Hoppa yfir valmynd
9. september 2006 Utanríkisráðuneytið

Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum

Kæru fundarmenn,

Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir þann heiður að fá að ávarpa þennan aðalfund Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það er mér mikilsvert að fá tækifæri til að deila með ykkur framtíðarsýn minni á þróun varnarsvæðisins á þessum miklu og sögulegu umbreytingartímum, sem snerta vitanlega þjóðina alla, en ekki síst ykkur sem búsett eruð á Suðurnesjum.

Tilkynning Bandaríkjamanna um brottflutning herliðs síns frá Íslandi markar vitaskuld söguleg þáttaskil, ekki aðeins hér á Suðurnesjum, heldur fyrir þjóðina alla. Brotthvarf varnarliðsins kallar eðli málsins samkvæmt á endurskoðun á ýmsum grundvallaratriðum í varnarstefnu Íslands. Viðræður við Bandaríkjamenn hafa staðið yfir um þann varnarviðbúnað sem við tekur í kjölfar brottflutningsins. En brotthvarfi varnarliðsins, eftir meira en hálfrar aldrar veru á Miðnesheiðinni, fylgja einnig nýjar áskoranir fyrir samfélagið hér á Suðurnesjum og margar áleitnar spurningar hljóta að vakna: Hvernig verður staðið að viðskilnaði Bandaríkjamanna við varnarsvæðin? Hverjar eru framtíðarhorfur í atvinnumálum hér eftir brotthvarf varnarliðsins? Spurningar á borð við þessar hljóta að vera sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum ofarlega í huga þessa dagana.

Eitt helsta viðfangefni í viðræðum okkar við Bandaríkjamenn, ef frá er taldar viðræður um varnarviðbúnað Íslands til framtíðar, er hvernig staðið verður að viðskilnaði Bandaríkjamanna við þau svæði sem þeir hafa haft til athafna í rúma hálfa öld. Ég get fullvissað alla þá sem hér sitja að mikil vinna hefur verið lögð í viðræðurnar af hálfu utanríkisráðuneytisins, sem og annarra aðila sem aðild eiga að málinu. Kappkostað hefur verið að gera allan undirbúning eins vel úr garði og unnt er með tilliti til hagsmuna Íslands í heild, og Suðurnesja sérstaklega. Þar er lykilatriði að viðhaldið verði snurðulausum rekstri Keflavíkurflugvallar, sem er mikilvægasta samgöngumannvirki okkar Íslendinga. Í því skyni hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að halda nauðsynlegum búnaði vegna rekstrar flugvallarins og nýta áfram þá mikilvægu sérþekkingu sem býr í starfsmönnum vallarins. Varnarviðræðunum er hins vegar ekki lokið og ég veit þið virðið það við mig að geta ekki greint frá stöðu þeirra í smáatriðum.

En þótt ekki sé hægt að staðfesta hér og nú hvað við tekur liggja meginlínurnar vitaskuld fyrir. Bandaríkin munu ekki vera áfram með fasta viðveru herliðs á Íslandi. Í því felst vitanlega meginbreyting frá því sem verið hefur undanfarin 55 ár, ekki síst þegar litið er til þess víðáttumikla varnarsvæðis og fjölda mannvirkja, sem Bandaríkin hafa nýtt vegna varna landsins. Hér er um að ræða á sjötta hundrað mannvirkja, sem ýmist eru eign Bandaríkjanna eða Atlantshafsbandalagsins, og sum hver reyndar í eigu íslenskra aðila. Hvað sem öðru líður og þrátt fyrir brottför Bandaríkjamanna er ljóst að Atlantshafsbandalagið heldur eignarhaldi á sínum mannvirkjum, sem eru um 150 talsins. Þessi mannvirki lúta ákveðnu ákvörðunar- og skilaferli, sem að jafnaði tekur um eitt ár. Töluverð vinna og tími er því framundan hvað framtíð þessara mannvirkja varðar. Það ræðst hins vegar af endanlegum samningum við Bandaríkjamenn hvað verður um þau mannvirki á varnarsvæðunum sem teljast eign Bandaríkjanna. Jafnframt á eftir að skilgreina hvaða hluti varnarsvæðisins mun enn gegna hernaðarlegu hlutverki, þar sem herir Bandaríkjamanna og annarra bandamanna okkar í Atlantshafsbandalaginu geta mögulega nýtt sér aðstöðu til varnar landsins ef til þess kemur, en jafnframt til æfinga og annars konar athafna. Ég skoðaði þessi svæði og mannvirki á dögunum og mér er ljóst að þau eru auðvitað í mjög mismundandi ásigkomulagi og misvel fallin til nýtingar í annars konar starfsemi.

Ég vil hins vegar leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að allar ákvarðanir um framtíðarskipulag varnarsvæðisins og framtíðarnýtingu þessara mannvirkja verði teknar í góðri samvinnnu við heimamenn hér á Suðurnesjum. Framtíðarnýting svæðisins verður að geta samrýmst skipulagsáætlunum og framtíðaráformum sveitarfélaganna hér um áframhaldandi uppbyggingu.

Ágætu fundarmenn,

Eins og ég nefndi hér að framan standa Suðurnesjamenn nú frammi fyrir mikilli áskorun við brotthvarf herliðs Bandaríkjanna. En áskorunum fylgja líka tækifæri og ég tel alls ekki tilefni til neinnar svartsýni í þessum efnum. Sú staða sem við stöndum frammi fyrir er verðugt viðfangsefni, en ekki vandamál. Hér á Suðurnesjum eru mörg tækifæri til nýsköpunar og uppbyggingar sem þarf að greina og grípa. Reynsla erlendis frá, til að mynda í Þýskalandi þar sem töluvert hefur verið um lokun herstöðva, sýnir að með góðu skipulagi, ásetningi og samvinnu ríkis og sveitarfélaga má vinna mjög vel úr slíkum viðfangsefnum. Nú þegar hefur náðst góður árangur í þeim efnum og hefur stór hluti af þeim starfsmönnum varnarliðsins sem sagt hefur verið upp störfum fundið ný störf. Þar skiptir mestu að nú þegar hafa um 150 fyrrum starfsmanna varnarliðsins verið ráðnir til starfa hjá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli við ýmis störf sem varða rekstur alþjóðaflugvallarins.

Suðurnesjamenn eru að flestu leyti í ákjósanlegri stöðu til þess að mæta þessari nýju og ögrandi áskorun. Möguleikarnir sem felast í nálægðinni við alþjóðaflugvöll landsins eru nánast óþrjótandi. Flugvöllurinn er ekki einungis steinsnar frá blómlegum byggðarlögum í næsta nágrenni og höfuðborgarsvæðinu, heldur tengir hann Ísland við umheiminn og Evrópu við Norður-Ameríku. Færa má raunar gild rök fyrir því að vera varnarliðsins hér á landi hafi staðið þróun alþjóðaflugvallarins að nokkru leyti fyrir þrifum og hamlað vexti hans. Brotthvarf herliðs Bandaríkjanna kann því að skapa ný og ákjósanleg tækifæri. Ég leyfi mér að fullyrða að í Evrópu séu fá dæmi um alþjóðaflugvöll sem hefur jafn mikið rými til aukins vaxtar og möguleika til stækkunar athafnasvæðis. Yfirleitt eru alþjóðaflugvellir í nágrannaríkjum okkar aðþrengdir og því möguleikarnir til frekari vaxtar litlir sem engir. En hér á Suðurnesjum gegnir öðru máli – og hér liggja tækifæri.

Kostir og möguleikar svæðis við alþjóðaflugvöll, sem hefur svo greiðar tengingar innanlands sem og út fyrir landsteinana, hljóta að vera miklir í markaðs- og viðskiptalegu tilliti. Hægt er að hugsa sér alls konar uppbyggingu á rekstri og þjónustu við ört vaxandi alþjóðaflugvöll eins og aukna vöruflutninga, farþegaflug, ferðaþjónustu og ráðstefnuhald. Nýta mætti hafnarsvæðið í Helguvík í tengslum við slíka uppbyggingu og þegar er fram komin sú áætlun að nýta þar aðstöðu til geymslu flugvélaeldsneytis fyrir Keflavíkurflugvöll. Sú ráðstöfun myndi nánast binda endi á umfangsmikla eldsneytisflutninga um Reykjanesbraut og hlyti að skoðast sem mikil framför með tilliti til umhverfisins og umferðaröryggis.

Við getum líka velt því fyrir okkur hvort ekki séu fólgin tækifæri í nálægð alþjóðaflugvallarins við jarðhitann hér á Suðurnesjum. Hin kröftuga starfsemi Hitaveitu Suðurnesja hefur þegar haft mikil og jákvæð áhrif á samfélagið hér. Búa mögulega ónýttir möguleikar í samspili vistvænna orkugjafa og greiðum aðgangi að alþjóðaflugvellinum og hafnaraðstöðunni í Helguvík? Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um eina af fjölmörgum nýjum hugmyndum sem vert er að skoða í tengslum við atvinnuuppbyggingu hér á Suðurnesjum.

Ég er sannfærð um að með bjartsýni, hugmyndaauðgi og trú á framtíðina að veganesti muni Suðurnesjamönnum takast að sigrast á þeim áskorunum sem fylgja brotthvarfi Bandaríkjahers og efla enn frekar hið jákvæða mannlíf hér á svæðinu. Suðurnesjamenn hafa meira en 5 áratuga reynslu af alþjóðlegum samskiptum. Suðurnes hafa verið fyrsti áfangastaður margra þeirra nýju hugmynda, menningarstrauma og viðhorfa sem hafa mótað íslenskt samfélag síðustu hálfa öldina. Sú reynsla skapar íbúum svæðisins ákjósanlega stöðu þegar kemur að því að takast á við ný og fjölbreytt verkefni í heimi sem mótast sífellt meira af auknum alþjóðlegum samskiptum. Þau verkefni sem nú blasa við kalla á “djörfung og dug” eins og segir í kvæðinu, og vænan skammt af íslensku áræði og mér er það fullljóst að Suðurnesjamenn hafa alla þá kosti til brunns að bera. Við okkur stjórnmálamönnunum blasir nú það verkefni að tryggja að djörfung, dugur og áræði íbúanna hér fái nú notið sín til að skapa sveitarfélögunum hér á svæðinu bjarta framtíð.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum