Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2007 Utanríkisráðuneytið

Ræða utanríkisráðherra um öryggis- og varnarmál

Fundarstjóri, kæru áheyrendur,

Í meira en sextíu ár hefur Ísland notið þess að vinveittar þjóðir tryggðu öryggi á Atlantshafi og á svæðinu í kringum landið. Endalok Sovétríkjanna mörkuðu vissulega þáttaskil í öryggis- og varnarmálum okkar, en í raun má segja að hnattvæðingin og breytt valdajafnvægi í heiminum hafi ekki síður haft  afdrifaríkar afleiðingar.  Í upphafi nýrrar aldar sýndu öfgaöfl með áþreifanlegum hætti hvernig litlir hópar geta fyrirvaralaust gert atlögu að innviðum vestrænna samfélaga.  Þar með varð ljóst að samfélag þjóðanna hafði sofið á verðinum gagnvart nýrri ógn. Það var fyrst og fremst á þeim tímapunkti sem við, líkt og aðrar þjóðir, stóðum frammi fyrir breyttri heimsmynd. 

Breytingar á vörnum Íslands hafa því átt sér stað í ljósi nýrra ógna og nýrrar heimsmyndar. Fastri viðveru herliðs Bandaríkjanna á Íslandi er lokið og framundan er nýr kafli í varnarmálum þjóðarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa tekið á þeim málum af festu og ábyrgð en óneitanlega kalla þessar breytingar á ný sjónarmið í öryggis- og varnarstefnu okkar Íslendinga.

Mikilvægt er að undirstrika að brottför bandarísks herliðs af landinu hefur í engu hnikað þeirri staðreynd að varnarsamningurinn við Bandaríkin er áfram hornsteinn varna landsins, sem reyna mun á ef blikur verða á lofti.  Á friðartímum í okkar heimshluta, eins og við búum nú við, horfumst við Íslendingar hins vegar í augu við að taka sjálf fulla ábyrgð á að tryggja varnir landsins. Okkar samráð og samstarf við vinaþjóðir miðar að því að tryggja að úrræði til varnar landinu séu til taks á hverjum tíma. Sú grundvallarbreyting hefur auk þess orðið að varnarsamstarf okkar við aðrar þjóðir mun fara fram á grundvelli gagnkvæms stuðnings og framlaga til sameiginlegs öryggis, fremur en að við séum einvörðungu þiggjendur varna eins og verið hefur. 

Um áratuga skeið hefur Ísland lagt landsvæði og aðstöðu af mörkum til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins, en önnur ríki önnuðust varnir landsins að öðru leyti. Segja má að Ísland hafi nú varnarmál sín í eigin hendi og mun varnarmálastefnan miða að því að mæta þörfum okkar á hverjum tíma.

Ísland er nú herlaust land, í fyrsta skipti í meira en hálfa öld. Sannast sagna hefur reynslan á þeim mánuðum sem liðnir eru frá brotthvarfi bandaríkjahers styrkt mig í þeirri trú að við eigum að stefna að því að svo verði áfram á friðartímum. Framfarir í varnartækni og aukin aðkoma að eigin varnarmálum gera okkur kleift að tryggja varnir landsins án þess að hér sé staðsett herlið að staðaldri. Ég vil leggja áherslu á að það eru engin áform um að setja á fót íslenskan her, enda engin ástæða til. Slíkt samræmist ekki að mínu mati grunngildum íslensku þjóðarinnar. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að íslenskar mæður og feður gætu staðið frammi fyrir því að senda syni sína eða dætur í stríð. Vörnum landsins má sinna með öðrum úrræðum en innlendum vígbúnaði.

En með þessu er þó ekki sagt að við eigum að leiða það hjá okkur að móta okkar eigin öryggis- og varnarstefnu – öðru nær. Ríki sem tryggja ekki öryggi þegnanna, órofin landamæri, auðlindir og samgönguleiðir með fullnægjandi hætti eiga það á hættu að stofna sjálfstæði sínu í voða. Við Íslendingar metum sjálfstæði okkar og fullveldi mikils. Sagan geymir mýmörg dæmi um ill örlög varnarlausra þjóða og við megum aldrei sofna á verðinum í þeirri viðleitni að tryggja þjóðfrelsi okkar. 

Eins og áður sagði hefur landslag öryggismála tekið miklum breytingum á liðnum árum. Sú vörn sem fjarlægð frá vígaslóð tryggði þjóðum áður beið skipbrot á haustmánuðum 2001, ekki ósvipað og raunin var í upphafi síðari heimstyrjaldarinnar. Hnattvæðingin hefur gert það að verkum að samfélag þjóðanna er þéttara og samofnara en nokkru sinni fyrr. En að sama skapi er hætta á ásteytingi og átökum margþættari og ógnir torséðari.

Okkur var tamt að sjá heiminn í einföldu ljósi tveggja andstæðra valdablokka á síðari hluta tuttugustu aldar. Ísland, sem situr á eldvirkum mótum meginlandsfleka, var þannig við kvikubrot átaka stórveldanna.  Þeim átökum – og rétt er að tala um átök þó stríð hafi ekki brotist út – þeim átökum lauk með sigri lýðræðis og mannréttinda.  Evrópa, sem skipt var í skugga járntjalds vegna valdabaráttu og tortryggni, vinnur nú sameinuð að því að auka lífsgæði og tækifæri þegna sinna. Tími ógnarjafnvægis er að baki og við stöndum ekki frammi fyrir tortímingu á borð við þá sem var daglegt umhugsunarefni á tíma kalda stríðsins.

Þó er það ekki svo að þjóðir heims hafi látið af því að útkljá deilumál með hervaldi.  Átök hafa verið tíð í kjölfar falls Sovétríkjanna og um margt hafa þau orsakast af þeim grundvallarbreytingum sem hafa átt sér stað í valdajafnvægi alþjóðamála.  Þeim breytingum er ólokið sem og átökum sem þeim fylgja.  Hitt er staðreynd, að ógnir samtímans eru margslungnari en áður og því þurfa stjórnvöld að hafa ólík úrræði til þess að bregðast við þeim þar sem þær gera vart við sig.

______

Síðastliðið haust lauk veru Bandaríkjahers á Íslandi en smám saman hafði dregið úr umsvifum hans hér.  En þessi tímamót marka hvorki endalok varnarsamningsins né varnarsamstarfs okkar við Bandaríkin. Varnarsamningurinn heldur enn gildi sínu en nýtt samkomulag ríkjanna felur í sér sameiginlegar ráðstafanir sem tryggja aðkomu bandarísks liðsafla að vörnum Íslands á hættutímum. Sú breyting hefur aðeins orðið á að hreyfanlegur styrkur bandaríkjahers á heimsvísu hefur leyst af hólmi fasta viðveru bandarísks herliðs hér á landi.

Heimsókn landgönguskips hingað til lands á síðasta ári er dæmi um margvísleg úrræði Bandaríkjanna til þess að verja Ísland. Auk þess eru fyrirhugaðar reglulegar varnaræfingar bandaríkjahers á Íslandi til þess að tryggja skilvirkni og samhæfingu þeirra úrræða sem grípa má til á hættutímum.  Gert er ráð fyrir að fyrsta æfingin fari fram hér á landi á síðari hluta þessa árs.

Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að tryggja skýrar boðleiðir og miðlun upplýsinga um öryggismál milli Íslands og Bandaríkjanna. Þannig geta hérlend stjórnvöld lagt mat á stöðu mála á hverjum tíma.  Varnir landsins á hættutímum eru því tryggðar eftir sem áður í hefðbundnum skilningi með varnarsamningi okkar við Bandaríkin. Þær varnir grundvallast á fimmtu grein Atlantshafssáttmálans.  Skuldbinding Bandaríkjanna er þó víðtækari og felur í sér að gripið verður til viðbúnaðar og aðgerða til þess að fyrirbyggja árásir óvinveittra ríkja meðan grunnskylda ríkja Atlantshafsbandalagsins er að bregðast við árás sem þegar er orðin. Sú skuldbinding Bandaríkjanna er okkur mikilvægari en öðrum ríkjum þar sem við höfum ekki eigin her.

Við brottflutning varnarliðsins hefur Ísland jafnframt tekið við auknu hlutverki í vörnum landsins. Ísland mun taka við rekstri íslenska loftvarnarkerfisins, sem er grunnforsenda þess að loftvarnarsveitir Bandaríkjanna og annarra ríkja geti athafnað sig hér við land.  Framundan eru viðræður ríkjanna og samráð innan Atlantshafsbandalagsins um kerfið og með hvaða hætti það verður rekið í framtíðinni. Megináhersla er þar lögð á að áfram verði til staðar geta til að fylgjast með loftvarnarsvæði umhverfis landið og tryggja að hér séu virkar loftvarnir ef hætta steðjar að landinu. 

Samkvæmt samkomulagi þjóðanna um varnarmál er einnig gert ráð fyrir að samstarf og tengsl á sviði hryðjuverkavarna verði eflt til muna. Einnig verður unnið að því að tryggja náið samstarf á sviði öryggismála á hafinu og á öðrum sviðum þar sem ríkin eiga sameiginlega hagsmuni.

 ______

Jafnframt því sem varnarsamstarf okkar við Bandaríkin þróast og eflist höfum við byrjað samráðsferli við helstu grannríki um sameiginlega hagsmuni á sviði öryggismála.  Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Ríga í nóvember átti ég gagnleg samtöl við ráðamenn grannríkja okkar þar sem við ákváðum að hefja viðræður um aukið samstarf á sviði öryggis- og varnarmála.

Nefnd utanríkis- forsætis- og dómsmálaráðuneytis hefur þegar átt fundi með Dönum, Norðmönnum og Bretum um þau málefni og fyrirhugaðar eru viðræður við Kanadamenn og hugsanlega fleiri ríki. Þegar hefur komið í ljós áhugi þessara ríkja á samstarfi og unnið er að því að kanna frekar og formfesta með hvaða hætti ríkin geta notið fulltingis hvers annars í viðleitni sinni að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi. 

Ég vil undirstrika að hér er ekki um að ræða viðleitni okkar til þess að fá aðrar þjóðir til þess að sinna hlutverki varnarliðs Bandaríkjanna hér á landi. Við erum ekki að leita að staðgenglum fyrir Bandaríkin í samstarfi um varnarmál og þessar þjóðir munu ekki hafa fasta viðveru herliðs hér á landi. Frumkvæði okkar miðar að því að styrkja öryggi okkar heimshluta á friðartímum og auka samstarfið við þessar grannþjóðir okkar – öllum aðilum til hagsbóta.

Nú þegar er á mörgum sviðum fyrir hendi mjög gott samstarf milli þessara ríkja og Íslands.  Ég er sannfærð um að slíkt samstarf mun eflast og aukast eftir því sem varnartengsl okkar við þau styrkjast.

En þó að ég sjái ekki fyrir mér að hér muni herlið hafa fasta viðdvöl er eigi að siður mikilvægt búa svo um hnútana að fyrir hendi sé nauðsynleg aðstaða til þess að flytja megi varnarsveitir til landsins ef þörf krefur. Gistiaðstaða, flugskýli, stjórnstöðvar og önnur mannvirki eru hluti þeirrar aðstöðu. Nú þegar hefur verið skipulagt öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll sem mun verða nýtt til æfinga og varna eftir því sem þörf krefur. Varnarmálaráðherra Dana, Søren Gade, lýsti því einmitt í heimsókn sinni hér nýverið að þessi aðstaða væri til fyrirmyndar. Norsk sendinefnd sem hér var stödd fyrir skemmstu komst að sömu niðurstöðu. Ísland hefur þannig lagt nauðsynlegan grundvöll að því fjölþjóðlega varnarsamstarfi sem hér hefur verið rætt um.

______

Góðir áheyrendur,

Starfsemi okkar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur breyst á liðnum árum og á eftir að breytast enn frekar í ljósi aukinnar ábyrgðar okkar á eigin vörnum.  Fyrirhugað er að efla tengsl okkar við herstjórnir Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna með útsendum fulltrúa stjórnvalda. Auk þess mun starfsemi fastanefndar okkar og fulltrúa Íslands í hermálanefnd bandalagsins aukast.

Ísland hefur reyndar á liðnum árum tekið síaukinn þátt í starfi Atlantshafsbandalagsins, en í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á vörnum landsins má segja að nú fyrst sé Ísland þátttakandi í allri lykilstarfsemi bandalagsins.  Við höfum tekið sæti í mannvirkjasjóði þess og ráðgert er að loftvarnarkerfi okkar verði hluti af heildstæðu kerfi bandalagsins svo tvennt sé nefnt.

Á vettvangi hefur Ísland tekið fullan þátt í verkefnum Atlantshafsbandalagsins. Nefna má til dæmis stjórnun flugvalla fyrir hönd bandalagsins í Kosovó og Afganistan.  Því er það svo að þrátt fyrir að við búum ekki yfir hernaðargetu hefur komið á daginn að við getum lagt okkar skerf af mörkum innan bandalagsins. Stöðugt eykst eftirspurn eftir borgaralegri þekkingu innan Atlantshafsbandalagsins á sviðum sem Íslendingar geta sinnt. Sem dæmi má nefna að utanríkisráðuneytið ákvað nýlega að veita um 20 milljónum króna til byggingar 10 vatnsaflsvirkjana í Ghor héraði í Afganistan. Það verkefni gott dæmi um þær nýju áherslur sem ég kynnti í starfi Íslensku friðargæslunnar síðastliðið haust.  Enda er það mín sannfæring að farsælast sé í alþjóðlegu samstarfi að þjóðir einbeiti sér að því sem þær kunna best.

______

Á sviði lög- og landhelgisgæslu hefur auk þess farið fram veruleg uppbygging til þess að mæta nýjum ógnum og verkefnum. Landhelgisgæslan hefur verið efld til muna og framundan eru frekari skref í þá átt. Sú uppbygging er liður í því að styrkja getu okkar Íslendinga til að sinna öryggi á okkar heimahögum í Norður-Atlantshafi. Lögreglulið landsins hefur verið endurskipulagt til þess að auka getu og samlegðaráhrif stærri eininga ásamt því sem áfram er unnið að stækkun sérsveitar ríkislögreglustjóra.   

______

Auk þess sem okkur er nauðsynlegt að styrkja varnarsamstarf við bandamenn og viðhalda varnarmannvirkjum þurfum við að huga að því með hvaða hætti við öflum upplýsinga um öryggisástand okkar heimshluta. Upplýsingar eru lykilþáttur áhrifaríkra varna.  Það sem við ekki vitum getum við ekki varast.

Embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli hefur að undanförnu sinnt greiningu á upplýsingum af þessu tagi fyrir hönd utanríkisráðuneytisins. Í kjölfar breytinga á skipan lögreglumála er nú verið að meta hvernig þessu verkefni verður best sinnt, en í því felst meðal annars samskipti við hernaðarupplýsingakerfi Atlantshafsbandalagsins og samstarf aðildarþjóðanna á því sviði, auk áhættumats vegna verkefna Íslensku friðargæslunnar á erlendri grund.

Hér er um að ræða upplýsingar er varða ytra öryggi ríkisins, þ.m.t. um hernaðarmál, en ekki um innlend málefni. Utanríkisráðuneytið mun því fara áfram með þetta verkefni í samræmi við okkar stjórnskipun. Áhættugreining af þessum toga  felst í því að afla upplýsinga og leggja á þær mat svo nýta megi til ákvarðanatöku og stefnumótunar, meðal annars er snýr að okkar fólki, sem sent er á vettvang til starfa við þróunarsamvinnu og borgaralega friðargæslu.  

Nokkurs misskilnings hefur gætt í umræðu um þessa starfsemi og hefur því verið haldið fram að þar sé rekin leyniþjónustu- og njósnastarfsemi. Því fer fjarri.  Mikill munur er á njósnastarfsemi annars vegar og greiningu á ástandi og horfum í einstökum löndum og heimshlutum hins vegar. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að þessi starfsemi snýr öll að atburðum erlendis og er ekki um að ræða eftirlit innanlands né öflun upplýsinga um íslenska ríkisborgara hérlendis né erlendis. Einmitt af þessum sökum er þetta verkefni sem eðlilegt er að utanríkisráðuneytið sinni, fremur en t.d. lögregluyfirvöld eða þeir sem sinna innlendri löggæslu.

Auk hættumats vegna starfsemi friðargæslunnar mun áhættugreiningin fela í sér mat á átökum og ógnum í alþjóðakerfinu.  Þannig mun stjórnvöld fá mikilvægt verkefni í hendur til þess að geta lagt sjálfstætt mat á upplýsingar um öryggis- og hernaðarleg málefni í stað þess að þurfa að treysta eingöngu á túlkanir bandamanna okkar. Þannig eflum við okkar eigin getu til þess að gera ráðstafanir í samstarfi við aðrar þjóðir ef ógn gerir vart við sig.  Eins verðum við betur í stakk búin til þess að takast á við verkefni á borð við setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef framboð okkar þar fær stuðning er ljóst að mikil þörf verður á sjálfstæðu mati okkar á þróun mála á heimsvísu og er slík greiningargeta mikilvæg í því sambandi.

______

Á Íslandi, sem og í öðrum löndum, hefur umræða um öryggis- og varnarmál iðulega verið sveipuð þoku og borgurunum byrgð sýn á þeim forsendum að öll öryggismál séu viðkvæm. Þetta eru vinnubrögð sem ég vil breyta. Ég hef því lagt ríka áherslu á samráð og gegnsæi á sviði öryggis- og varnarmála, ásamt því að málefni fortíðarinnar verði gerð upp og leynd aflétt.

Engin ástæða er til að halda í tortryggni kaldastríðsáranna heldur á að upplýsa kjörna fulltrúa þjóðarinnar um varnarstefnu og málefni eftir því sem gerlegt er. Að sjálfsögðu er ekki hægt að upplýsa allt er varðar varnir landsins.  Hins vegar er það fullur vilji minn að miðla þeim upplýsingum sem unnt er, svo lengi sem varnarhagsmunum sé ekki stefnt í voða. 

Hagsmunir þjóðarinnar í öryggismálum eru ekki pólitískt bitbein og öryggi borgaranna er sameiginlegt markmið allra þingmanna og ráðherra. Því tel ég mikilvægt og rétt að leggja áherslu á gegnsæi og skilning borgara á þeirri starfsemi og úrræðum sem nauðsynleg eru. Það andrúmsloft leyndarhyggju, sem áður var ríkjandi gagnvart þjóð, Alþingi og utanríkismálanefnd þegar að varnarmálum kom er ekki það vinnulag sem ég vil viðhafa. Raunar verð ég að játa að mér hefur oft fundist pukur af þessu tagi fremur einkenna karlana, sem hafa tilhneigingu til að leiða málin til lyktar í reykfylltum bakherberjum. Það hefur vissulega loðað ansi lengi við umræður um utanríkismál að varnar- og öryggismál væru vígi karlanna á meðan konur áttu að einbeita sér að mjúku málunum á borð við mannréttindamál og stöðu kvenna í þróunarríkjunum. Slík viðhorf eiga einfaldlega ekki rétt á sér í dag. Umræðan um öryggis- og varnarmál þoli það alveg að hún sé dregin fram í dagsljósið og aðeins sé loftað um.

Í þessu sambandi vil ég nefna að í gær átti ég fund með utanríkismálanefnd þar sem ég gerði grein fyrir leynilegum viðaukum sem undirritaðir voru við varnarsamning okkar við Bandaríkin frá 1951.  Viðaukarnir, sem ég hyggst létta leynd af, eru ekki þess eðlis að ástæða sé til þess að halda þeim leyndum lengur. hafi nokkru sinni verið ástæða til þess. Á næstu dögum verða viðaukarnir gerðir opinberir á heimasíðu ráðuneytisins. Á fundinum með utanríkismálanefnd í gær fjallaði ég einnig um áðurnefnda áhættugreiningu auk fullgildingar samnings um réttarstöðu liðsafla Atlantshafsbandalagsins ríkja hér á landi, en fullgilding samningsins er meðal annars nauðsynleg forsenda þess að hingað geti komið erlendar sveitir til æfinga.

Eftir brotthvarf varnarliðsins stöndum við einnig frammi fyrir annars konar arfleið fortíðarinnar. Allt frá dögum hernáms Breta í síðari heimsstyrjöldinni hafa skot- og sprengjuæfingasvæði verið á Íslandi. Alls er hér um að ræða u.þ.b. 90 svæði sem ná yfir rúmlega 24 þúsund hektara lands. Flest eru þau á Stór-Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi, en nokkur eru á Vesturlandi, Norðurlandi, og á Austfjörðum. Langstærstu svæðin eru frá tíma seinni heimsstyrjaldarinnar vegna æfinga breska hernámsliðsins og síðar Bandaríkjamanna. Nú bíður okkar það verkefni að ljúka hreinsun þessara svæða. Það mun vera ærin starfi en þar njótum við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar, sem lögum samkvæmt fer með þetta verkefni. Stefnt er að því að á næstu fimm árum verði lokið við gerð úttektar á öllum æfingarsvæðum varnarliðsins og þá verði hreinsun á verstu svæðunum jafnframt lokið.

______

Góðir áheyrendur,

Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ný verkefni stjórnvalda við brottför varnarliðsins verður komið á samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggi Íslands.  Ástæða er til þess að hefja slíkt samráð hið fyrsta og mun það einungis stuðla að frekari miðlun upplýsinga og uppbyggilegum skoðanaskiptum um megináherslur í öryggismálum landsins.

Auk þess sem þessi pólitíski samráðsvettvangur mun efla umræðu um öryggismál í víðum skilningi er jafnframt nauðsynlegt að stuðla að almennri umræðu um slík mál. Í því skyni má sjá fyrir sér stofnun rannsóknarseturs á sviði utanríkis- og öryggismála, sem fjallað gæti um öryggis- og varnarmál í víðum skilningi, þ.m.t. þætti á borð við samgöngur, umhverfisöryggi, fólksflutninga, þróunarmál og fleira. Tengja mætti hinn pólitíska samráðsvettvang og það alþjóðastarf sem á sér stað hér innan veggja Háskóla Íslands og í öðrum háskólum við starfsemi setursins sem stýrt getur rannsóknum og ráðstefnum til þess að efla faglega umræðu um öryggis- og varnarmál innanlands.

Slíkt setur getur þannig, með dugmikilli forystu, brúað bil frá akademískri umræðu til stefnumótunar. Þátttaka sérfræðinga utanríkisráðuneytisins og jafnvel annarra ráðuneyta í starfsemi setursins myndi styðja akademískar rannsóknir og jafnvel kennslu á þessu sviði. Jafnframt myndi sú gerjun hugmynda sem yrði við tengingu þessara þriggja heima leiða til hugmyndasköpunar og frjórri stefnumótunar. 

Í grannríkjum okkar má finna margar ámóta stofnanir sem leita mætti samstarfs við. Þeim stofnunum hefur reynst farsælast að starfa á sjálfstæðum grundvelli í ákveðinni fjarlægð frá háskólasamfélagi og stjórnmálum, en með sterk tengsl við hvort tveggja.

 ______ 

 

Góðir gestir,

Mikilvægt er að hugað sé að langtímamarkmiðum varðandi öryggis- og varnarmál.  Mönnum er eðlislægt að hafa hugann frekar við þá ógn sem er bráð og aðkallandi. Oft er það hinsvegar svo að meiri hætta stafar af ógnum sem mótast á löngum tíma. Líkt og hryðjuverkaárásirnar á New York og Washington áttu sér langan aðdraganda þá eru að verða ákveðin straumhvörf í öryggismálum okkar heimshluta.  Þau straumhvörf stafa af bráðnun ísa norðurskauts og aukningu siglinga þaðan um Íslandi. Hugsanleg opnun Norð-Austur siglingaleiðar til Asíu ásamt gríðaraukinni gas- og olíuvinnslu í Barentshafi gerir það að verkum að skipaumferð risaskipa í grennd við Ísland gæti margfaldast á næstu árum.

Þó svo að friðvænlegt sé í okkar heimshluta nú er ekki útilokað að þverrandi auðlindir og samkeppni um orku verði til þess að valda ójafnvægi. Tryggt aðgengi að orkugjöfum er forsenda efnahagskerfa og þjóðaröryggisstefna hvers ríkis þarf að taka mið af því. Ísland nýtur í þessu sambandi verulegrar sérstöðu samanborið við önnur bandalagsríki. Við búum yfir endurnýtanlegum orkuauðlindum sem geta mætt nær öllum þörfum okkar ef nauðsyn krefur.  Vissulega þurfum við enn á bensíni og olíu að halda, en við erum í mun tryggari stöðu hvað þessi mál varðar en Evrópuríki sem nota gas og olíu til hitunar og orkuframleiðslu. 

Ríki sem háð eru orkukaupum frá aðila í lykilaðstöðu framselja um leið ákveðin yfirráð eigin öryggismála. Slíkt getur raskað valdajafnvægi og jafnvel leitt til átaka eins og mörg dæmi eru um í sögunni. Nýverið hafa verið kynnt háleit markmið Evrópusambandsins um að auka vægi endurnýtanlegrar orku. Ef nýta mætti íslenskt hugvit og þekkingu á sviði orkumála í því sambandi myndi það um leið stuðla að auknu öryggi þeirra ríkja sem um ræðir. Því ber að hafa í huga að lausn vandamála á sviði varnarmála einskorðast ekki við valdbeitingu.

______

Ágætu gestir,

Stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum hefur löngum hvílt á tveimur meginstoðum – aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin.  Báðar eru þessar stoðir traustar en ég vil nota þetta tækifæri til þess að fjalla um þriðju stoðina sem alltaf hefur verið til staðar en hefur ekki verið til umræðu.

Þá stoð mætti nefna lýðræðis- og mannréttindastoð öryggis og varnarmála.

Grunnforsenda varnarsamstarfs þjóða Atlantshafsbandalagsins er sameiginlegt gildismat þegar kemur að lýðræðis- og mannréttindamálum.  Hin opnu samfélög okkar sem reyndust viðkvæm fyrir árásum öfgamanna eru hugmyndafræðileg forsenda sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins og hins frjálsa heims. Atlögur hryðjuverkamanna á Vesturlöndum miða að því að grafa undan þessari stoð.  Því er óumdeilanlega mikilvægt að við köstum ekki þessum gildum fyrir róða samhliða því sem við verjumst ógninni og grípum til aðgerða gegn hryðjuverkamönnum. Aþjóðakerfið byggir á þessum hugmyndafræðilega grundvelli og hann er eins og áður sagði trygging fyrir sjálfstæði þjóða og áframhaldandi tilverurétti þeirra.

Þannig er virðing samfélags þjóðanna fyrir alþjóðalögum og mannréttindum besta varnartrygging sem völ er á til langframa. 

Helstu ógnir í alþjóðakerfinu stafa af óstöðugleika, öfgahyggju, glæpastarfsemi og hryðjuverkum sem þrífast í skjóli kúgunar og mannréttindabrota. Smáríki eiga helst allra ríkja hag sinn í því að mæla fyrir í orði og á borði að alþjóðalög séu virt og þjóðir leysi sín deilumál friðsamlega. Eins eru það hagsmunir smáríkja að stuðla að aljóðlegri samvinnu til þess að mæta umræddum ógnum sem virða hvorki landamæri né leikreglur alþjóðakerfisins

Það er í ljósi þess sem nýjar áherslur okkar í friðargæslu miða öðru fremur að því að byggja upp stríðshrjáð samfélög.  Aðeins með því að leggja grunninn að því að fólk geti lifað eðlilegu lífi, stundað lífsviðurværi sitt og bætt lífskjör sín er von um langvarandi frið. 

Friðargæslan er ekki verkfæri til þess að búa til á Íslandi hóp fólks sem hlotið hefur þjálfun í vopnaburði með það fyrir augum að stofna her eða vísi að her.  Verkefni friðargæslunnar eru fyrst og fremst þróunar og mannúðarmál hvort sem þau eru á vegum Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins eða annarra. Hvað varðar þau verkefni vil ég árétta að markmið mitt er að jöfn hlutföll kynja náist meðal íslenskra friðargæsluliða að því marki sem mögulegt er. Árið 2004 voru um 14 af hundraði friðargæsluliða okkar konur en í dag eru konur um fjórðungur friðargæsluliða sem starfa á vegum Íslands. Þá eru áform um að senda konur til slíkra starfa til Afganistan, á Balkanskaga og í Líberíu og mun þetta hlutfall þá vera komið í þriðjung. En betur má ef duga skal og ég við munum áfram vinna að því að jafna hlutföll kynjanna í starfsemi Íslensku friðargæslunnar.

Ísland hefur verið og mun áfram verða málsvari þess kerfis mannréttinda, friðar og frelsis sem Sameinuðu þjóðirnar grundvallast á.  Það kerfi hefur átt undir högg að sækja á undanförnum árum þar sem fer saman ógn kúgunar, ógnarstjórnar og hryðjuverka í margvíslegri mynd.  Það væri óskhyggja að halda að við munum aðeins standa frammi fyrir þeirri ógn í fjarlægum heimshlutum á næstu árum og áratugum.  Óhæfuverk í Lundúnum og Madrid minna okkur á að þau takmarkast ekki við landamæri eða ríkisfang þeirra sem þau fremja.

Framboð okkar til öryggisráðsins er liður í viðleitni okkar til þess að axla aukna ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi. Áður höfum við gegnt formennsku í Evrópuráðinu sem stendur einmitt vörð um sama grundvöll mannréttinda og frelsis sem seta okkar í öryggisráðinu myndi byggja á.  Friður fæst ekki gjörla í krafti vopnavalds og því á herlaust ríki á borð við Ísland fullt erindi í öryggisráðið sem málsvari samninga og sátta. Okkur skortir ekki þekkingu og getu til þess að verða góðs valdandi á þeim vettvangi og verða auk þess landi og þjóð til sóma.

______

Að lokum vil ég segja að því fer fjarri að íslensk stjórnvöld hafi sofið á verðinum. Ég er sannfærð um að þau stefnumið sem ég hef lýst hér muni tryggja að vörnum landsins sé hagað sem best má vera og muni jafnframt stuðla að því að sem víðtækust sátt skapist um fyrirkomulag þeirra. Ísland mun taka þátt í varnarsamstarfi við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli og mun nú sem endranær vinna að því að tryggja öryggi eigin borgara og auka öryggi grannþjóða og annarra ríkja á grundvelli mannréttinda og lýðræðis.

 

 

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum