Hoppa yfir valmynd
15. september 2007 Utanríkisráðuneytið

Opnun sendistofu Færeyja í Reykjavík

Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra

vegna opnunar sendistofu Færeyja í Reykjavík,

laugardaginn 15. september 2007

Lögmaður Færeyja Jóannes Eidesgaard, ráðherrar, lögþingsmenn, Gunvør Balle sendikvinna, ágætu gestir,

 

Í dag höfum við svo sannarlega tilefni til að fagna! Eg vil byrja við at bjóða teimum mongu føroyingum ið higar eru komnir til at vera til staðar, nú Føroya Sendistova letur upp her á landi, hjartaliga vælkomnum til Íslands. 

Íslendingar og Færeyingar eru náskyldar frændþjóðir og byggja samskipti þjóðanna á afar traustum grunni. Öldum saman hafa Færeyingar og Íslendingar sótt hvor aðra heim og myndað með sér sanna vináttu. Þegar áföll hafa skollið á hafa Íslendingar sannreynt hversu góðan og traustan vin, þeir eiga í Færeyingum.

Það er svo margt sem sameinar okkur; tungan, sagan, menningin og náttúran. Í Færeyjum líður Íslendingum eins og heima hjá sér, eða eins og Hannes Pétursson skáld orðaði það: Hvergi er Íslendingur minni útlendingur en í Færeyjum. Og hér á Íslandi eru Færeyingar svo sannarlega velkomnir.

Það segir sitt um náin samskipti þjóðanna að sendistofa Færeyja, sem tekur til starfa hér í dag, er fjórða sendistofa Færeyja. Áður hafa verið opnaðar sendistofur í Kaupmannahöfn, og má þess til gamans geta að hún er raunar staðsett í sama húsi og íslenska sendiráðið þar í borg. Þá eru einnig starfandi sendistofur í London og Brussel.

Það er gleðilegt hversu mikið samskipti þjóðanna tveggja hafa eflst á síðustu árum, hvort sem er á sviði menningar og lista eða viðskipta og stjórnmála. Þann 1. apríl síðastliðinn opnuðum við Íslendingar aðalræðisskrifstofu í Færeyjum. Í dag tekur sendistofa Færeyinga hér á Íslandi til starfa. Ég er þess fullviss að starfsemi skrifstofanna tveggja eigi eftir að auka enn frekar á tengsl og samskipti þjóðanna á komandi árum og að afar spennandi tímar séu framundan.

Hoyvíkursamningurinn svokallaði, fríverslunar-samningur milli Íslands og Færeyja, hefur senn verið í gildi í eitt ár. Segja má að rauði þráðurinn í samningnum sé traust en samningurinn er víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert. Þannig skulu Færeyjar og færeysk fyrirtæki njóta sömu réttinda á Íslandi og Íslendingar – og gagnkvæmt. Eitt af því sem gerir samninginn sérstakan og óvenjulegan, og sem sýnir um leið traustið sem ríkir á milli þjóðanna, er að ekki er talin þörf á neinum eftirlitsstofnunum til þess að tryggja að farið sé eftir samningnum. 

Ég tel að samningurinn sé afar mikilvægt tæki til að efla og þróa samskipti okkar og samvinnu og að samningurinn sé þegar farinn að sanna gildi sitt. Miklu skiptir að vel takist til um framkvæmd samningsins frá upphafi.

Við munum gera okkar besta til þess að færeysk fyrirtæki, sem vilja hefja starfsemi á Íslandi geti greiðlega stofnað fyrirtæki, opnað útibú eða umboðsskrifstofur og auðvitað á það sama að gilda um íslensk fyrirtæki sem vilja hefja starfsemi í Færeyjum. Við treystum því að í Færeyjum verði einnig unnið að góðri framkvæmd samningsins í samræmi við það sem kveðið er á um í Hoyvíkursamningnum.

Samstarfsnefnd sem á að stuðla að frekari þróun og samstarfi á milli ríkjanna starfar á grundvelli Hoyvíkursamningsins, en í samningum er sérstaklega tilgreint að stefnt sé að auknu samstarfi á sviði menningarmála, orkumála, umhverfismála, heilbrigðismála, fjarskipta og ferðaþjónustu.

Á eftir munum við Jóannes Eidesgaard lögmaður Færeyja undirrita viljayfirlýsingu um aukið samstarf milli Íslands og Færeyja á heilbrigðissviðinu. Tel ég mörg góð tækifæri felast í framtíðinni um hvernig við getum þróað Hoyvíkursamninginn enn frekar, eins og gert er í þessari viljayfirlýsingu, og jafnvel inn á ný svið.

Færeyskt listafólk hefur verið mjög áberandi í menningarlífinu hér á landi undanfarin ár. Eivør Pálsdóttir á sérstakan stað í hjörtum landsmanna, eins og sást á tónleikum Eivarar og Stórsveitar Reykjavíkur á Jazzhátíð í Reykjavík nýlega þar sem hún söng fyrir troðfullu húsi við góðar undirtektir áhorfenda. Þá er nýja idolstjarnan, Jógvan, einnig frá Færeyjum, eins og þekkt er orðið.

Þótt mikil samskipti séu milli Íslands og Færeyja, og að þau hafi aukist hin síðustu ár, bíða okkar ýmis tækifæri til nánara samstarfs í framtíðinni á hinum fjölbreyttustu sviðum. Ég tel t.d. að ýmsir góðir möguleikar gætu falist í auknu samstarfi í ferðamálum. Þar sem við deilum menningararfi og lífsýn má segja að varla finnist eðlilegri samstarfsaðilar en Færeyingar og Íslendingar. 

Það bíða því næg verkefni fyrstu sendikvinnu Færeyinga hér á landi, Gunvarar Balle. Það sama á auðvitað einnig við um Eið Guðnason sendiherra, aðalræðismann Íslands í Færeyjum.

Svo skemmtilega vill til að Gunvør dvaldi um tíma á Íslandi til að kynna sér starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar, sem er ein af undirstofnunum utanríkisráðuneytisins. Það er mér því sérstök ánægja að bjóða þig velkomna aftur til Íslands, Gunvør. Staðsetning færeysku sendistofunnar gæti vart verið betri en hér í Austurstræti, í iðu mannlífsins, einungis steinsnar frá ráðuneytum, Alþingi og öllum helstu stofnunum landsins. 

Eftir að Eiður Guðnason sendiherra tók til starfa í Færeyjum síðasta vor skrifuðu færeyskir fjölmiðlar að fyrsti diplómatinn í Færeyjum væri ekki útlendingur – hann væri Íslendingur. Á sama hátt segi ég í dag að fyrsta sendikvinna sendistofu Færeyja er ekki útlendingur – heldur Færeyingur. Velkomin!

Það er mér heiður að tilkynna ykkur að fyrr í dag sæmdi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Jóannes Eidesgaard, lögmann Færeyja, stórriddarakrossi með stjörnu hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag hans til að efla samskipti færeysku og íslensku þjóðanna. Ég vil að þú vitir Jóannes, hversu mikið við metum framlag þitt til þessa mikilvæga verkefnis.

Og nú, þegar færeysk sendistofa hefur tekið til starfa í Reykjavík og íslensk aðalræðisskrifstofa starfar í Þórshöfn er ég viss um að þjóðirnar muni bindast enn sterkari böndum og að samskiptin munu aukast enn frekar. Við höfum svo sannarlega til margs að hlakka. 

Ég legg til að við lyftum glasi fyrir opnun sendistofu Færeyja hér á landi og fyrir góðum samskiptum þjóða okkar. Skál kæru vinir!



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum