess að koma í veg fyrir að heimamenn hér í Þingeyjarsýslu nýti þann möguleika sem þeim þykir ákjósanlegastur, skynsamastur og raunhæfastur. Skilaboð þessara stjórnmálaflokka til íbúa Norðurlands virðast vera þau að betra sé að bíða og sjá, eitthvað annað muni koma einhvern tíman seinna. En hversu lengi er hægt að ætlast til þess að Þingeyingar og aðrir íbúar landsbyggðarinnar bíði? Stjórnmálamenn geta kannski sagt Norðlendingum að bíða, en þeir geta ekki sagt því fyrirtæki sem áhuga hefur að reisa hér álver að bíða. Þetta fyrirtæki kann að ákveða að leita annað að hagkvæmum fjárfestingarkosti standi þessi kostur þeim ekki til boða. Ef við bíðum of lengi getur sá möguleiki sem býðst nú einfaldlega runnið okkur úr greipum.

Ein rökin sem gjarnan er gripið til þegar réttlæta á „stóriðjustoppið“ er að fyrst þurfi að ná samkomulagi um hvernig nýta eigi auðlindir og náttúru Íslands. Nú vil ég taka fram að ég tel það afar mikilvægt að skapa sem víðtækasta samstöðu um þessi málefni og brýnt að vinna að heildaráætlunargerð í þeim efnum með aðkomu sem flestra aðila. En stöldrum aðeins við. Er það virkilega svo að þjóðin sé klofin í afstöðu sinni til byggingar jarðvarmavirkjana í Þingeyjarsýslum? Hefur því verið haldið fram að með slíkum virkjanaframkvæmdum sé verið að fórna dýrmætum náttúruperlum með óafturkræfanlegum hætti. Ef ekki, hvers vegna er svona sjálfsagt að segja við Þingeyinga: „Þið verðið að gjöra svo vel að bíða!“

Ég á auðvelt með að skilja að Húsvíkingar, Þingeyingar og Norðlendingar hafi ekki biðlund. Það væri óábyrgt af mér eða öðrum stjórnmálamönnum að ætla að lofa byggingu álvers á Húsavík eða öðrum slíkum framkvæmdum. Ég beitti mér hins vegar sem iðnaðarráðherra fyrir því að skipaður var starfshópur sem hafði það hlutverk að velja stað á Norðurlandi sem heppilegastur væri fyrir uppbyggingu álvers og varð Húsavík fyrir valinu. Hvort að af framkvæmdum verður ræðst af því hverjar niðurstöður hagkvæmniathuganna verða, hvort semjist um orkuverð og svo framvegis. En ég er hins vegar reiðubúin til þess að lofa að ég og minn flokkur munu ekki bregða fæti fyrir þessar hugmyndir. Við munum ekki hindra heimamenn í að nýta þær auðlindir sem hér eru til staðar til atvinnusköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar. Á endanum er það sveitarfélagið sem gefur framkvæmdaleyfi fyrir byggingu álvers á Bakka. Ég tel það ákaflega óábyrgt af stjórnmálamönnum að ætli sér að bregða fæti fyrir heimamenn og koma í veg fyrir að þeir geti sjálfir tekið ákvarðanir um framtíðarþróun síns eigin byggðalags.

Góðir fundarmenn,

Ég hef hér fjallað nokkuð ýtarlega um möguleika á uppbyggingu stóriðju samfara nýtingu þeirrar orkulinda sem búa í jörðu hér í Þingeyjarsýslum. Ég kýs að gera það af þeirri ástæðu að ég tel að skynsamleg nýting þeirra hreinu og endurnýtanlegu orkugjafa sem við eigum hér á Íslandi geti verið hluti af lausninni á þeim hnattræna vanda sem við er að glíma á þessu sviði. Við eigum ekki að láta sannfæra okkur um hið gagnstæða með innantómum slagorðum um hversu stóriðjan er slæm. Það þykir vinsælt í dag að tala um hversu aftarlega á merinni Íslendingar séu í umhverfismálum. En á hvaða röksemdum byggja slíkar staðhæfingar? Erum við Íslendingar ekki forystuþjóð í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa? Höfum við Íslendingar ekki tekið forystuna í sjálfbærum fiskveiðum, á meðan margar þjóðir eru enn að glíma við afleiðingar ofveiði og óstjórnar í sínum fiskveiðum? Við gerum ýtrustu kröfur til mengunarvarna gagnvart þeim sem reka hér stóriðju og í alþjóðlegum samanburði er loftmengun frá atvinnustarfsemi hér fremur lítil. Með þessu er ekki verið að segja að við Íslendingar eigum ekki við nein vandamál að glíma á sviði umhverfismála, en ég hygg þó að margar nágrannaþjóðir okkar í Evrópu myndu gjarnan vilja skipta á okkar vandamálum og þeirra þegar kemur að umhverfismálum.

Eitt af þeim vandamálum sem við einmitt glímum við á sviði umhverfismála er eyðing jarðvegs og gróðurs. Orsakirnar eru bæði af mannavöldum og af völdum náttúrunnar. En við Íslendingar höfum líka mikla reynslu í að berjast gegn eyðingu jarðvegs. Á þessu ári fagnar Landgræðsla ríkisins 100 ára afmæli sínu og þó að oft hafi verið á brattan á sækja í baráttunni gegn landeyðingunni eigum við starfi Landgræðslunnar og fleiri góðra aðila, ekki síst hér á Húsavík, mikið að þakka. En það er líka mikilvægt að minnast þess að landeyðing er ekki aðeins vandamál hér á landi, heldur er þetta hnattrænt vandamál. Hnignun vistkerfa, eyðing gróðurs og jarðvegs og myndun eyðimarka eru á meðal allra alvarlegustu umhverfisvandamála sem heimurinn glímir við í dag. Loftslagsbreytingar, þverrandi líffræðilegur fjölbreytileiki, vaxandi fátækt, skortur og jafnvel hungur, allt eru þetta á meðal afleiðinga eyðingar gróðurs og jarðvegs. Ástandið er verst í þróunarlöndunum og þar koma afleiðingarnar líka harðast niður.

Hér er því um að ræða málefni sem snertir líf milljóna manna um allan heim. Í ljósi þeirrar þekkingar sem við Íslendingar höfum aflað okkur á þessu málefni ákvað ég á síðasta ári að stofna til sérstaks þróunarverkefnis á sviði jarðvegsbóta. Í þessu verkefni felst að Ísland miðlar þekkingu sinni og reynslu í baráttunni gegn jarðvegs- og gróðureyðingu á síðustu hundrað árum. Raunin er nefnilega sú að orsakir og afleiðingar þessa vandamáls hér eiga sér hliðstæður víða um heim. Þess vegna á reynsla okkar og þekking á þessu sviði erindi við mörg þeirra þróunarlanda sem eru að glíma við sama vanda. Ráðgert er að verkefnið hefjist nú í sumar með námsdvöl fagfólks frá þróunarlöndunum á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar við þær stofnanir hér á landi sem glíma við þennan vanda, en framkvæmd verkefnisins verður í höndum Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Þá hefur Háskóli Sameinuðu þjóðanna sýnt þessu verkefni áhuga og von er á sendinefnd frá skólanum hingað til lands í næsta mánuði til að skoða hér aðstæður.

Hugsunin á bak við þetta verkefni er einfaldlega sú að við Íslendingar höfum sitthvað fram á færa í glímunni við mörg þeirra stóru og alvarlegu umhverfisvandamála sem mannkynið berst við og það er skylda okkar að leggja okkar að mörkum til þeirrar baráttu. Við eigum ekki að sitja hjá þegar þjóðir heims ræða um hugsanlegar lausnir á þessum stóru málum, heldur eigum við að leggja okkar fram til þess að leysa þau, reynslu okkar, þekkingu og framtíðarsýn.

Góðir ráðstefnugestir,

Eitt af þeim verkum sem bíður nýrrar ríkisstjórnar eftir næstu Alþingiskosningar er að móta samningsmarkmið og afstöðu Íslands í viðræðum um endurskoðun Kyoto-bókunarinnar þegar núverandi skuldbindingartímabili bókunarinnar lýkur árið 2012. Í þeim viðræðum á Ísland að fylkja sér meðal þeirra ríkja sem vilja setja skýrar alþjóðlegar reglur um minni losun gróðurhúsalofttegunda. En ef slíkir samningar eiga að ná tilgangi sínum er nauðsynlegt að helstu iðnríki heims skjóti sér ekki undan ábyrgð sinni og skuldbindi sig til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er staðreynd að höfuðveikleiki núverandi Kyoto-bókunar er sá að Bandaríkin hafa fram til þessa þverskallast við að fullgilda bókunina. Það er ákaflega miður en við hljótum að binda vonir við að viðhorfsbreyting verði í þessum efnum hjá Bandaríkjunum á næstu árum. Þá er ekki síður mikilvægt að hin nýiðnvæddu ríki í Austur- og Suðaustur-Asíu fallist á að setja mörk við losun gróðurhúsalofttegunda hjá sér. Ef á allt er litið bendir flest til þess að samningaviðræðurnar um endurskoðun Kyoto-bókunarinnar geti verið vandasamar og tvísýnt um árangur.

Það er mikilvægt að afstaða Íslands í þeim samningaviðræðum sé skýr. Við viljum ná böndum yfir losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr áhrifum af mannavöldum á loftslag jarðar. Við erum tilbúin til þess að taka á okkur byrðar í þeim efnum til jafns við aðrar þjóðir. En jafnframt því sem við höldum fram þessu grundvallarsjónarmiði hljótum við að leggja áherslu á að alþjóðlegt regluverk á þessu sviði megi ekki verða til þess að hamla þróun við nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkugjafa.

Staðreyndin er sú að ein helsta orsök hlýnunar loftslags er notkun jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu. Öll viðleitni til þess að nýta vatnsorku, jarðvarma og aðra endurnýtanlega orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis er hluti af lausninni á þessu alvarlega vandamáli, ekki hluti af vandamálinu. Með því að leggja áherslu á að ríki sem eiga ónýtta endurnýtanlega orkugjafa geti staðið að nýtingu þeirra með skynsamlegum hætti erum við ekki að óska eftir sérlausnum eða undanþágum, heldur erum við að leggja okkar að mörkum til þróunar alþjóðlegs regluverks sem er til þess fallið að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. En við verðum jafnframt að horfa á þessar samningaviðræður með raunsæjum hætti. Við getum ekki ætlast til þess að aðrar þjóðir haldi fram okkar sjónarmiðum eða gæti hagsmuna okkar. Staðreyndin er sú að þegar kemur að samningaborðum munu þátttakendur í samningaviðræðunum fyrst og fremst hugsa um eigin hagsmuni og aðstæður. Við verðum sjálf að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og vinna þeim fylgis. Ég er hins vegar sannfærð um að við getum náð góðum árangri í þeim efnum, enda er málstaðurinn góður og röksemdirnar skýrar.

Verði hér hins vegar við völd ríkisstjórn sem ætlar sér að sitja hjá í þessum samningaviðræðum, ríkisstjórn sem einsetur sér að stöðva alla þróun í nýtingu auðlinda okkar til orkuframleiðslu og verðmætasköpunar, ríkisstjórn sem vill fresta öllum fyrirhuguðum framkvæmdum og láta sem við getum ekki verið hluti af lausninni, þá er ég hrædd um að niðurstaða í samningaviðræðum um endurskoðun Kyoto-bókunarinnar geti verulega þrengt að möguleikum okkar til þess að nýta okkar endurnýjanlegu orkugjafa á raunhæfan og hagkvæman hátt í framtíðinni. Raunar hef ég verulegar efasemdir um að þegar kemur að loftslagsmálum muni alþjóðasamfélagið taka mikið mark á þjóð sem á gnógt endurnýtanlegra og hreinna orkugjafa en þverneitar að nýta þá til hagsbótar sér og öðrum. Málflutningur þjóðar sem aðeins vill reisa skýjaborgir en ekki leggja sitt fram til raunhæfra lausna á knýjandi vandamálum mun ekki njóta mikillar samúðar eða fylgis á alþjóðavettvangi. En það er hlustað á þjóð sem tekur forystuna um þróun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og sjónarmið slíkrar þjóðar nýtur virðingar.

Góðir ráðstefnugestir,

Það er einlæg skoðun mín að hér í Þingeyjasýslu höfum við öll tækifæri til að skapa sjálfbært samfélag. Ég veit að íbúarnir hér eru vel meðvitaðir um ábyrgð sína í umhverfismálum, en gera sér jafnframt grein fyrir því að ábyrg og skynsamleg nýting á þeim auðlindum sem hér búa í jörðu getur skapað þeim bjarta framtíð. Það er mitt metnaðarmál sem stjórnmálamanns að íbúarnir hér fái notið sín og að stjórnmálamennirnir komi ekki í veg fyrir að Norðlendingar geti skapað sér þá framtíð sem þeir kjósa.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum