Hoppa yfir valmynd
6. október 2006 Utanríkisráðuneytið

Útflutningsráð Íslands 20 ára

Formaður Útflutningsráðs,

ágætu stjórnarmenn og starfsfólk,

góðir gestir.

Mér er það sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá stofnun Útflutningráðs Íslands.

Tuttugu ár er ekki langt tímabil í atvinnusögu þjóðarinnar en á þessum örstutta tíma höfum við að mínu mati upplifað einhver örustu efnahagsumskipti Íslandssögunnar.

Hér áður fyrr var sjávarútvegur og fiskútflutningur megin uppistaðan í gjaldeyristekjunum en í dag er þessi mynd gjörbreytt. Áfram er sjávarfangið mikilvægt en fast á eftir fylgja stóriðja, ferðaþjónusta, fjármálstarfsemi, hátækniiðnaður og lyfjaframleiðsla. Lífið er ekki lengur “bara saltfiskur”.

Fyrir allmörgum árum var forkólfur úr atvinnulífinu spurður hvort hann hygðist hasla sér völl erlendis og nýta sér þau tækifæri sem þar byðust. Hann svaraði um hæl: “Ætli það séu ekki nóg vandræðin hér heima svo ég fari nú ekki að sækja þau út fyrir landsteinana líka!”

Sem betur fer heyra viðhorf af þessu tagi að mestu sögunni til og hefur útrásin víkkað sjóndeildarhring þjóðarinnar og þroskað hana. Viðvaningsháttur hefur breyst í atvinnumennsku og heimóttarskapur í heimsborgarabrag. Viðmiðin hafa breyst úr löndum í heimsálfur og milljónum í milljarða. Útflutningsráð kallar sig nú ekki lengur “Export Council” upp á engilsaxnesku heldur “Trade Council” og hefur sjálfur Bjartur flust úr Sumarhúsum til Danmerkur þar sem hann gefur út bækur.

Þessar framfarir eiga sér margvíslegar rætur. Vitaskuld skiptir þar mestu hin ríka útþrá og sá frumkvöðlakraftur sem íslenskt athafnafólk virðist eiga gnægð af. En það er hins vegar ekki tilviljun ein að það skuli einmitt vera nú á síðustu árum sem þessi kraftur leysist úr læðingi.

Þátttaka Íslands í EES og öðru alþjóðasamstarfi hefur leitt til þess að  höftum og hindrunum hefur verið létt af íslensku atvinnulífi. Styrk efnahagsstjórn, lækkun skatta og opinberra skulda og breytingar á lífeyrissjóðakerfinu hafa stuðlað að frjálsara og heilbrigðara viðskiptaumhverfi.

Frá upphafi hefur verið eitt af megin verkefnum Útflutningsráðs að koma framleiðslu og þjónustu innlendra fyrirtækja á framfæri erlendis. Þrátt fyrir öflugt fræðslu- og upplýsingastarf og blómlega útgáfu af ýmsu tagi þá skipta hin nánu og góðu tengsl Útflutningsráðs við atvinnulífið höfuðmáli. Er ég gegndi embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra fór ég fyrir nokkrum viðskiptasendinefndum og get vitnað um að þær ferðir tókust mjög vel og er árangurinn Útflutningsráði til sóma. Ég mun einmitt leiða slíka heimsókn til Úkraínu í næsta mánuði.

Stærsta skrefið í samstarfi Útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins var stigið í aprílmánuði 2003 þegar Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Páll Sigurjónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Útflutningsráðs, skrifuðu undir samstarfssamning. Samningurinn var gæfuspor og hefur hann eflt samvinnu okkar í þágu atvinnulífsins.

Í embætti utanríkisráðherra hef ég litið á það sem skyldu mína að greiða götu atvinnulífsins sem frekast er kostur. Fjölmargir viðskiptasamningar eru í burðarliðnum í ráðuneytinu, m.a. á sviði fríverslunar og loftferða. Þá hyggst ég efla samstarf við atvinnulífið og samræma aðgerðir í ímyndarmálum Íslands á erlendri grundu til muna. Atburðir liðins vors sýna okkur að það er afar mikilvægt að réttum upplýsingum sé dreift á skjótan og fumlausan hátt á þá erlendu aðila sem fjalla um Ísland og íslenskt efnahagslíf. Uppbygging tengslanets og stöðugt upplýsingaflæði er hér lykilatriði.

Það er ekki á nokkurn hallað þó að Jóni Ásbergssyni séu sérstaklega þökkuð störf sín á þessum tímamótum. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Útflutningsráðs í 13 ár af þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá stofnun þess. Áður var Jón framkvæmdastjóri sútunarverksmiðjunnar Loðskinns á Sauðárkróki og síðar framkvæmdastjóri Hagkaupa.

Ágæti Jón.

Sem sauðfjár- og kartöflubóndi og fyrrverandi loðdýraræktandi myndi ég auðvitað allra helst vilja sjá þig seljandi gærur og skinn úti í heimi ... nú eða lambakjöt og kartöflur í Hagkaupum. En sem utanríkisráðherra flyt ég þér og þínu frábæra starfsfólki og stjórn, bæði fyrrverandi og núverandi, innilegar þakkir fyrir þá þýðingarmiklu aðstoð sem þið hafið veitt við sókn íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði.

Skál og til hamingju með daginn.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum