Hoppa yfir valmynd
10. september 2006 Utanríkisráðuneytið

50 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Japan

Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra

við móttöku vegna 50 ára afmælis stjórnmálasambands Íslands og Japan,

haldin 10. september kl. 16.30 í Salnum, Kópavogi

Sendiherra frú Fumiko Saiga, herra Yoshihiko Tsuchiya, frú Vigdís Finnbogadóttir og aðrir góðir gestir.

 

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin til þessarar móttöku sem haldin er í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því Ísland og Japan tóku upp stjórnmálasamband.

 

Þótt fjarlægðirnar milli okkar séu miklar og við kunnum að vera ólík við fyrstu sýn, eigum við margt sameiginlegt. Þannig eru Ísland og Japan eyríki og saga okkar, menning og atvinnuhættir eru samofin auðlindum hafsins. Við eigum sömuleiðis sammerkt að vera rík af auðlindum í jörðu og deilum þeirri sameiginlegu sýn og hagsmunum að jarðhiti verði meðal helstu orkugjafa framtíðarinnar. Báðar þjóðir eru sömuleiðis reglulega minntar á ofurkrafta þessara sömu náttúruafla þegar jarðskjálftar verða og eldgos brjótast út.

 

Og ef skyggnst er inn í hýbýli Íslendinga og Japana má jafnframt kenna keimlíka hugsun í skipulagningu heimilanna og báðar þjóðir njóta þess að lauga sig í heitu vatni.

 

Á hálfri öld hafa samskipti þjóðanna þróast og styrkst. Gagnkvæm sendiráð í ríkjunum tveimur hafa orðið til að auka samskipti okkar enn frekar. Sífellt fleiri Íslendingar sækja Japan heim, og fjöldi Japana kemur til Íslands á ári hverju. Við stefnum að sjálfsögðu að frekari samskiptum þjóðanna og í skoðun eru skref í þá átt, meðal annars á sviði ferðaþjónustu, verslunar og viðskipta.

 

Kæru vinir,

 

Kvæði Víkinganna til forna, Hávamálin, eru mér oft hugleikin en þar er vináttu, sem gæti best átt við Ísland og Japan, vel lýst:

 

Athvarf mikið

er til ills vinar

þótt á brautu búi

en til góðs vinar

liggja gagnvegir

þótt hann sé firr farinn.

 

Sjálf hyggst ég ferðast gagnveginn til Japan í desember næstkomandi í tilefni af þessu 50 ára afmæli okkar og vonast til að sú ferð verði til að efla enn frekar okkar góðu samskipti.

 

Þakka ykkur fyrir.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum