Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2006 Utanríkisráðuneytið

60 ára afmæli aðildar Íslands að S.þ.

Góðir gestir,

Í dag minnumst við þess að 60 ár eru liðin frá því að Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum. Þessi dagur markar því sannarlega tímamót – og félag Sameinuðu þjóðanna á þakkir skilið fyrir að skipuleggja þetta afmælisboð.

Lýðveldið Ísland var aðeins á sínu þriðja aldursári þegar það skipaði sér á bekk með hinum Sameinuðu þjóðum. Í dag hættir okkur til að líta á aðildina að Sameinuðu þjóðunum sem sjálfsagðan hlut - enda er í hugum flestra aðild að Sameinuðu þjóðunum orðin að órjúfanlegum þætti þess að vera sjálfstæð þjóð.

En þegar betur er að gáð var það talsvert skref að gerast aðili að Sameinuðu þjóðunum. Við inngöngu Íslands í Sameinuðu þjóðirnar var landið fámennasta aðildarríki þeirra – og þann „heiðurssess“ innan Sameinuðu þjóðanna skipuðum við í mörg ár. Ísland sóttist raunar eftir því að vera í hópi stofnríkja strax og undirbúningur að stofnun samtakanna hófst. Þegar á reyndi vorum við Íslendingar hins vegar ekki tilbúnir til að greiða það verð sem stórveldin settu á aðgöngumiðann, þ.e.a.s. að afsala okkur hlutleysinu og lýsa yfir stríði gegn Þjóðverjum og bandamönnum þeirra – sem þá voru raunar gersigraðir. Þetta varð þó aðeins til að fresta aðildinni um eitt ár – og urðum við því í hópi þeirra þriggja ríkja sem fyrst gerðust aðilar að Sameinuðu þjóðunum, að stofnríkjunum frátöldum. Þess má til gamans geta að hin tvö ríkin voru Svíþjóð og Afganistan.

Allt frá þeim tíma hefur aðildin að Sameinuðu þjóðunum verið ein af grunnstoðum íslenskrar utanríkisstefnu, eða í eina sex áratugi. En það sem meira er – í aðildinni felst staðfesting á sjálfstæði þjóðarinnar. Á þetta benti Ólafur Thors, ári eftir Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum, er hann sagði:

„Vegna þátttökunnar í Sameinuðu þjóðunum, er Ísland nú viðurkennt af alheiminum sem fullvalda, sjálfstætt lýðveldi. … Stæðum við utan samtaka hinna Sameinuðu þjóðanna, er ekki að efa það, að einhverjir yrðu til þess að véfengja aðstöðu vora.“

Góðir gestir,

Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar voru miklar vonir bundnar við starf þeirra. Líklega endurspeglast þetta hvergi betur en í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, en þar segir m.a. að Sameinuðu þjóðunum sé ætlað að bjarga komandi kynslóðum frá hörmungum ófriðar og staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar. Oft á tíðum kann okkur að þykja sem veruleikinn sé fjarri þessum háleitu markmiðum. En í meira en 60 ár hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt sitt af mörkum til að þessi háleitu markmið geti orðið að veruleika. Engin önnur alþjóðastofnun hefur jafn víðtæku og mikilvægu hlutverki að gegna. Við hljótum því enn að binda vonir okkar við starf Sameinuðu þjóðanna – líkt og þjóðir heims gerðu fyrir rúmum sex áratugum. En til þess að Sameinuðu þjóðirnar geti staðið undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar er mikilvægt að aðildarríki þeirra leggi sitt af mörkum til þess að efla starf þeirra. Þar hafa öll ríki sömu skyldum að gegna, hvort sem þau eru stór eða smá.

Við Íslendingar höfum notið ávaxtanna af gifturíku starfi Sameinuðu þjóðanna. Erfitt væri, til dæmis, að ímynda sér að sá afrakstur sem felst í hafréttarsamningi hefði áunnist öðruvísi en í gegnum Sameinuðu þjóðirnar, enda var Ísland leiðandi í þeirri vinnu og gat tryggt og staðið vörð um þessa grundvallarhagsmuni þjóðarinnar í því starfi.

Í ræðu minni á Alþingi á dögunum lagði ég áherslu á að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hefðu skyldu til að leggja sitt af mörkum til þess að ná fram markmiðum samtakanna, og að við Íslendingar værum þar engin undanteking. Okkur Íslendingum ber að rækta þessa skyldu eftir föngum og við höfum margt fram að færa. Á síðustu árum höfum hækkað verulega framlag okkar til þróunarmála. Í ár veitum við um 2,5 milljörðum króna til þróunarmála og hefur framlag okkar til Sameinuðu þjóðanna, þ.m.t. sérstofnana og ýmissa verkefna, meira en tvöfaldast frá árinu 2004. Ætlunin er að halda áfram að auka við þetta framlag og stefnum við að því að framlag Íslands til þróunarsamnvinnu muni nema 0,35% af þjóðarframleiðslu árið 2009. Þegar fram líða stundir ber að stefna að því að hækka þetta framlag enn frekar, eða í 0,7% af þjóðarframleiðslu.

Eins og ég hef áður lýst yfir þá er nú í gangi endurskoðun á starfsemi Íslensku friðargæslunnar, með það að markmiði að hún sé til taks þar sem íslensk þekking og reynsla nýtist best, og það á sviðum borgaralegra aðgerða. Er ætlunin að verkefni Íslensku friðargæslunnar miðist einkum við fjögur meginsvið, þ.e. á svið löggæslu og réttarfars, flugmála og flugvallarstjórnunar, upplýsingamála og fjölmiðlunar og heilbrigðis- og heilsuverndar. Í þessu samhengi munum við sérstaklega líta til frumkvæðis Svía í að efla borgaralega friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna, og er þegar í skoðun að fjölga íslenskum friðargæsluliðum hjá UNIFEM og UNICEF.

Við höfum líka lagt áherslu á að efla þátttöku Íslands í því starfi sem fram fer í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York - en einnig í Genf og Vín. Fastanefndin okkar í New York gegnir lykilhlutverki í að verja hagsmuni okkar á þeim vettvangi.

Þá hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á árunum 2009-2010. Við etjum þar kappi við Austurríki og Tyrkland og fara kosningarnar fram árið 2008.

Góðir gestir,

Það er að sönnu mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðavettvangi. En það er ekki síður mikilvægt að þjóðin öll sýni Sameinuðu þjóðunum stuðning sinn. Af þeim sökum er afar brýnt að almenningur í landinu hafi greiðan aðgang að upplýsingum um Sameinuðu þjóðirnar, starfsemi þeirra og hlutverk. Hér gegnir Félag Sameinuðu þjóðanna lykilhlutverki. Hins vegar er ljóst að í nútímasamfélagi er keppnin um athygli almennings hörð. Það er því nauðsynlegt að félagið hafi nægilegt bolmagn til þess að geta gegnt þessu hlutverki sínu með sómasamlegum hætti. Ég hef þess vegna ákveðið að gera þjónustusamning við Félag Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að efla félagið enn frekar til þess að sinna þessu mikilvæga verkefni með myndarlegum hætti.

Samningurinn mælir m.a. um að Félag Sameinuðu þjóðanna taki að sér að efla kynningu á hlutverki og starfsemi Sameinuðu þjóðanna; stuðli að umfjöllun um alþjóðamál með hugsjónir og markmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og fjalli um þátttöku Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Gegn þessu hefur utanríkisráðuneytið skuldbundið sig til að veita félaginu fjögurra milljóna króna framlag á hverju ári á tímabilinu 2007-2009.

Góðir gestir

Það er von mín að þessi samningur muni efla enn frekar starf Félags Sameinuðu þjóðanna. Við skulum minnast þess að Sameinuðu þjóðirnar eru meira en alþjóðastofnun – Sameinuðu þjóðirnar eru líka hugsjón um friðsaman og réttlátan heim. Engin eru betur í stakk búinn til þess að standa vörð um þessar hugsjónir en einmitt frjáls félagsamtök á borð við Félag Sameinuðu þjóðanna.

Til hamingju með daginn!

[Við undirritun samnings við Félag Sameinuðu þjóðanna]

Ég vil þakka Tryggva Jakobssyni, formanni Félags Sameinuðu þjóðanna fyrir afmælisboðið.

Það er mér sönn ánægja að geta skrifað undir samning um stuðning utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ég er þess full viss að félagið mun enn frekar efla framlag sitt til upplýsingamiðlunar og umræðu um málefni Sameinuðu þjóðanna meðal almennings. Eins og kom fram hjá mér áðan er stuðningur og þekking þjóðarinnar mikilvægur grundvöllur fyrir starfsemi stjórnvalda hjá Sameinuðu þjóðunum.

Í samningnum er félaginu falið að taka að sér eftirfarandi verkefni:

· að efla kynningu á hlutverki og starfsemi Sameinuðu þjóðanna;

· að stuðla að umfjöllun um alþjóðamál með hugsjónir og markmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi; og

· að fjalla um þátttöku Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Gegn því hefur utanríkisráðuneyti skuldbundið sig til að veita félaginu fjögurra milljóna króna fjárframlag á ári á tímabilinu 2007–2009.

Ég hlakka til að fylgjast með áframhaldandi starfsemi félagsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum