Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2008 Utanríkisráðuneytið

Hnattvæddir afdalir

 

Ágæti rektor, háskólafólk, góðir fundargestir

 

I.

Það er mér mikil ánægja að vera boðin til þessarar samræðu hér í dag og ég vil þakka Listaháskólanum fyrir að bjóða til fundarins.

 

Samstarf utanríkisráðuneytisins og háskólanna í landinu sem efnt var til í tilefni af framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hefur reynst gjöfult og skemmtilegt. Þetta er sjötti opni fundurinn sem haldinn er í fundaröðinni og nú þegar hefur verið fjallað um starf Íslands og áhrif innan alþjóðastofnana, um framlag Íslands til starfa í þágu friðar og gæslu friðar, hvort Ísland skipti máli í alþjóðlegu samstarfi, um mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu og um framlag Íslands til baráttunnar gegn matvælaskorti, þurrkum og loftslagsbreytingum. Allt eru þetta mikilvægi málefni og mikilvægar spurningar fyrir mótun nýrrar íslenskrar utanríkisstefnu sem aðstæður kalla nú á. 

Í dag ræðum við efnið sem Listaháskólinn valdi, þ.e. réttinn til menningar og íslenskan menningararf á tímum hnattvæðingar. 

Þetta er gott val og tækifærið er kærkomið fyrir mig að taka þátt í umræðu um sjálfan grundvöll sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, afstöðuna til menningararfsins og hinna hröðu breytinga síðustu ára. 

Eftir að ég hóf störf sem utanríkisráðherra skynja ég betur en nokkru sinni fyrr mikilvægi sjálfsmyndar þjóðarinnar og þess hvað skilningur okkar á því hver við erum ræður miklu um það hvað við gerum. Þekking okkar á okkur sjálfum er undirstaða þes hvernig við eigum samskipti við aðra. 

Fyrst vil ég benda á að hnattvæðingin er ekki ný undir sólinni þó að á okkar öld beri hún ný einkenni. Á fyrri öldum var einkenni hennar að fólk fluttist búferlum milli landa, yfirgaf þau samfélög sem það hafði búið í og fluttist til nýrra heima. Á okkar dögum ná heimsbreytingar inn í samfélögin, hvað sem landamærum eða þjóðerni líður, og íbúar heimsþorpsins eiga ekki neitt val um það heldur einungis val um hvernig þeir bregðast við breytingunum. 

Og þar erum við stödd Íslendingar -  íbúar heimsþorpsins. Breytingarnar eru komnar inn um bæjardyrnar, heimurinn breytist ört og Ísland er lifandi vitnisburður þeirra breytinga, hvað sem okkur kann um það að finnast. 

Hið mikilvæga er að bregðast skynsamlega við. Hnattvæðing er í sjálfu sér hvorki góð né slæm og að reyna að stöðva hana er álíka hugmynd eins og að telja gerlegt að stöðva iðnbyltinguna með því að brjóta vélarnar. Á sama hátt getum við ekki verndað íslenska tungu einfaldlega með því að slökkva á sjórnvarpstækjunum, tölvunum og "ipodunum". Við skulum líta svo á að viðbrögðin við hnattvæðingunni sé eins og íslensk glíma þar sem fastatök sé leiðin að góðum árangri.  Þannig sé það t.d. verkefnið að tryggja fastatök íslenskrar tungu í glímunni við hnattvæðingu. 

Mig langar til að nota tækifærið til að vekja athygli á mikilvægu starfi á þessu sviði sem fer lágt og sjaldan er talað um. Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur verið starfrækt frá því að undirbúningur hófst að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðin. Í sautján ár hefur hún íslenskað nýja hugsun  í tækni, samfélagsmálum, vísindum og menningu og leitt ný orð og hugtök inn í íslenskt ritmál í sátt við formgerð íslenskunnar. Þetta starf er ómetanlegt því með þessu móti eru tengslin við Evrópu og heiminn virkjuð til að endurnæra íslenskuna og svara kalli tímans og hnattvæðingarinnar.  Með starfinu er orðið til hugtakasafn með ríflega 46 þúsund íslensk grunnhugtök sem aðgengilegt er öllum á vefnum. Þýðingarmiðstöðin starfrækir í raun þekkingarnet sem nær inn á afar fjölbreytt starfssvið samfélagsins - í verkgreinar, í opinberar stofnanir, til rannsóknafólks og víðar. Þetta fólk liðsinnir okkur við að skilja við hvað er átt á erlendu tungumáli og hvernig það verði best orðað á lipurri íslensku. 

Hnattvæðngin breytir ekki menningararfinum sjálfum sem er meitlaður í bókmenntum, húsakosti, munum, siðum, þjóðtrú og venjum. Hnattvæðing gefur menningararf nýja möguleika til að breiða úr sér. Dæmi um það er rannsóknasamfélag á netinu um hin fornu dróttkvæði íslenskra bókmennta. Aldrei hafa jafn margir fræðimenn, í jafn mörgum heimsálfum í senn rýnt af krafti í dróttkvæðin eins og nú er og rætt fræði sín á netinu. Vandaðar fræðilegar útgáfur líta nú dagsins ljós hjá fjölþjóðlegum bókaútgáfum þar sem fræðimálið er enska. Enginn gat séð þetta fyrir, enginn hefði trúað að slíkt gæti gerst fyrir fimmtán árum þegar Netið hafði ekki náð útbreiðslu.

 

Ágætu fundargestir. 

Íslenskur menningararfur lifir nútímann af eins og fyrri nútíma, og hnattvæðingin er ekki ný undir sólinni. Það sem breytist eru samfélögin, þjóðirnar og stjórnmálin. Þessvegna fær sjálfsmynd okkar sem samfélags nýtt mikilvægi og færni okkar í samskiptum að aðrar þjóðir verður beinhart hagsmunamál.

 

 

II.



Menning og listir eru hvort tveggja í senn alþjóðleg og staðbundin eða „þjóðleg”.

Við þekkjum öll dæmi úr sögunni um hið síðastnefnda, það hvernig menningin og listirnar voru notaðar af stjórnvöldum til þess að  skapa samheldni og samstöðu meðal þjóða eða hópa til stuðnings tilteknum sjónarmiðum eða aðgerðum. Á tímum Sovétríkjanna hvatti Lenín, sem dæmi, til rekstrar kvikmyndahúsa og þannig var myndmáli beitt til að ná til almúgans, sem var ólæs, til stuðnings byltingunni. Á göngu um gamlar miðborgir heimsins sjáum við glöggt hvernig listsköpun hefur verið beitt um aldir til að kynda þjóðerniskennd og stuðning við vald og valdhafa,  eins og styttur til heiðurs herforingjum og hugmyndafræðingum bera vitni um. 

Stríð og átök milli hópa innan ríkja birtast dag hvern á skjám allra sem fylgjast með fréttum. Nú í upphafi 21. aldar eru háværar kenningar uppi um átök byggð á menningarmun, þekktust allra kenningar Samuels Huntingtons um átök menningarheima (Clash of Civilizations). Þar er kennisetningin sú að átök nútímans geisi ekki milli ríkja heldur menningarheima, hins vestræna og kristna menningarheims annars vegar og hins íslamska hins vegar. Þessir menningarheimar séu ósættanlegir og upp sé runnið nýtt skeið í alþjóðasamfélaginu sem hverfist um þessi átök. Menning að mati þeirra sem svona hugsa er þannig einfalt og innantómt tákn hópa sem takast á en skilja ekki hvor annan. 

Edward Said, arabískur fræðimaður sem er nýlega látinn, setti fram andsvar við framangreindu með því að gefa þessari uppsetningu annað heiti sem er „átök fáfræðinnar”  (Clash of Ignorance). Það sé rangt að stilla ólíkum menningarheimum upp sem andstæðum heldur þvert á móti sýni reynsla kynslóðanna að menning og samræða ólíkra menningarheima séu sameinandi og auðgi um leið menningu hvers um sig. Mistökin séu að trúa á eðlislæg átök menningarheima, að ein menning sé betri en önnur, að í heiminum standi stríð - okkar gegn þeim.

Ég lærði að nota nýtt hugtak fyrir nokkru, hugtakið "glocal" á ensku, samsett úr global og local og vísar til þversagnarinnar sem hnattvæðingin ber með sé. Um leið og hið alþjóðlega hefur meiri áhrif á hið staðbundna ber hvarvetna í heiminum á aukinni þörf fólks fyrir sterka og sérgreinda sjálfsmynd. 


Hér  á Íslandi er það mikilvægt verkefni að finna leiðir til þess að tryggja að menning ólíkra hópa innan samfélags okkar mótist hvorki af tilfinningunni um að verðmætum arfi okkar sé ógnað né tilfinningu um að með yfirgangi sé menningu sem nýlega nam land ekki ætlaður tilveruréttur. 

Réttur til menningar eru mannréttindi þótt alþjóðasamfélagið sé skammt á veg komið að útfæra hann, og við Íslendingar sem þekkjum svo vel mátt þess að beita eigin tungumáli eigum að standa sérstaklega með þjóðum t.d. Afríkuríkjum sem hvorki þekkja tungumál sitt nógu vel né hafa tryggt þekkingu á sögu sinni nema stutt aftur.  

Samræðan er hin siðmenntaða aðferð manna til að þekkja sjálfa sig og skilja aðra. Snorri Sturluson hafði heiminn allan undir þar sem sat við skriftir í dal á Íslandi og skýrði tilurð heimsins, sköpun hans og gangverk. Þjóð sem býr að slíkum menningararfi þarf ekki að óttast það verkefni að skilja aðra menningarheima, og ef við skiljum aðra menningarheima þurfum við ekki heldur að óttast sambúðina við þá.

 

 

III.

 

Og þá kem ég að galdri listarinnar, því tungumáli sem lýsir hinu sam-mannlega.

Mig langar að vísa í Nóbelsskáld síðasta árs, skáldkonuna Doris Lessing. Hún dregur á einum stað fram á eftirminnilegan hátt þýðingu listarinnar fyrir mannfólkið. Fólk er alltaf að leita að sjálfu sér, einhverju sem getur varpað ljósi á það sjálft, líf þess, samfélag og stöðu. Listin og menningin þjónar ekki síst því hlutverki fyrir einstaklinginn að segja honum hver hann er og setja hann í samhengi. 

Í bókinni „Í vondu hjónabandi” sem er hluti af sagnabálknum um Mörtu Quest skrifar hún um leit einstaklingsins og hlutverk listamannsins á þessa leið: „Það var athyglisverð staðreynd að gagnrýni á hana sem manneskju frá foreldrum, ættingjum, prestum, kennurum, stjórnmálamönnum eða þeim sem skrifuðu í dagblöðin, hafði engin áhrif á hana, en hins vegar gat óviðfelldin lýsing á sögupersónu henni líkri ýtt henni út í angistarfulla sjálfsskoðun sem stóð jafnvel dögum saman. Sem gefur til kynna að það sé þýðingarlaust fyrir listamann að afneita ábyrgð sinni með hástemmdum lýsingum á að framlag þeirra sé aðeins "guðlegur leikur" eða endurspeglun á sköpunareldi íróníunnar" eða hvað annað sem þeir svo órólegir kalla það. Það dugar ekki meðan Mörtur þessar heims lesa og leita af þessari knýjandi þörf: Hvað segir þetta um líf mitt?  (Úr Mörthu Quest)

 

Góðir fundargestir.

Listir og listamenn eru sennilega aldrei mikilvægari en á tímum breytinga og uppbrots. Við eigum ekki að gera kröfur um þjóðlega list heldur gera kröfur til okkar sem þjóðar að lesa, hlusta, horfa og skapa.  

Þessvegna er þriðja setningin í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um menningu og fjallar um að virkja kraftinn í menningarlífi landsmanna því menning sé í senn vaxandi atvinnugrein, aflvaki nýsköpunar og mikilvægur hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar, eins og þar segir.

Kona nokkur skrifaði grein í dagblað í síðustu viku um að Íslendingar hefðu lýðræðisform vandlega útfært, en skorti mjög lýðræðissinna til að skapa þá menningu sem nærir lýðræðislega samfélagshætti, þar með talin stjórnmál.

Ég er sammála þessari ágætu konu: Menningin kemur á undan stjórnmálunum, en ekki öfugt. Valdið á ekki að þurfa styttur til að upphefja sig eða bíó til að bæta í eyður verðleikanna eins í Sovét forðum. Auðug menning í opnu samfélagi þarf ekki á slíku að halda. 

Ég vék að því í upphafi hvað sjálfsmynd Íslendinga réði miklu um athafnir og athafnaleysi á alþjóðavettvangi. Þar standa ýmsar gamlar goðsagnir Íslandi fyrir þrifum, t.d. að meint sérstaða Íslands sem landi farnist best í einangrun. Eða að Íslendingum farnist best að segja sem minnst á alþjóðavettvangi því við séum svo mjóróma. 

Bjartur í Sumarhúsum var þessarar skoðunar og taldi sig engin erindi eiga inn á fundi þar sem ráðum var ráðið. Höfundur Bjarts í Sumarhúsum eins og Doris Lessing sýndi mannfólkinu hluta af því sjálfu. Afhjúpaði goðsagnir í sjálfsmynd Íslendinga sem einstaklinga og þar með samfélagins en sýndi lika að list sem sprettur úr menningarlegum afkima getur haft skírskotun til fólks á allt öðru menningarsvæði ef hún nær að höndla hið sammannlega sem þrátt fyrir allt er sterkasti þráðurinn og gengur þvert á mismunandi menningarheima. 

Þegar bókin kom fyrst út í Bandaríkjunum um miðja síðustu öld seldist hún í gríðarstóru upplagi og frægar er frásagnir af leigubílstjórum í New York þekktu sjálfa sig í íslenska afdalabóndanum.

Þannig eru hnattvæddir afdalir. Látum engan telja ungum Íslendingum trú um að þau séu of mjóróma fyrir heiminn.  

Ég hlakka til að hlusta og taka þátt hér á eftir.  



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum