Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2007 Utanríkisráðuneytið

Endurskoðun á löggjöf og skipulagi þróunarsamvinnu Íslands

Góðir fundargestir,

Nútíminn einkennist af hröðum breytingum. Hraði breytinganna hefur stundum verið svo mikill að tími hefur ekki unnist til að staldra við eitt andartak og íhuga breytingarnar og vegferðina sjálfa.

En það er einmitt það sem við ætlum að reyna að gera að einhverju leyti núna í tengslum við yfirstandandi endurskoðun á löggjöf og skipulagi á þróunarsamvinnu Íslands.

Við megum ekki sýna andvaraleysi í þessum málum. Þó svo að byggt sé á “gömlum merg” er í raun óhjákvæmilegt að starfshættir og umgjörð starfsins sé háð sífelldri endurskoðun og endurmati til þess að ná tilskildum árangri.

Við getum litið með stolti yfir farinn veg. Merkilegt starf hefur verið unnið á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á undanförnum áratugum og við eigum að byggja á þeirri þekkingu og þeim reynslubrunni sem þar er að finna.

Á þessum sama tíma hafa orðið miklar breytingar og framfarir við framkvæmd þróunarverkefna. Störf utanríkisþjónustunnar og Þróunarsamvinnustofnunar tengjast nú æ nánari böndum, enda þróunarmál nú ein af grunnstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Tvíhliða aðstoð ÞSSÍ hefur eflst mikið og á vettvangi alþjóðastofnana höfum við aukið þátttöku okkar til muna. Fleiri aðilar koma orðið að skipulagðri þróunarsamvinnu og samskipti við þróunarríki hafa stóraukist á flestum sviðum.

Opinber framlög til þróunarsamvinnu fara nú einnig hratt vaxandi og gert er ráð fyrir að heildarframlög þessa árs nemi um 3,2 milljörðum króna, sem svarar til 0,28% landsframleiðslunnar. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall verði komið upp í 0,35% árið 2009.

Skipulag þróunarsamvinnu okkar þarf að taka mið af auknum fjölbreytileika og vaxandi umfangi starfsins og verkefnanna. Þetta er því góður tímapunktur til að líta yfir farinn veg og leggja drög að framtíðinni.

Ég legg áherslu á að vandað sé til verks og því eruð þið hér nú saman komin á þessu málþingi – sérfræðingar, fræðimenn og áhugafólk um þróunarmál. Fulltrúar mismunandi geira, sviða, fræða og þekkingar að ekki sé minnst á mismunandi skoðana.

Ég þakka ykkur fyrir að gefa ykkur tíma til að koma hér og að gefa okkur tækifæri á að draga á þekkingu ykkar og reynslu. Ég vil ekki hvað síst þakka þeim sem komnir eru um langan veg til að taka hér þátt.

Ég vil einnig leggja áherslu á að málþingið er aðeins einn liður í þessari endurskoðunarvinnu. Áfram verður unnið að málefninu innan utanríkisráðuneytisins og ÞSSÍ og ég ætti ef til vill einnig að minnast á að hægt er að koma á framfæri skoðunum og athugasemdum um þróunarsamvinnu Íslands á vefsetri utanríkisráðuneytisins.

Markmið þessarar vinnu er að færa þróunarsamvinnu okkar til nútímahorfs og auka skilvirkni í störfum okkar, fyrst og fremst með þarfir og hagsmuni þeirra sem njóta aðstoðarinnar að leiðarljósi.

Almenn sátt hefur ríkt um þróunarsamvinnu Íslands hingað til og ég tel afar mikilvægt að svo verði áfram. Ég held við getum öll verið sammála um að Íslendingar vilja og geta látið gott af sér leiða á alþjóðavettvangi. Það er hreinlega siðferðileg skylda okkar að leggja okkar af mörkum til baráttunnar gegn fátækt og hungri í heiminum.

Í því sambandi er hollt að líta til baka til okkar eigin sögu - sögu þjóðar sem hefur brotist úr fátækt til bjargálna, vissulega að miklu leyti með eigin dugnaði og hyggjuviti, en einnig með aðstoð vinveittra þjóða og alþjóðastofnana.

Góðir fundarmenn,

Ég mun ekki láta mitt eftir liggja við að framfylgja utanríkisstefnu sem stuðlar að betri heimi þar sem öll börn, sama hvar þau fæðast á jörðinni, eiga jafnan rétt til lífs, frelsis og mannhelgi, eins og segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

En í dag, er það ykkar að leggja fram hugmyndir um strauma og stefnur og velta upp hvernig löggjöf, starfshættir og skipulag þróunarsamvinnu Íslands geti best þjónað hlutverki sínu með þarfir og hagsmuni þeirra sem njóta aðstoðarinnar að leiðarljósi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum