Hoppa yfir valmynd
1. desember 2008 Utanríkisráðuneytið

Ráðstefna Útflutningsráðs um tækifæri framtíðarinnar


Ávarp utanríkisráðherra

Ráðstefna Útflutningsráðs um tækifæri framtíðarinnar

Hilton Nordica, mánudaginn 1. desember 2008

Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á því að þakka Útflutningsráði fyrir að skipuleggja þessa glæsilegu ráðstefnu um svo mikilvægt efni; framtíðartækifæri á Íslandi. Mig langar hins vegar að hefja mál mitt með því að líta til fortíðar og fara níutíu ár aftur í tímann til ársins 1918.  

Í frásögnum af þessu örlagaríka ári segir hvernig frosthörkur voru svo miklar í upphafi árs að gengt var úr Reykjavík út í Engey og Viðey, Faxaflóinn var ísilagður, og sjö ísbirnir gengu á land. Eldgos var í Kötlu, spænska veikin felldi um fimm hundruð manns, þar af rúmlega helminginn í Reykjavík, og tæplega tíu þúsund manns lögðust veikir um land allt. Í Evrópu lauk tilgangslitlu hörmungarstríði fyrri heimsstyrjaldarinnar, þar sem mannkynið kynntist áður óþekktu mannfalli, meðal annars af völdum efnavopna.

Í október þetta dimma ár gengu Íslendingar að kjörborðinu og ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að Ísland skyldi verða fullvalda ríki. Eftir aldalanga yfirstjórn erlends konungsvalds má segja að nútíma íslenskt lýðræðisríki hafi fæðst í þessari atkvæðagreiðslu þar sem yfir 90 prósent sögðu já. Lýðræðið var að vísu ennþá vanþróað, hvorki konur né eignalausir karlar höfðu ennþá kosningarétt, en grundvallarreglan um lýðræði var komin til að vera á Íslandi.

Þann 1. desember 1918 varð Ísland líka fullgildur aðili að samfélagi þjóðanna, fullgilt ríki til samstarfs og samninga á alþjóðavettvangi. Þennan dag blöktu fánar í hálfa stöng við mörg hús í Reykjavík og þó að skotið hafi verið 21 fallbyssuskoti við stjórnarráðið til heiðurs fullveldinu ríkti andrúmsloft stilltrar gleði og sérkennilegrar kyrrðar meðal fólksins sem komið hafði saman til hátíðahaldanna í Bakarabrekkunni eins og Bankastræti var þá nefnt.  Þau stóðu á tímamótum, framundan voru tækifærin til að nýta fullveldi Íslands í þágu þjóðarinnar. Tengjast öðrum þjóðum nánari böndum, opna viðskiptasambönd, efla velferðina og byggja upp nýtt samfélag. Á níutíu árum hafa orðið gríðarlegar framfarir á Íslandi sem við búum að og getum öll verið stolt af. 

Nú hefur áfall hins vegar dunið yfir í íslensku efnahagslífi sem ekkert okkar fer varhluta af. Án þess að mér detti í hug að bera saman aðstæður nú og fyrir níutíu árum - þar sem íslenskir íbúar danskrar nýlendu þoldu farsóttir og sultu heilu hungri í frosthörkum og fátækt - þá gæti engu að síður verið lærdómsríkt fyrir okkur að hafa í huga hvaða eðliseiginleikar það voru sem komu þjóðinni í gegnum hremmingar þess tíma.

Mannkostir á borð við þolgæði og yfirvegun, samheldni og sanngirni, dugnað og áræði, skiptu miklu máli. Örlagaárið 1918 er vissulega lærdómsríkt fyrir okkur í dag. 

* * *

Á síðustu vikum hefur kastljós heimspressunnar beinst að Íslandi. Fullyrt hefur verið að Ísland sé gjaldþrota eftir eyðslukapphlaup bankanna, og að Íslendingar hygðust ekki standa við skuldbindingar sínar, heldur sigla með sparifé annarra langt norður í höf.

Það hefur vissulega verið erfitt fyrir okkur öll að verða vitni af þeim álitshnekki sem Íslendingar hafa orðið fyrir í umheiminum vegna hruns bankanna. Sjálfsmynd okkar mótast að mörgu leyti í samskiptum við aðrar þjóðir, og þetta er sagan sem sögð er nú, hvort sem okkur líkur betur eða verr. 

Og þessi saga varð ekki til af sjálfu sér. Íslensku bankarnir höfðu vaxið sjálfum sér og okkur yfir höfuð, og fall þeirra varð að sama skapi hátt. Hrikalegar afleiðingar þess náðu langt út fyrir landsteinanna því hundruð þúsunda Breta, Hollendinga, Þjóðverja og Norðurlandabúa höfðu lagt sparifé sitt inn á reikninga í íslenskum bönkum, einkum vegna hárra vaxta.. Þetta fólk situr nú eftir með sárt ennið og tapað sparifé..

Inn í efnahagsáfallið blandaðist svo hin erfiða lögfræðideila um Icesave reikninganna og þær lágmarkstryggingar sem kemur í hlut íslenskra stjórnvalda að greiða. Ekkert ríki, ekki einu sinni vinaþjóðir okkar á Norðurlöndunum, féllst á að Ísland ætti rétt á því að losna undan lögbundnum lágmarksábyrgðum. Við bættist sú grundvallarafstaða samstarfsþjóða okkar að ekki kæmi til greina að vísa málinu til dómstóla við núverandi aðstæður, þar sem lagaóvissa um lágmarkstryggingar myndi stefna öllu bankakerfi Evrópu í uppnám, skapa hættu á áhlaupi.   

Hér á Íslandi var líka óvarlega talað strax í upphafi og dýr orð bárust á æðstu staði í öllum ríkjunum í kringum okkur og vöktu furðu, því grannþjóðum kom það svo fyrir sjónir að Íslendingar teldu sig ekki þurfa að lúta leikreglum.

Og er ekki einmitt hugsanlegt að það hafi sést utanfrá á versta tíma viðhorf sem ráðið hefur of miklu í stjórnmálum og alþjóðasamskiptum Íslands á síðustu árum, en var sannarlega ekki hugmynd þeirra sem kusu fullveldið 1918: Nefnilega það viðhorf   við eigum rétt á því að fara ekki alveg að settum reglum, að við eigum rétt á einhvers konar sérmeðferð, styttri leið og hagstæðari samningum en aðrir. Að við eigum að fá allt fyrir ekkert, og að almennar leikreglur séu aðallega til viðmiðunar - fyrir aðra.

Kannski er þetta - að víkja megi settum reglum til hliðar til þægindarauka - í hnotskurn einn helsti viðhorfsvandi íslensks samfélags og á sinn þátt í kreppunni?

Það varð að höggva á hnútinn í deilunni við umheiminn m.a. til að vernda þær eignir bankanna sem ganga munu upp í þessar ábyrgðir, og til standa vörð um orðspor okkar sem ábyrgs samstarfsríkis og íslensks atvinnulífs sem ábyrgs samningsaðila í hvers konar viðskiptum. Við sömdum um að leita pólitískra lausna með liðsinni Frakka sem fara nú með formennsku í ESB. Alþingi mun greiða atkvæði um niðurstöðuna, það er skilningur á einstæðum aðstæðum á Íslandi, harkan er ekki söm og áður því aðilar efast ekki lengur um góðan samningsvilja. Það vinnur gríðarlega þéttur hópur öflugs og hæfs fólks að því að ná fram málstað Íslands, verðmætum úr bönkunum og eins hagstæðum samningum og nokkur kostur er. Þau skynja ábyrgð sína og vilja vinna landi sínu allt sem þau best geta gert.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að segja opinberlega að það er mat mitt að umrædd tilskipun um innstæðutryggingar hafi reynst of veikburða og að Ísland muni slást í hóp þeirra Evrópuríkja sem nú beita sér fyrir því að henni verði breytt. Eins fagna ég fyrirhuguðum neyðarsjóði evrópskra innistæðueigenda sem Ísland mun greiða í, líkt og önnur ríki. Í fyllingu tímans kann sá sjóður að nýtast til að mæta þeim ábyrgðum sem Ísland mun nú undirgangast. 

* * *

Góðir fundarmenn,

Eitt helsta verkefni stjórnvalda á næstu misserum er að endurreisa orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Í ávarpi mínu á ársfundi Útflutningsráðs í apríl sl. hvatti ég til þess að aukið fé yrði lagt í ímyndar- og landkynningarmál hvort sem er á sviði markaðsstarfs, ferðaþjónustu eða menningarmála, og að stjórnskipulag yrði einfaldað og samræmt. Hafi þá verið þörf á því að stilla betur saman strengi, er í dag á því alger nauðsyn.

Það ber flestum saman um að flýta þurfi stofnun Kynningarstofu/miðstöðvar Íslands - eða Promote Iceland eins og hún hefur verið kölluð á ensku – og ég mun leggja til við forsætisráðherra að mér verði falið að gera tillögu um nýtt lagafrumvarp sem felur í sér stofnun hennar.

Það er mikilvægt að stilla saman strengi þeirra sem fást við markaðs- og ímyndarmál erlendis og í því samhengi þurfa allir aðilar að vera reiðubúnir til þess að endurhugsa hlutverk sitt og ábyrgð. Þar hefur Útflutningsráð mikilvægu hlutverki að gegna líkt og aðrir. Markaðsstarf undanfarinna ára ef ekki áratuga þarf nú að endurhugsa með tilliti til þeirra aðstæðna sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég er þess fullviss að með því að koma á fót miðlægum samræmingaraðila af þessu tagi, getum við náð meiri árangri í þessu brýna starfi.

Í þessu samhengi vil ég taka undir með þeim sem sagt hafa að gott orðspor verði aðeins byggt upp með verkum okkar, gildum og viðmiðum. Ímynd ein og sér er einskis nýt ef hún á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þetta segi ég því þessi virðist hafa orðið raunin á síðustu árum. Á þeim uppgangstímum var Ísland víða álitið vera fyrst og fremst einhvers konar viðskiptaundur, heimili djarfra útrásarvíkinga sem taldir voru öðrum mönnum fremri í alþjóðlegum viðskiptum.

Þessi tiltekna ímynd var altumlykjandi og í henni var raunar lítið pláss fyrir venjulega Íslendinga.

Fyrsta skrefið í endurreisn orðspors Íslands í útlöndum hlýtur að því felast í gagnrýnni sjálfskoðun og endurskilgreiningu þeirra styrkleika sem við raunverulega búum yfir. Þar þarf samfélagið allt að koma að borðinu, og ég hlakka til uppbyggilegrar umræðu þar að lútandi.

Okkar styrkur nú liggur fyrst og fremst í greinum þar sem við höfum safnað okkur reynslu og þekkingar í áratugi s.s. á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, sjávarútvegs og jafnréttismála. Þarna höfum við mörgu að miðla og á þessum sviðum stendur orðspor okkar óhaggað. 

Og ekki má gleyma styrkleikum okkar í mennta- og menningarstarfi. Við eigum framúrskarandi vísindafólk sem mun leggja til framfara og nýsköpunar á Íslandi. Íslenskt menningarlíf mun halda áfram að blása þrótti inn í samfélagið; gagnrýni og sköpunarkrafti. Ég tel til dæmis að bókamessan í Frankfurt árið 2011 þar sem Ísland verður í öndvegi eigi eftir að verða mikilvæg fyrir stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, en hún er líklega stærsta árvissa markaðstorg menningar í heiminum.

* * *

Góðir fundarmenn,

Ég veit að mörg ykkar bera ugg í brjósti vegna nýju reglanna um gjaldeyrisviðskipti sem Alþingi samþykkti aðfararnótt föstudags. Ég minni á að með reglunum eru höftum sem ríkt hafa á viðskiptum með vörur og þjónustu undanfarnar vikur aflétt, en eftir standa hins vegar hindranir í flutningi fjárfestingatekna. Þetta eru ekki létt spor að stíga, en þau eru nauðsynleg og þau munu ekki vara  til langframa. Raunar eru reglurnar aðeins til þriggja mánaða og verða þá endurskoðaðar. Við búum að þessu leyti við aðhald að utan því Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn mun ekki veita okkur lánafyrirgreiðslu nema þessum takmörkunum verði létt svo fljótt sem verða má, það er þegar gengi hefur náð jafnvægi á ný.

Það hefur lengi verið skoðun mín að við Íslendingar eigum að taka stefnuna á Evrópu og að þar sé framtíðarhagsmunum Íslands best borgið.

Það á ekki síst við núna þegar Ísland hefur þurft að grípa til erfiðra efnahagsaðgerða í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ljóst er að þær aðgerðir eru mun líklegri til að heppnast ef við setjum fram skýrt það stefnumið að sækja um aðild að Evrópusambandinu - það myndi styrkja orðspor okkar á augabragði og gefa krónunni þann tímabundna trúverðugleika sem hún þarf til að styrkjast. Það gæfi einnig íslenskum heimilum og fyrirtækjum trú á að þau kæmust inn í eðlilegt efnahagsumhverfi en væru ekki ofurseld gengissveiflum, verðbólgu og verðtryggingu um ókomin ár.

Um leið er rétt að hafa hugfast að Evrópusambandsaðild er auðvitað engin töfralausn við öllum okkar vandamálum. Evrópusambandið er ekki gallalaust fyrirbæri, ekki frekar en íslenskt samfélag. Verkefni okkar er að bera saman - fordómalaust - kosti og galla aðildar, alveg eins og við gerum í öllum okkar ákvörðunum. Þar sýnast mér kostirnir mun fleiri en gallarnir.

Sem dæmi má nefna að um það er varla lengur deilt að aðild að ESB myndi færa þjóðinni stöðugan gjaldmiðil..

Evrópusambandsaðild myndi jafnframt tryggja okkur Íslendingum áframhaldandi þátttöku í margvíslegu mennta-, menningar- og rannsóknarsamstarfi sem skipta mun sköpum um samkeppnishæfni Íslands og framtíðarlífskjör komandi kynslóða.

Í þessu samhengi vil ég fagna þeim fjölmörgu verkefnum sem hrundið hefur verið af stað síðustu vikur til að styrkja nýsköpun og sprotafyrirtæki, eins og nýlegt og spennandi samstarf hæfileikafólksins í Listaháskólanum og Háskólanum í Reykjavík er gott dæmi um. Aukin Evrópusamvinna myndi ótvírætt stórefla allt slíkt nýsköpunarstarf.

En Evrópusambandsaðild myndi ekki einungis færa okkur réttindi, heldur sömuleiðis gera til okkar auknar kröfur; kröfur um bætta stjórnsýslu, aukin aga og betra regluverk til dæmis í bankakerfinu. Kröfur um raunverulega verðmætasköpun í stað þess að færa peninga úr einum vasa í annan. Þeim kröfum eigum við að taka fagnandi.

Síðast en ekki síst myndi aðild að Evrópusambandinu og upptaka evrunnar tryggja okkur samkeppnishæft viðskiptaumhverfi og nauðsynlegt skjól í hnattvæddum heimi. Við höfum þegar keypt dýru verði reynsluna af þeirri ákvörðun að standa ein, utan bandalaga. Það er tæpast valkostur. Við þurfum á stuðningi annarra þjóða að halda, rétt eins og þær reiða sig hver á aðra.

Komi til aðildarviðræðna, þyrftu íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu að tryggja hagsmuni mikilvægra grunngreina efnahagslífsins, eins og sjávarútvegs og landbúnaðar. Ég ber fulla virðingu fyrir áhyggjum allra þeirra sem óttast að ESB-aðild muni á einhvern hátt hafa neikvæð áhrif á þeirra stöðu. Þess vegna tel ég  mikilvægt að stjórnvöld, útvegsmenn og sjómenn nái samstöðu um hvernig tryggja megi nýtingu auðlindarinnar. Einnig þyrfti að ræða áhrif þess að opna fyrir erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi komi til Evrópusambandsaðildar.

En um leið og samráð við einstakar atvinnugreinar og hagsmunahópa er mikilvægt, verðum við einnig að hafa hugfast að það er frumskylda stjórnvalda, og í raun okkar allra, að búa þannig um hnúta að heildarhagsmunum þjóðarinnar sé best borgið.

Eina færa leiðin til að geta sinnt þeirri frumskyldu er að fara í viðræður og semja um aðild. Aðeins þannig er hægt að leggja mat á kosti og galla aðildar, og taka svo upplýsta ákvörðun í þjóðarþágu. Að sjálfsögðu myndi þjóðin svo hafa síðasta orðið um aðildarsamning í lýðræðislegum kosningum.

Við skulum líka ekki gleyma að Evrópa er ekki bara krónur og aurar. Við Íslendingar tilheyrum hinum evrópska menningarheimi, þaðan kemur okkar löggjöf og þangað sækjum við hugmyndir. Evrópa er okkar mikilvægasta samstarfs- og viðskiptasvæði þar sem unga fólkið okkar menntar sig og sækir atvinnu. Þannig viljum við hafa það áfram – þeim dyrum viljum við ekki loka.

Nú stöndum við frammi fyrir þeirri ákvörðun að taka skrefið til fulls. Ég spyr: Af hverju í ósköpunum ættum við stöðugt að híma í anddyrinu, veifandi fólkinu í stofunni til að minna það á að við séum til, þegar okkur stendur til boða að ganga í bæinn?

* * *

Góðir fundarmenn,

Það eru straumhvörf á Íslandi og þau eigum við að nýta okkur til að gera hreinskilningslega upp við fortíðina, læra af reynslunni, og takast saman á við viðfangsefni framtíðarinnar.

Án skýrrar framtíðarstefnu köstumst við einfaldlega til og frá í öldum úthafsins, sama hversu mikið við róum. Þetta vissi aldamótakynslóðin nýtti tækifæri fullveldis landsins til að samskipta út í heim og uppbyggingar sterkara íslensks samfélags.

Nú er aftur komin ögurstund. Við getum ekki búið fólkinu okkar þá framtíð hér úti í ballarhafi að hrekjast undan veðri og vindum, án þess að hafa viðunandi björgunarbúnað. Að mínu mati er framtíðarhagsmunir Íslands best tryggðir með því að taka fullan þátt í samstarfi sjálfstæðra ríkja á vettvangi Evrópusambandsins, ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna.

Núverandi aðstæður krefjast ákvörðunar - seinagangur stjórnmálanna er þegar orðinn íslenskum almenningi ansi dýrkeyptur.

Minnumst þess að hafísinn við Reykjavík árið 1918 var líka brú yfir í nærliggjandi eyjar, frosthörkurnar stæltu þorið og fullveldið gaf fyrirheit við erfiðar aðstæður.

Ég óska ykkur gagnlegrar umræðu í dag um tækifæri framtíðarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum