Hoppa yfir valmynd
14. maí 2002 Utanríkisráðuneytið

Fundur Norður-Atlantshafsráðsins í Reykjavík

Reykjavík, 14. maí 2002

Ávarp utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar,
við fundarsetningu Norður-Atlantshafsráðsins í Reykjavík

Word-skjal (36 Kb)

In English


Herra framkvæmdastjóri, utanríkisráðherrar og aðrir fundargestir.

Mér er það mikil ánægja að bjóða ykkur öll velkomin hingað á Reykjavíkurfund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins.

Ísland, sem liggur á mörkum norðurheimskautsins, kann að virðast einkennilegur vettvangur til þess að takast á við þau viðfangsefni sem bandalag okkar stendur frammi fyrir um þessar mundir. Vestur-íslenski landkönnuðurinn, Vilhjálmur Stefánsson, harmaði það eitt sinn að flestir virtust hafa þá mynd af norðurslóðum að þar væri líflaus auðn, þar sem ríkti endalaus þögn, þar sem stjörnur glitra með grimmdarlegum kulda og þrúgandi áhrif vetrarmyrkursins á mannsandann eru slík að orð fá ekki lýst. Slíkar ranghugmyndir voru að mati Vilhjálms Stefánssonar aðeins eitt dæmi um þá almennu reglu að auðveldara væri fyrir mannkyn að breyta ásýnd náttúrunnar en eigin hug.

Þau ykkar sem komu hingað í gærkvöld munu að minnsta kosti hafa fengið fullvissu um að Ísland hefur brotist út úr viðjum skammdegisins. Það er von mín að dagsbirtan, sem þið eigið eftir að njóta ómælt þessa viku, setji ykkur ekki út af laginu. Ég ætla að leyfa mér að lýsa þeirri von minni að Reykjavík í vorskrúða sínum geri ykkur léttara, ef ekki beinlínis að skipta um skoðun, þá að minnsta kosti að skoða málin á dagskrá okkar með mjög opnum hug.

Reyndar hefur Reykjavík þegar reynst Atlantshafsráðinu farsæll vettvangur einmitt til slíks. Árið 1968, sex mánuðum eftir útkomu Harmel-skýrslunnar um framtíðarverkefni bandalagsins, komu utanríkisráðherrar bandalagsins saman hér og sendu frá sér það sem kallað var "Reykjavíkurboðin" um að hefja viðræður um gagnkvæma fækkun í hefðbundnum herafla (Mutual and Balanced Force Reductions), en í kjölfar þeirra fylgdu samningaviðræður um niðurskurð hefðbundins herafla í Evrópu, CFE, næstum tuttugu árum síðar.

Um það bil á þessum sama árstíma árið 1987 komu ráðherrar saman hér í Reykjavík í annað sinn og ákváðu meðal annars að huga að frekari mörkun heildarstefnu um fækkun vopna og afvopnun. Það var til marks um framsýni manna þá, að ráðherrarnir lýstu þeirri sannfæringu sinni að náið alþjóðlegt samstarf væri óhjákvæmilegt ef uppræta ætti hryðjuverkastarfsemi.

Nú þegar við komum saman í Reykjavík í fyrsta sinn eftir lok kalda stríðsins, stendur bandalag okkar enn frammi fyrir mikilvægum viðfangsefnum. Ég leyfi mér að drepa aðeins á nokkur þeirra.

Á leiðtogafundinum í Prag eftir sex mánuði verður nýjum ríkjum boðin aðild að bandalaginu. Rétt sérhvers ríkis til sjálfsákvörðunar um fyrirkomulag varnar- og öryggismála sinna verður að virða. Ekki má líta á stækkun bandalagsins sem ógnun við nokkurt ríki. Stækkunin verður hins vegar mikilvægt skref í áttina að einu af langtímamarkmiðum bandalagsins: Að breiða út stöðugleika og frið í Evrópu. Einnig veitir stækkunin okkur aðildarríkjunum tækifæri til þess að endurnýja bandalagið með því að endurbæta starfsaðferðir okkar.

Samskiptin við samstarfsríki verða áfram lykilatriði í viðleitni okkar til þess að bæta öryggi og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu, jafnvel þótt til þess komi að aðildarríki bandalagsins verði fleiri en samstarfsríkin. Okkur ber skylda til þess að styðja við lýðræði og leitast við að stuðla að því að hin nýju lýðræðisríki eigi sem mesta samleið með okkur. Hvort sem samstarfsríki okkar sækja um aðild að framkvæmdaáætlun aðildar (MAP) að bandalaginu eða ekki, verðum við að halda uppi virkum samskiptum við samstarfsríkin í Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu (EAPC), einnig eftir Prag.

Með viðleitni okkar til þess að breyta samskiptum NATO og Rússlands erum við að stíga sögulegt skref. Allt frá því að stofnsáttmáli NATO og Rússlands var undirritaður árið 1997, höfum við verið að koma okkur upp starfsskrá sem er heilsteypt, þótt ekki sé hún enn mikil að vöxtum. Nú er kominn tími til þess að Rússland og NATO víki til hliðar þeim hindrunum sem hingað til hafa komið í veg fyrir að möguleikarnir sem felast í samstarfi þeirra verði nýttir til fulls. Rammasamningur um ný tengsl NATO og Rússlands, sem fyrirhugað er að samþykkja hér í Reykjavík og staðfesta í Róm eftir nokkra daga, er einstakt tækifæri til þess að taka þetta skref – tækifæri sem hvorugur aðili hefur efni á að láta sér úr greipum ganga. Sem nágrannaþjóð og samstarfsaðili um langt skeið á sviði fjölmargra verkefna á Norðurslóðum, fagna Íslendingar þessu tækifæri til þess að taka þátt í uppbyggilegu og vaxandi samstarfi við Rússa á nýjum vettvangi tuttugu aðildarríkja.

Á síðustu árum hefur stöðugleikinn á Evró-Atlantshafssvæðinu einnig notið góðs af hinu sérstaka sambandi sem við höfum komið á við Úkraínu. Jafnframt því sem við aðlögum og bætum samskipti okkar við samstarfsaðila okkar í því skyni að bregðast við breyttu öryggisumhverfi, verðum við einnig að uppfæra með viðeigandi hætti samvinnu okkar við þennan mikilvæga samstarfsaðila.

Hið mikla annríki sem verið hefur í bandalagi okkar á síðustu níu mánuðum gerir að verkum að auðvelt er að missa sjónar af því að þetta er aðeins annar fundur utanríkisráðherra bandalagsins frá hinum örlagaríku atburðum 11. september. Allt frá þeim degi hafa ríkin nítján staðið saman í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, ásamt samstarfsríkjunum. Þótt eitt sýnilegasta táknið um stuðning bandalagsins, þ.e. eftirlitsflug AWACS flugvéla í loftinu yfir Bandaríkjunum með þátttöku 13 aðildarríkja, taki enda á morgun, erum við áfram staðráðin að takast á við ógn hryðjuverkasamtaka.

Fyrir heilum þrjátíu og fjórum árum var það viðurkennt í Harmel skýrslunni að ekki væri hægt að skilja landssvæði aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins frá umheiminum. Á þeim tíma hafði bandalag okkar hins vegar ekki staðið frammi fyrir þörfinni á því að finna aðferðir til þess að takast á við ógnir af þessu tagi frá fjarlægum heimshlutum. Þegar við kortleggjum leið bandalagsins inn í framtíðina, verðum við að einsetja okkur að finna þau úrræði sem duga til að takast á við nýjar ógnir, þar með talið af völdum hryðjuverka.

Við vitum öll að baráttan við hryðjuverk verður aldrei eina viðfangsefni bandalagsins. Svo tekið sé aðeins eitt dæmi, fer NATO nú fyrir þremur árangursríkum friðargæsluverkefnum á Balkanskaga um þessar mundir, og heldur í raun um lykilinn að frið og stöðugleika í þeim heimshluta. Meðan við höldum áfram að vinna að því að auka bolmagn okkar til þess að takast á við frekari verkefni af þessu tagi, verðum við einnig að sýna í verki að NATO vinnur ekki aðeins náið með öðrum stofnunum, heldur bregst bandalagið líka við áhyggjum venjulegs fólks um öryggi sitt.

Jafnframt því sem við endurskipuleggjum bandalag okkar til þess að takast á við þessi verkefni og önnur verkefni í dögun nýrrar aldar, verðum við að gera ráðstafanir til þess að tryggja gagnkvæman stuðning og nauðsynlegt samræmi milli bandalagsins annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Nú þegar báðar þessar stofnanir standa frammi fyrir fjölmörgum nýjum viðfangsefnum á sviði varnar- og öryggismála, er þessi krafa brýnni en nokkru sinni fyrr.

Því er ekki að neita að við höfum sett okkur erfiða verkefnaskrá á þessum fundi, sem mun krefjast bæði hugmyndaflugs og viljastyrks. Það má vera að ekki sé gert ráð fyrir að við ljúkum öllum verkefnunum í dag í Reykjavík, en hálfnað er verk þá hafið er. Hvernig við utanríkisráðherrar setjum fram og rökstyðjum þau álitamál sem taka þarf afstöðu til á leiðtogafundinum í Prag mun ráða úrslitum um framtíðarstefnuna sem bandalagi okkar er mörkuð.

Mörg þessara álitamála munu augljóslega varða undirstöðu bandalagsins, þ.e. tengslin yfir Atlantshafið. Sem gestgjafi ykkar, er mér það sönn ánægja að geta við þessar aðstæður boðið upp á fundarstað í Norður-Atlantshafi þar sem á góðum sumardegi býðst besta útsýnið í átt til til bandamanna okkar bæði í Norður Ameríku og í Evrópu.

Nauðsynlegt er að við höldum samstöðu okkar og einingu. Þegar við horfum til framtíðar er mikilvægt að hafa hugfast að það er sameiginlegt gildismat og hugsjónir okkar sem frjálsar lýðræðisþjóðir sem gera okkur kleift að hafa áhrif. Að þessu leyti getur ekkert komið í staðinn fyrir Atlantshafsbandalagið.

Sýn okkar á framtíðarhlutverk bandalagsins, sem rædd verður á fundi okkar hér í dag, verður að setja fram með skýrum hætti svo enginn vafi leiki á að bandalagið verði áfram þau samtök sem sameini okkur í viðleitni okkar til að tryggja frið og stöðugleika.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum