Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2007 Utanríkisráðuneytið

Hólahátíð 2007

Heiðraða samkoma, ágætu hátíðargestir.

I

Annað árið í röð sækjum við Hjörleifur hina árlegu hátíð að Hólum og skynjum helgi staðarins. Pílagrímagangan um Heljardalsheiði í fyrra var ógleymanleg og ekki síður helgistundin sem göngufólkið átti saman í kirkjunni að göngu lokinni. Ég varð þess mjög sterkt áskynja að bæði á heiðinni og í kirkjunni fetuðum við í fótspor fjölda genginna kynslóða, bæði kvenna og karla, sem höfðu farið þessa sömu leið í öllum veðrum og ýmsum erindagjörðum og eflaust oft átt griðastund í kirkjunni að ferð lokinni. Hvergi á Íslandi skynja ég jafn sterkt sögu og örlög þessarar þjóðar og hér að Hólum. Hvergi finnst mér andi hins liðna sækja eins að mér og hér á þessum stað. Mér finnst næstum eins og ég geti teygt út hendina og lífið á staðnum til forna verði áþreifanlegt.

Ég sé fyrir mér glæstan Hólastað á miðöldum. Það er ys og þys á hlaðinu enda staðurinn miðstöð menningar, menntunar og viðskipta af ýmsu tagi og samgöngur greiðar við aðra landshluta sem og önnur lönd. Frá Hólum er stutt að hafskipahöfninni við Kolkuós, þaðan sem Hólastóll hafði skip í förum, og þar eru vörugeymslur sem geyma þann varning sem bíður útskipunar. Þar er aðallega um að ræða íslenskt sjávarfang, nautshúðir og vaðmál sem selt er í skiptum fyrir margvíslegan nauðsynjavarning svo sem mjöl, timbur og veiðarfæri og svo auðvitað klæði, skart, vín og aðra munaðarvöru fyrir þá sem geta leyft sér það. Hitt skiptir ekki síður máli að hafskipahöfnin er lífæð mennta- og menningarsetursins við útlönd. Í gegnum hana berast nýjir straumar og stefnur í menningarmálum sem klerkar og kennimenn að Hólum eru fljótir að tileinka sér og beita á þann efnivið sem þeir finna í túninu heima.

II

Þegar við göngum á vit sögunnar verðum við þess fljótt áskynja að jafnvel þótt allt sé breytingum undirorpið þá eru líka ákveðin grundvallaratriði sem aldrei breytast og eiga við alls staðar á öllum tímum. Þannig geta staðir og byggðalög vaxið og dafnað til þess eins að verða síðar jaðarbyggðir sem virðast ekki eiga sér viðreisnar von. Þegar ástæður þessa eru skoðaðar rekumst við alltaf á að sama lögmál er að verki þ.e. staðirnir eða byggðalögin duttu úr alfaraleið, misstu mikilvægustu lífæðarnar við aðra landshluta eða útlönd, og tókst ekki að halda í við önnur svæði hvað menntun og menningu varðar.

 

Þannig var það á Íslandi á miðöldum og þannig er það á Íslandi enn þann dag í dag. Landssvæði sem hvorki bjóða upp á sæmilega greiðfærar samgöngur á landi, lofti eða legi né heldur greiðan aðgang að upplýsingahraðbrautinni verða jaðarsvæði. Ef þau geta heldur ekki boðið upp á skapandi mennta- eða menningarsetur þá tapa þau frá sér bæði fólki og fyrirtækjum. Þess vegna á byggðastefna á Íslandi í grundvallaratriðum bara að snúast um tvennt þ.e. samgöngur og menntun. Komum samgöngumálum í lag í öllum landshlutum – þ.á.m. háhraðanettengingum - byggjum upp kraftmikil háskólasetur og þá mun önnur atvinnustarfsemi, verslun og viðskipti fylgja í kjölfarið. Fólkið á stöðunum mun sjá til þess. Um þetta ber háskólinn á Hólum órækt vitni.

III

Ég sagði að lögmálið um vöxt og hnignun byggðalaga ætti við alls staðar á öllum tímum. Ég er nýkomin úr ferðalagi á framandi slóðir þar sem ég gekk á vit sögunnar rétt eins og hér að Hólum. Ég heimsótti löndin fyrir botni Miðjarðarhafs, Ísrael, Palestínu og Jórdaníu þar sem mörg þúsund ára saga mannkyns vitjar ferðalanga við hvert fótmál. Það er, rétt eins og saga Hólastaðar, saga svæðis sem hefur bæði gengið í gegnum blómaskeið og hningnunartímabil og sú saga, þó átakameiri sé, tengist líka samgöngum, menningu og menntun.

Öflug menning þessa svæðis byggðist á því að það voru miklar og greiðar samgöngur á milli helstu höfuðborga svæðisins og menntun var þar alls staðar í hávegum höfð. Til marks um samganginn má nefna að ég hitti konu sem átti Sýrlenska móður, Palestínskan föður, var fædd í Damaskus í Sýrlandi, ólst upp í Amman í Jórdaníu, menntaði sig í Beirút og bjó í Ramallah. Palestínumenn eru þekktir fyrir að leggja mikla áherslu á menntun og að öllu jöfnu ætti það að vera eðlilegt og vandræðalaust að fara á milli þessara borga í leit að tækifærum en raunveruleikinn er allur annar – ekki síst fyrir Palestínumenn.

Palestínumenn sem búa á Vesturbakkanum eða Gazasvæðinu eru fangar í eigin landi og búa innan rammgerðrar girðingar og veggja. Þeir geta ekkert farið án samþykkis ísraelsku herstjórnarinnar og það getur kostað mikla fyrirhöfn að fara út fyrir svæðið og enn meiri vandræði að komast heim aftur. Palestínumenn sem eru flóttamenn og hafa verið það mann fram að manni frá árinu 1948 lifa í einhvers konar staðleysu. Þeir eiga sér hvergi heimahöfn, þeir hafa ekkert ríkisfang og í vegabréfinu þeirra, sem gefið er út af Sameinuðu þjóðunum, stendur að þjóðerni sé óskilgreint og heimkynni óskilgreind. Fari þeir út úr því landi þar sem þeir eru skráðir flóttamenn eiga þeir á hættu að lenda á vergangi. Þannig hímir fljöldi Palestínskra flóttamanna, sem nú flýja átökin í Írak, í búðum á landamærum Jórdaníu og Íraks og geta hvorki verið né farið.

 

Þrjár milljónir Palestínumanna teljast vera flóttamenn og hafa verið það í fjórða og jafnvel fimmta ættlið. Hugtakið ,,flóttamaður” samkvæmt alþjóðalögum varð til eftir átökin sem fylgdu stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Fjöldinn allur býr í flóttamannabúðum þar sem tjaldað hefur verið til einnar nætur í áratugi. Í búðunum er allt til skamms tíma, ekkert á sér varanlegan tilverurrétt, ekkert er hugsað til framtíðar. Mæður tala ekki um framtíðina við börnin sín, spyrja þau ekki hvað þau ætli að verða þegar þau verði stór. Slík umræða er algerlega merkingarlaus vegna þess að hún hefur enga skírskotun til þess staðar sem hægt er að gera út frá eða hverfa til. Til þess staðar sem er þinn; þín heimabyggð; þitt land; þín viðmiðun.

IV

Ég er að koma úr ferðalagi um heimaslóðir Stefáns frá Möðrudal á norðausturlandi. Stefán bjó meiri hluta æfi sinnar í Reykjavík en fyrirmyndir hans voru flestar tengdar hans heimahögum og enginn hefur málað Herðubreið í jafn mörgum útgáfum og hann. Á góðum degi gat hann málað 30 tilbrigði af þessari fjalladrottningu. Hún var hans mark og mið í tilverunni, hann átti mynd af henni í huga sér og hún átti sérstakan sess í hjarta hans hvert sem hann fór. Þó að erfitt sé að fara í samjöfnuð við Stefán þá er það engu að síður svo að allir þurfa að eiga sér sína Herðubreið.

Hannes Pétursson skáld yrkir um sína heimahaga hér í Skagafirði með þessum hætti í ljóðinu Innsveit:

 

Áin af heiðum, bakkagræn og í bugðum.

Bæirnir þétt, í hyggindalegum röðum

um tungur og höll og grasivafðar grundir.

Í gróandi túnum unir lambféð á beit.

Hlývindar komnir fjöll, eins og ferðalangar.

 

Héðan er ættuð þrá mín til þagnarstunda

- úr þessum lygnu djúpum moldar og sögu.

Og hér finn ég löngum, líkt og á bernskutíð

lifandi návist móðurlegrar jarðar.

 

Þegar fólk á sér ekki heimaland verður heimalandið að ástríðu. Rithöfundurinn og stjórnmálamaðurinn Mourid Barghouti, sem nú situr í fangelsi í Ísrael, segir í bókinni ,,Ég sá Ramallah” að hið langvarandi hernám Ísraelshers hafi skapað kynslóðir Ísraelsmanna sem fæddar séu í Ísrael og þekki ekki né eigi annað heimaland. Á sama tíma hafi hernámið skapað kynslóðir Palestínumanna sem séu framandi í Palestínu. Hann segir: ,,Þetta hefur breytt okkur úr arftökum Palestínuríkis í arftaka hugmyndarinnar um Palestínuríki.” Hið nöturlega er að þarna hafa þjóðirnar haft hlutverkaskipti. Hugmyndin um ríki Gyðinga er orðin að veruleika en ríki Palestínumanna er aftur á móti orðið að hugmynd.

Einmitt þetta gerir aðstæður á svæðinu svo flóknar. Ofsóttir gyðingar áttu sér draum um heimaland, öruggt skjól og nú hafa fjölskyldur þeirra eignast sína heimahaga þar sem Palestínumenn bjuggu áður, fundið sína Herðubreið og hún hefur sest að í huga þeirra og hjarta. Þess vegna geta ísraelsk stjórnvöld útskýrt aðgerðir sínar og það er jafnvel hægt að skilja hvers vegna þau reisa girðingar og múra milli sinna þegna og hinna sem sækja að þeim. En það er ekki hægt að samþykkja þessar aðgerðir vegna þess að þær eru í grundvallaratriðum óréttlátar. Þær breyta heimahögum Palestínumanna í fangelsi undir berum himni og öflugu, stoltu menningarsamfélagi í hersetið samfélag reiði, uppgjafar og örvæntingar.

Þegar  mæðurnar í Aida-flóttamannabúðunum í Betlehem sögðu mér frá unglingssonum sínum þá brustu þær í grát. Þær sögðu: ,,Unga menn dreymir um að liggja undir tré í grænu grasi og hugsa um framtíðina. Hér er ekkert grænt gras og engin framtíð. Það er eðlilegt að mæður hlakki til að sjá strákana sína vaxa úr grasi og verða að ungum mönnum. En ekki okkur. Við viljum ekki að þeir stækki því þá vitum ekkert hvað verður um þá. Sýna þeir andspyrnu, verða þeir handteknir, verða þeir fluttir á brott?” Og ég hugsaði til minna sona og grét líka. Þeim svipar nefnilega saman hjörtunum í súdan og Grímsnesinu.

V

Mæðurnar í Aida-flóttamannabúðunum töluðu um að ligga undir tré í grænu grasi sem var þeim táknmynd alls þess sem gefur lífinu gildi. Þær voru að tala um hina einföldu gleði lífsins sem er í senn svo alltumvefjandi og leikandi létt. Þessi gleði byggist á að  vera á heimasvæði laus undan harðstjórn tíma og rúms. Þessi gleði er flatkaka með hangikjöti sem notið er í grænni lautu í góðu veðri með því fólki sem stendur þér næst. Og því fleiri sem slíkar gleðistundir eru, þeim mun hamingjusamari verður maður.

Við Íslendingar eigum svo mörg tækifæri til að njóta þessara lystisemda lífsins. Það eru mikil forréttindi að fæðast í þessu landi. Við erum auðug þjóð á alla þá mælikvarða sem á slíkt verða lagðir og ,,hver sem er mikið gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.” Við Íslendingar höfum margt að bjóða og getum víða lagt góðum málum lið. Við getum verið friðflytjendur og milligöngumenn friðar minnug þess að síðustu menn undir vopnum á Íslandi voru hér á Hólum en þeir voru afvopnaðir um miðbik 16. aldar. Við getum lagt fyrrum nýlendum í Afríku lið minnug þess að við vorum sjálf nýlenda og þróunarland fram undir miðja síðustu öld. Við getum staðið vörð um alþjóðalög í samskiptum þjóða minnug þess að við erum smáþjóð sem á allt sitt undir því að valdi séu takmörk sett. Og við getum gerst málsvarar þess að mannréttindi, mannhelgi og  mannöryggi njóti viðurkenningar ekki síður en réttindi og öryggi þjóða.

Við Íslendingar eigum að leggja metnað okkar í að láta mál alþjóðasamfélagsins til okkar taka hvort sem er fyrir botni Miðjarðarhafs, í Afríku eða í Evrópu og við eigum ekki að telja það eftir okkur að bjóða fram krafta okkar í stofnunum eins og Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Við eigum að axla okkar ábyrgð sem fullvalda, menntuð og auðug þjóð sem veit að henni var mikið gefið og hún verður mikils krafin. Segja má að framboð til stofnana á borð við Öryggisráðið sé lokahnykkurinn á okkar sjálfstæðisbaráttu og sönnun þess að við séum þjóð meðal þjóða. Þegar haft er í huga að 40 af ríflega 50 bláfátækum Afríkuríkjum hafa axlað sína ábyrgð með setu í Öryggisráðinu, hvernig getur þá Ísland skorast undan? Ísland, sem er fulltrúi allra Norðurlandanna og með norræna lýðræðishefð í farangrinum.

Ágætu gestir.

Það á að vera samgróið vitund þeirra ungu Íslendinga sem nú vaxa úr grasi að hinum íslenska þegnrétti þeirra fylgi ljúfar skyldur bæði heima og heiman. Þau eiga að standa föstum fótum í sínu íslenska heimalandi, þangað eiga þau að sækja mark sitt og mið og með sína Herðubreið í farteskinu eiga þau að fara út í heiminn og á vit framtíðarinnar full sjálfstrausts og láta gott af sér leiða, gera skyldu sína.

Ég gef Hannesi Péturssyni síðasta orðið í ljóðinu Framtíðin.

 

Ferð þín er hafin.

Fjarlægjast heimatún.

Nú fygir þú vötnum

sem falla til nýrra staða

og sjónhringar nýir

sindra þér fyrir augum.

 

En alnýjum degi

fær þú aldrei kynnzt.

Í lind reynslunnar

fellur ljós hverrar stundar

og birtist þar

slungið blikandi speglun

alls þess sem áður var.

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum