Hoppa yfir valmynd
2. september 2003 Utanríkisráðuneytið

Staða smærri ríkja á 20. öld

STAÐA SMÆRRI RÍKJA Á 21. ÖLD

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra á hádegisverðarfundi Sagnfræðingafélags Íslands, Norræna húsinu 2. september 2003



Ágætu félagar í Sagnfræðingafélagi Íslands og aðrir gestir. Sem áhugamaður um sagnfræði í víðu samhengi og menningu og sögu þjóðar okkar, vildi ég nota þetta tækifæri til þess að þakka fyrir það tækifæri að fá að koma til ykkar hingað í dag á þennan hádegisverðarfund. Þjóð án sögu er eins og maður án minnis, sagði vitur maður úr ykkar stétt og ég tek undir hvert orð í þeim efnum. Allt frá fyrstu tíð hafa Íslendingar verið áfram um þjóðlegan fróðleik og sinn menningararf og sú arfleifð sem okkur var falin skipar okkur á sess með menningarþjóðum veraldar. Líklega mætti segja að saga okkar og menning sé óvenjulega merkileg miðað við stærð þjóðarinnar, en það er auðvitað til lítils og fremur hégómi en annað, því hverjir ætla að verða til þess að varpa mælistiku á menningu og sögu einnar þjóðar, hvað þá margra. Hver er þess umkominn að segja að eitt sé merkilegt en annað ekki? Sagan geymir margt sem á einum tíma þótti lítt spennandi, en telst til gersema nú. Tíðarandinn er fallvalt fyrirbæri og gildismatið afstætt.

Það eru til dæmis gömul sannindi og ný að stærð er afstæð. Stærðarmat veltur á viðmiðun og sjónarhorni. Það á ekki síst við þegar bregða á mælistiku á ólík ríki heims. Hugtök eins og örríki, smáríki, smærri ríki, stærri ríki, stórveldi og heimsveldi eru mjög á reiki. Það vekur svo aftur spurninguna hvort stærð ríkja skipti einhverju máli þegar kemur að hlutverki þeirra gagnvart eigin borgurum og öðrum ríkjum. Ef Ísland telst til smærri ríkja samkvæmt eigin skilgreiningu og horft er til framtíðar má spyrja: geta slík ríki á fyrirsjáanlegum breytingatímum áfram tryggt öryggi og velferð borgaranna og átt árangursrík samskipti við umheiminn í þeim tilgangi ? Það eru ýmsar blikur á lofti í upphafi 21. aldar en ég tel ástæðu til bjartsýni.

Smærri ríki voru reglan fremur en undantekningin í upphafi söguritunar og í evrópskri miðaldasögu er fjöldi dæma um lítil furstadæmi og borgríki sem höfðu töluvert eða algert fullveldi í nútímaskilningi þess orðs. Það er hættuspil að fara í sögulegar einfaldanir á fundi hjá Sagnfræðingafélagi Íslands en segja má að Westfalíu-friðurinn og staðfesting ríkishugtaksins um miðbik 17. aldar, framrás rómantískrar þjóðernisstefnu í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna í upphafi 19. aldar og efling þjóðaréttar eftir hildarleik fyrri heimsstyrjaldar í upphafi 20. aldar hafi styrkt stöðu smærri ríkja í Evrópu og haft mótandi áhrif um heim allan. Reyndar varð þjóðernisstefnan til þess að fjöldi evrópskra smærri ríkja leið undir lok, t.d. við sameiningu Þýskalands og Ítalíu, en í framhaldinu bættust mörg þjóðríki í hóp smærri ríkja. Á sama hátt var gengið á rétt sumra smærri ríkja í Evrópu í síðari heimsstyrjöld og fullveldi annarra skert í kalda stríðinu en undir lok liðinnar aldar höfðu flest þeirra endurheimt sjálfstæði og fullveldi og fleiri bæst í hópinn. Á heimsvísu leiddi skipbrot nýlendustefnunnar til mestrar fjölgunar smærri ríkja.

Skilgreining smærri ríkja

Stofnun Sameinuðu þjóðanna endurspeglaði ekki einungis ofangreinda þróun heldur stuðlaði einnig að henni. Vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar ná til nánast allra ríkja heims og þau starfa þar á jafnréttisgrundvelli, þá eru samtökin trúverðugasti vettvangurinn til beitingar alþjóðalaga í milliríkjasamskiptum og þau stuðla ennfremur að stöðugri mótun lagaramma á ólíkum sviðum. Þetta skiptir smærri ríki miklu eins og síðar verður vikið að. Það hefur farið saman að styrkleiki Sameinuðu þjóðanna hefur falist í almennri aðild ríkja heims og að aðild hefur verið talin endanleg staðfesting sjálfstæðis ríkjanna. Við stofnun Sameinuðu þjóðanna voru aðildarríkin 51 en eru nú orðin 191 og flest þeirra sem bæst hafa við teljast til smærri ríkja. Þess má geta að innan Sameinuðu þjóðanna er svonefndur vettvangur smærri ríkja (Forum of Smaller States) sem eru skilgreind þannig að fólksfjöldi sé undir 10 milljónum og þar eru nú 88 ríki.

Fyrrnefnd skilgreining á því hvað teljast til smærri ríkja gagnast til að framkalla samstöðu innan Sameinuðu þjóðanna en er annars lítt nothæf. Ef mæla á öryggi og velferð borgaranna og utanríkispólitísk áhrif, skiptir þá öllu hvort tæplega eða rúmlega 10 milljónir manna búa í ríkinu ? Er það gefið að fámenn ríki séu veikburðugari heldur en fjölmenn ? Til samanburðar má nefna sem dæmi að Íslendingar eru jafn margir og íbúar Malmö, Svíar eru u.þ.b. jafn margir Parísarbúum, og Frakkar eru jafn margir íbúum Henan-fylkis í Kína. Það þýðir ekki að staða Íslands sé sambærileg við Malmö, eða Svíþjóðar við París, eða Frakklands við Henan-fylki. Við mat á stærð ríkja, að svo miklu leyti sem þess er þörf, er skynsamlegast að vega innbyrðis fólksfjölda, landfræðilega stærð og efnahag. Áhugavert er að velta því fyrir sér hvort að síðastnefndi þátturinn vegi ekki þyngst. Það má benda á að mörg ríki sem hafa ekki lengur staðið undir nafni ("failed states") hafa verið meðalstór og jafnvel stærri ríki.

Efnahagsleg umsvif veita utanríkispólitísk áhrif

Á síðari árum virðast efnahagsleg umsvif veita meiri utanríkispólitísk áhrif heldur en fólksfjöldi og landfræðileg stærð gæfu ella tilefni til. Finna má dæmi um þetta í flestum heimsálfum en nærtækast er að nefna annars vegar alþjóðlega stöðu Norðurlandanna og hins vegar viðskiptastöðu EFTA-ríkjanna. Það er umhugsunarvert að á Norðurlöndum býr um 0,4% mannkyns en þessi fimm ríki veita í heild tæplega 10% af allri opinberri þróunaraðstoð í heiminum. Í EFTA-ríkjunum býr um 0,2% mannkyns en heildarviðskipti þessara fjögurra ríkja svara til um 2,0% af heimsviðskiptum. Það er misjafnt hversu markvisst vel stæð smærri ríki hafa reynt að nýta sér efnahagslegan styrk í þágu viðeigandi svæðisbundinna eða alþjóðlegra áhrifa og oft skapast slíkt samhengi sjálfkrafa. Á hinn bóginn er sá munur á hugsanlegum áhrifum smærri og stærri ríkja að þau fyrrnefndu hafa í flestum tilvikum pólitísk markmið sem varða eflingu eigin öryggis og velferðar enda skortir þau hernaðarlegt bolmagn og oftast viljann til valdbeitingar. Að sjálfsögðu er misjafnt eftir aðstæðum hvaða áherslur birtast í utanríkisstefnu smærri ríkja en almennt má segja að hagsmunir þeirra felist öðrum fremur í varðveislu friðar og stöðugleika. Það er ekki vegna þess að smærri ríki séu í eðli sínu dygðugri heldur en þau stærri, heldur vegna þess að þau geta hugsanlega beðið alvarlega hnekki í atburðarrás þar sem þau ráða litlu eða engu um framvinduna.
Það er einkum á sviði öryggismála sem smærri ríki geta staðið höllum fæti gagnvart þeim stærri. Beiting aflsmunar er eitt meginþema mannkynssögunnar og það var áberandi í kjölfar blóðsúthellinga og eyðileggingar heimsstyrjaldanna, fyrst með stofnun Þjóðabandalagsins og svo Sameinuðu þjóðanna, að valdbeiting í milliríkjasamskiptum færðist nær því að teljast neyðarúrræði fremur en kaldrifjaður pólitískur valkostur. Það hefur því miður ekki þýtt að síðari hluti 20. aldar hafi verið tími alþjóðlegs friðar og sátta en það hefur leitt til viðhorfsbreytingar víða um heim sem tengist einnig sífellt greiðari upplýsingamiðlun. Hið óljósa hugtak "samfélag þjóðanna" er oft notað í tengslum við efnahagslega eða hernaðarlega valdbeitingu og endurspeglar vaxandi nauðsyn alþjóðlegrar og lagalegrar viðurkenningar á slíkum aðgerðum.

Eiginhagsmunir og heildarhagsmunir

Um leið og smærri ríkjum hlýtur nánast eðlislægt að standa stuggur af valdbeitingu í milliríkjasamskiptum, þá má ekki gleyma því að eins er farið með alþjóðalög eins og landslög að stundum þarf að beita valdi til að framfylgja þeim. Ef fortölur væru eina úrræðið yrðu lögin fljótt hjóm eitt því miður. Löggjafarvaldið liggur í flestum tilvikum sameiginlega hjá aðildarríkjum alþjóðlegra og fjölþjóðlegra samtaka og stofnana og þar ber hæst öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmdavaldið er hjá hverju aðildarríki en í reynd velta ákvarðanir um aðgerðir oft á pólitískum vilja stærri ríkjanna. Með hliðsjón af mikilvægi alþjóðalaga fyrir smærri ríki hlýtur það að vera fagnaðarefni ef þau ríki sem mest hafa bolmagnið eru reiðubúin til að fórna fjármunum og hugsanlega mannslífum í þágu heildarinnar. Það er alls ekki gefið að eiginhagsmunir stórvelda og heildarhagsmunir geti ekki farið saman.

Aðild að ríkjasamtökum eða bandalögum

Á síðari árum hafa smærri ríki aðallega reynt að tryggja öryggi sitt með því að byggja á þjóðarétti og stuðla að framgangi alþjóðalaga, m.a. á vettvangi alþjóðlegra eða fjölþjóðlegra samtaka og stofnana. Þau hafa mörg stofnað til og tekið þátt í svæðisbundnu samstarfi og gerst aðilar að ríkjasamtökum eða bandalögum. Reynslan sýnir að smærri ríkjum hefur tekist að styrkja stöðu sína á grundvelli þjóðaréttar og jafnvel að sækja sértæka hagsmuni með þeim hætti, t.d. þegar Ísland tók virkan þátt í mótun hafréttar í sama mund og fiskveiðilögsagan var færð út. Norræn samvinna er e.t.v. skýrasta dæmið um hvernig svæðisbundið samstarf getur stuðlað að stöðugleika og smærri ríki víða um heim hafa verið framarlega í slíku samstarfi á undanförnum árum. Aðild að ríkjasamtökum eða bandalögum hefur veitt smærri ríkjum öryggi og hlutfallslega mikil utanríkispólitísk áhrif á grundvelli jafnræðisreglunnar, samkenndar og samstöðu og þar má nefna Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið sem áþreifanleg dæmi.

Jafnvel þótt tækist að ná alþjóðlegri skilgreiningu á hvað teljist smærri ríki þá er augljóst að ekki er um einsleitann ríkjahóp að ræða. Ólíkar aðstæður og hagsmunir geta valdið því að þróun alþjóðamála kemur við smærri ríki með misjöfnum hætti. Þannig má nefna að við lok kalda stríðsins dró úr tímabundnum og staðbundnum áhrifum margra smærri ríkja um allan heim en í sama mund losnuðu önnur úr viðjum. Auðvitað fagna allir í einlægni lokum kalda stríðsins og eftir því sem frá líður sést að ávinningur slökunar í alþjóðamálum nýtist öllum en það breytir því ekki að flest smærri ríki hafa skyndilega orðið að laga utanríkisstefnuna að breyttum heimi ýmist vegna minna eða meira svigrúms. Það er engin launung á því að skyndileg fjölgun smærri ríkja hefur leitt til dreifðari athygli þeirra stærri, einkum stórvelda, enda fjöldi brýnna úrlausnarefna í mörgum nýfrjálsum ríkjum.

Tækifæri í aðlögunarhæfni smæðarinnar

Það sem öll smærri ríki eiga sameiginlegt í kjölfar loka kalda stríðsins er að þurfa að takast á við kosti og galla hnattvæðingarinnar sem veitir þeim áður óþekkt tækifæri en reynir jafnframt meir á þau heldur en á stærri ríki. Hnattvæðingin felur í sér aðlögun frá þjóðlegum sjálfsþurftarbúskap til alþjóðlegs markaðsbúskapar, m.a. á sviði viðskipta, menningar, samgangna og fjarskipta. Þessi róttæka þróun getur reynst mörgum smærri ríkjum erfið vegna þess að tilvera þeirra byggist oft á sérkennum þjóðríkisins og að hagkerfi þeirra skortir oft það þanþol sem hlýst af fjölbreytileikanum. Á hinn bóginn felast tækifærin í algengri aðlögunarhæfni smæðarinnar og mun meiri vaxtarmöguleikum heldur en ella gætu boðist. Það á hvort tveggja við um stækkun heimamarkaðar og aðgang að erlendum mörkuðum. Útrás íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum ber þessu vitni.

Hvað varðar félagslegar og menningarlegar afleiðingar hnattvæðingar þá er ljóst að þessi þróun er aflvaki örra breytinga í flestum smærri ríkjum. Þrátt fyrir svartsýnisgall er ekkert sem bendir til þess að þessar breytingar geri hlut smærri ríkja verri þegar til lengri tíma er litið. EES-samningurinn er óneitanlega hluti af hnattvæðingarferlinu og það má spyrja: telja íslenskir launþegar og neytendur að réttur þeirra hafi minnkað á undanförnum árum ? Svarið er óhikað neitandi og nefna má t.d. að stéttarfélög fagna almennt þessu víðara samhengi. Það má einnig spyrja hvort íslensk menning og þjóðrækni hafi beðið hnekki á undanförnum áratugum ? Svarið við þeirri spurningu er einnig neikvætt því þótt menningin og sjálfsímyndin hafi breyst þá er alls ekki þar með sagt að hún sé ekki íslensk og þaðan af síður að Íslendingar séu verr í stakk búnir til sjálfstæðra samskipta við umheiminn heldur en áður.

Samkvæmni í utanríkisstefnu vænleg til árangurs

Á undanförnum misserum hefur mikið verið rætt um hvort alþjóðleg valdahlutföll séu orðin einskauta (unipolar) og þá jafnframt hvort fjölskauta (multipolar) ástand sé æskilegra. Það er nokkuð mótsagnakennt að þessi umræða einkennist annars vegar af gamaldags stórveldapólitík eins og heimurinn sé til skiptanna í áhrifasvæði og hins vegar er hún samtímis tengd þungri áherslu á forræði alþjóðalaga. Á millistríðsárunum leituðu mörg evrópsk smærri ríki skjóls í hlutleysi með misgóðum árangri og eins og fyrr sagði styrktu tvískauta (bipolar) valdahlutföll á tímum kalda stríðsins stöðu margra smærri ríkja en þar var á stigsmunur en ekki herslumunur. Hugsanlegur utanríkispólitískur ávinningur smærri ríkja af togstreitu stórvelda er oft skammvinnur og getur hæglega snúist í andstæðu sína.

Það má færa sterk rök fyrir því að samkvæmni í utanríkisstefnu sé vænlegust til árangurs þegar til lengri tíma er litið. Því skiptir gamla stórveldapólitíkin e.t.v. ekki svo miklu fyrir flest smærri ríki í samanburði við mikilvægi forræðis og framgangs alþjóðalaga. Reyndar hafa heyrst þær raddir sem fullyrða að stórveldapólitíkin og einkum einskautsheimur geti verið ógnun við alþjóðlegt réttaröryggi en það væri óráðlegt að draga of miklar ályktanir af einangruðum atburðum á undanförnum misserum. Það eru einkum vestræn lýðræðisríki, bæði stór og smá, sem hafa verið í forystuhlutverki í þróun þjóðaréttarins á undanförnum áratugum og engar líkur á að það breytist því hagsmunirnir verða áfram þeir sömu. Því hefur t.d. verið haldið fram á undanförnum árum að Bandaríkin séu að verða fráhverf alþjóðlegu samstarfi og forræði alþjóðalaga. Í þessu sambandi verður að gera greinarmun á annars vegar fyrirvörum við nýbreytni eða harðdrægri samningsaðferð og hins vegar því hvort horfið sé frá lögbundnum grundvallaratriðum. Þótt bandarísk stjórnvöld virðist ákveðnari en áður í að verja hagsmuni sína á alþjóðavettvangi samkvæmt eigin skilgreiningu er ekkert sem bendir til róttækrar stefnubreytingar enda er þeim fullkunnugt að það er eitt að knýja fram vilja sinn einhliða og annað að tryggja sátt um niðurstöðuna þegar til lengri tíma er litið.

Áhrif samtaka í jöfnu hlutfalli við skilvirkni

Framtíðarþróun áðurnefndra áhrifa smærri ríkja í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi hefur stundum komið til tals á undanförnum árum, m.a. í tengslum við fjölgun aðildarríkja Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Smærri ríkjum er nokkur vandi á höndum því áhrifin eru í jöfnu hlutfalli við skilvirkni samtakanna en jafnframt þurfa þau að standa vörð um jafnræðisregluna. Það er ljóst að mikill fjöldi jafnrétthárra aðildarríkja getur reynt á innviði samtaka og stofnana vegna hættunnar á þunglamalegri ákvarðanatöku, ekki síst þar sem krafist er samhljóða samþykkis. Á hinn bóginn er ljóst að farsælt samstarf fullvalda ríkja getur aldrei byggst á einhliða eða einangraðri stefnumótun leiðandi ríkja og ennþá síður á valdboði þeirra. Lögmæti ákvarðana og samtakamáttur byggjast á almennri sátt. Það þarf ekki að þýða að allir þátttakendur í alþjóðlegu eða fjölþjóðlegu samstarfi séu alltaf ánægðir með allar ákvarðanir heldur að þess sé gætt að samstaðan um hagsmuni og markmið rofni ekki.

Þetta virðist hafa tekist nokkuð vel innan Evrópusambandsin enda engin dæmi þess að smærri ríki hafi leitað þaðan út heldur eru þvert á móti mörg dæmi þess að þau sæki þangað inn. Það er athyglisvert að flest þeirra eru svokölluð nýfrjáls ríki og augljóslega sannfærð um að hagsmunum sínum verði best borgið með því að deila nýfengnu fullveldi innan Evrópusambandsins. Ef saga Evrópusambandsins er skoðuð kemur í ljós að í atkvæðagreiðslum í ráðherraráðinu eru það stærri aðildarríkin sem verða oftast undir og fremur fátítt að það hendi smærri ríkin. Ástæðan er sú að stærri aðildarríkin hafa víðtæka hagsmuni en þau smærri oftast sértæka og í síðarnefnda tilvikinu er yfirleitt um grundvallarhagsmuni að ræða. Stærri ríkin þurfa iðullega að leita stuðnings þeirra smærri sem aftur veitir þeim síðarnefndu áhrif. Ennfremur þótt stærri aðildarríki Evrópusambandsins hafi verið leiðandi í samrunaferlinu þá er ljóst að flest smærri ríkin hafa að jafnaði verið mjög hvetjandi og það er óhætt að fullyrða að þau eru mun áhugasamari um yfirþjóðlegt vald framkvæmdarstjórnarinnar heldur en flest þeirra stærri.

Svipað má segja um Atlantshafsbandalagið þar sem nýfrjáls ríki knýja ákaft dyra og vilja treysta á sameiginlegar varnarskuldbindingar aðildarríkjanna. Í Norður-Atlantshafshafsráðinu sitja öll aðildarríkin, smærri og stærri, hlið við hlið á jafnréttisgrundvelli og allar ákvarðanir eru teknar samhljóða. Þótt öllum sé ljóst að stærstu aðildarríkin leggi mest af mörkum þá hafa þau smærri óvéfengdan rétt til að hlutast til um allt það sem gert er í nafni samtakanna. Þess má geta að innan Atlantshafsbandalagsins hafa smærri aðildarríkin almennt verið á meðal þeirra sem hafa lagt mesta áherslu á sterk Atlantshafstengsl, þ.e.a.s. að hafa náið öryggis- og varnarmálasamstarf við stórveldið Bandaríkin.

Hnattræn umgjörð milliríkjasamskipta

Þótt það geti verið varasamt að alhæfa um alþjóðamál eða draga ríki í dálka þá hafa ríki heims óneitanlegt misjafnt bolmagn og það er margt sameiginlegt í aðstöðu þeirra smærri. Mat á stærðarhlutföllum getur aldrei samhengislaust orðið varanlegur samstöðugrundvöllur smærri ríkja enda eiga þau oft utanríkispólitíska hagsmuni sameiginlega með stærri ríkjum eða stórveldum. Á hinn bóginn geta smærri ríki haft svipaðar megináherslur hvað varðar hnattræna umgjörð milliríkjasamskipta, þ.e.a.s. að taka frumkvæðið að því að skapa alþjóðlegt umhverfi sem leyfir þeim að tryggja eigið öryggi og velferð á grundvelli lögbundinna og árangursríkra samskipta við önnur ríki.

Engin vanmáttarkennd

Það er engin vanmáttarkennd sem liggur að baki eigin skilgreiningu í hóp smærri ríkja. Staðreyndirnar eru umheiminum ljósar. Á hinn bóginn, eins og fyrr sagði, er stærð afstæð og mjög misjafnt hvers ríki eru megnug ekki síst þegar hinn mikilvægi efnahagsþáttur er veginn með. Það sem skiptir mestu er að smærri ríki sníði sér stakk eftir vexti með metnaðarfullum hætti og séu sjálfum sér samkvæm. Traust og virðing á alþjóðavettvangi er eftirsóknarvert álit því það auðveldar þá hagsmunagæslu sem er inntak utanríkisstefnunnar. Auðvitað vilja öll ríki njóta trausts og virðingar en það er ekki síst mikilvægt fyrir þau smærri sem vilja vera trúverðugir þátttakendur á alþjóðavettvangi.

Höfum ekki minna fram að færa en aðrir

Af því sem að framan greinir getum við spurt okkur hver sé staða ríkis á borð við Ísland við nýjar aðstæður í alþjóðamálum. Í svari má ganga út frá því að mikilvægustu úrlausnarefni verða ekki leyst með innlendum ráðstöfunum heldur með samstarfi ríkja. Grundvallarhagsmunir á borð við frið og öryggi og afleiðurnar sem eru traustur efnahagur, trygg atvinna, heilbrigt umhverfi og sjálfbær auðlindanýting verða ekki varðir nema í milliríkjasamstarfi.

Það dugir lítið að velta fyrir sér hvort menn eru með eða á móti ákveðnum alþjóðlegum eða fjölþjóðlegum samtökum og stofnunum því eftir stendur að þar eru teknar ákvarðanir sem varða okkar framtíð. Þar ber hæst Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaviðskiptastofnunina, Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Innan sumra þessara má búast við að meirihlutaákvarðanir og yfirþjóðlegar ákvarðanir fari vaxandi. Það hefur vissulega ókosti en um leið er dregið úr stórveldisáhrifum og rétti þess sterka. Svar Íslands og annarra smærri ríkja hlýtur því að vera virk og öflug þátttaka í þessum samtökum og stofnunum. Innan þeirra allra er einhver ágreiningur og flokkadrættir á grundvelli ólíkra hagsmuna eða hugmyndafræði en það breytir því ekki að stórir og smáir, hægri og vinstri, suður og norður, iðnríki og þróunarríki, kristnir- múslimar-hindúar og búddistar skiptast á skoðunum, takast á og leita að niðurstöðu. Við höfum ekki minna fram að færa en aðrir og getum haft áhrif en það getum við aðeins með öflugu starfi.

Knáir þótt við teljumst smáir

Ónefndur maður sagði eitt sinn: "Ég er fylgjandi framförum en mér er ekki gefið um breytingar". Þegar í upphafi 21. aldarinnar bendir allt til þess að næstu áratugir verði tímabil hraðra breytinga og Íslendingar eru svo lánsamir að sennilega munu fara saman breytingar og frekari framfarir hér á landi. Á slíku breytingaskeiði eigum við að vera knáir þótt við teljumst smáir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum