Hoppa yfir valmynd
12. maí 2004 Utanríkisráðuneytið

Ársfundur Útflutningsráðs

Góðir gestir

Mér er það sérstök ánægja að ávarpa þennan ársfund Útflutningsráðs. Á þeim níu árum sem ég hef gegnt störfum utanríkisráðherra hef ég reynt að leggja meiri áherslu á þjónustu við atvinnulífið. Auðvelt er að misskilja fullyrðingu sem þessa, utanríkisþjónustan hefur alltaf haft þá stefnu að aðstoða atvinnulífið. Mitt hlutverk hefur meira verið í því fólgið að aðlaga utanríkisþjónustuna að breyttum aðstæðum í heiminum og breyttum kröfum þjóðlífsins. Alþjóðavæðingin hefur haft mikil áhrif í þeim efnum og gjörbreytt öllu vinnuumhverfi utanríkisþjónustunnar.

Það er af sem áður var að við Íslendingar reyndum, eins og almennt var á árum áður, að vera sjálfum okkur nógir. Háir innflutningstollar, gjaldeyrishöft, skömmtun og önnur svipuð höft höfðu það að markmiði að vernda innlenda framleiðslu fyrir innflutningi. Óneitanlega var staða innlendra og erlendra framleiðanda mjög ójöfn. Smæð markaðarins gat eðlilega ekki skilað sambærilegri hagkvæmni og stærri markaðir.

Vart efast nokkur um ávinning okkar af þátttöku í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi. Samt gengum við Íslendingar hægt um dyr alþjóðavæðingar viðskiptalífsins. Stærsta skrefið í þá áttina var aðild okkar að EFTA sem gjörbreytti íslenskum iðnaði og um skeið áttu margir um sárt að binda í þeirri atvinnugrein. Þó er víst þegar litið er tilbaka að aðild okkar að EFTA var afar farsælt skref fyrir þjóðina og lagði grunninn að aðild okkar að EES samningnum. Sá samningur gjörbreytti viðskiptaumhverfi landsins og gætir áhrifa hans á flestum sviðum viðskiptalífsins. Nú líta Íslendingar í vaxandi mæli á Evrópu sem sinn heimamarkað og reyndar hafa opnast tækifæri um heim allan fyrir íslenska athafnamenn.

Gífurleg breyting hefur orðið frá því að Jón Sigurðsson setti fram hugmyndir um mikilvægi frelsis  í viðskiptum fyrir sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Við mættum taka okkur þessa framsýni til fyrirmyndar þegar við hugum að tækifærum framtíðarinnar. Viðskiptafjötrar þurfa ekki alltaf að stafa frá stjórnvöldum. Fjötrar hugans eða vanans eru oftast verri.

Við höfum opnað sendiráð bæði í Kína og í Japan, en 55 af hundraði mannkyns býr í austanverðri og sunnanverðri Asíu. Velmegun í Kína hefur vaxið með undraverðum hraða og gífurlegur hagvöxtur þar í landi vakið athygli.  Nýlegt samkomulag við Kína um ferðamál opnar möguleika Kínverja til að ferðast til Íslands. Um þessar mundir ferðast fleiri Kínverjar til útlanda en Japanir og þeir virðast eyða meiru í heimsóknum sínum en aðrir ferðamenn. Mikilvægt er að Ísland verði meðal áfangastaða þessara ferðamanna.

Útflutningur til Kína hefur margfaldast á nokkrum árum. Í vaxandi mæli er frystur fiskur sendur til Kína, og verkaður þar til útflutnings til Japans, Evrópu og Bandaríkjanna. Þessi þróun er óneitanlega áhyggjuefni, erfitt er að keppa við ódýrt kínverskt vinnuafl,  og nýting aflans er góð. Spurningin er hvort að það sé ekki krafa nútímans að kanna hvort þarna liggi sóknarfæri þótt á móti blási.  Við höfum t.d.  unnið verðminni fisk og gert hann mun verðmeiri eins og t.d. kolmunna, sem hefur verið flakaður í Kína. Auk þess þurfum við að huga að því sem við getum betur gert heima fyrir t.d. í vöruþróun, tæknivæðingu og markaðssetningu. Loks hljótum við að horfa meira til útflutnings á ferskum fiski í framtíðinni.

Ég vék áðan að fjötrum hugans. Mikilvægi innflutnings vill oft gleymast í áherslum okkar á útflutning. Hagkvæm innkaup eru þjóðinni ekki síður mikilvæg en ábótasamur útflutningur. Innkaup okkar frá Kína hafa farið hraðvaxandi á undanförnum árum og er það vel, enda er óumdeilt að innkaup séu að jafnaði hvergi betri en þaðan. Viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, leiddi nýlega sendinefnd á svokallaða Kanton kaupstefnu í Kína, sem haldin er tvisvar á ári. Ferðin var skipulögð af kínversk-íslenska verslunarráðinu og í fylgdarliðinu voru 30 fulltrúar 15 fyrirtækja. Á Kanton ráðstefnunni er lagður grunnur af um fjórðungi af útflutningi Kína og eru ráðstefnur þessar því afar mikilvægar. Miklar framfarir hafa orðið í vöruþróun í Kína, magninnkaup og tungumálaerfiðleikar eru ekki lengur vandamál og afgreiðsluhraði er orðinn svipaður og á Vesturlöndum. Þá er kostnaður vegna farmflutninga ekki meiri en til ýmissa áfangastaða í Evrópu. Ég hlýt því að hvetja alla þá sem stunda innflutning að skoða gaumgæfilega þá valkosti sem er að finna í Kína.

Í þessu ljósi eru innflutningstölur til Íslands frá ríkjum í Norður-Evrópu sláandi. Þrátt fyrir að búast megi við og eðlilegt sé að innflutningur frá þessum löndum sé mikill, mætti spyrja hvernig á því standi að að innflutningur frá Norðurlöndunum og Hollandi sé 10 sinnum meiri en frá Kína. Áfram má rýna í tölur og velta fyrir sér hvers vegna við flytjum inn meira  frá Danmörku en Bretlandi? Þessar vangaveltur ber ekki að misskilja. Ég er eindregið fylgjandi viðskiptum við frændþjóðir okkar, en viðskipti eiga ekki að hafa að leiðarljósi hvað sé hentugt eða þægilegt, heldur á hagur neytenda að vera í fyrirrúmi.  Er mögulegt að við séum að kaupa vörur frá Kína eða Indlandi í gegnum milliliði sem við gætum jafnvel keypt milliliðalaust á lægra verði? Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að með nútímatækni í samskiptum, að ekki er lengra til Kína en var til Norðurlandanna voru fyrir nokkrum áratugum.

Í ljósi ofangreinds vil ég leggja áherslu á að við höfum öðlast frelsi í viðskiptum sem var ekki sjálfsagður hlutur á tímum Jóns Sigurðssonar. Okkur ber skylda til að nota þetta frelsi skynsamlega og þá hlýtur hagur neytenda að vera í fyrirrúmi. Við megum ekki sætta okkur við að erlendir milliliðir líti á Ísland sem nýlendu sína. Sá tími á að vera liðinn.

Við höfum leitast við að byggja upp öfluga utanríkisþjónustu sem er til reiðu fyrir alla þá sem til hennar leita um þjónustu á mörkuðum fjær og nær og ég hvet alla, innflytjendur jafnt sem útflytjendur, til að notfæra sér þessa þjónustu.

Útflutningur hefur tekið gífurlegum breytingum á undanförnum árum. Fyrir nokkrum áratugum þekktu menn hvern annan í viðskiptalífinu. Nú er öldin önnur og geta fáir haft yfirsýn yfir alla þá sem nú stunda viðskipti á Íslandi. Við getum tekið dæmi af sprotafyrirtækjum á borð við Latabæ og skyndilega rennur upp fyrir okkur ljós, lífið er ekki bara saltfiskur. Íslenskur útflutningur, eins og við þekktum hann hér áður fyrr, er nú allt annar og fjölbreyttari. Ný kynslóð er að taka við, framsækin kynslóð sem hefur óbeislað ímyndunarafl og skynjar tækifæri markaðarins með öðrum hætti en fyrri kynslóðir. Það er jákvæð þróun.

Á síðasta ársfundi Útflutningsráðs var undirritaður samstarfssamningur á milli viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs. Ég get vitnað um að framkvæmd samningsins hefur tekist mjög vel og hefur undanfarið ár einkennst af nánara samstarfi milli utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs en áður. Við höfum samhæft starf okkar og reynt að veita skilvirkari og betri þjónustu. Þá hefur verið dregið með markvissum hætti úr tvíverknaði. Reglulegir samráðsfundir eru haldnir og skipst er á starfsmönnum. Árangurstengdir samningar hafa verið gerðir við öll sendiráð og gert er ráð fyrir framlagi sérhvers starfsmanns utanríkisþjónustunnar til atvinnulífsins. Fundir með starfsmönnum sendiráða með Útflutningsráði hafa skilað góðum árangri. Þá vænti ég þess að Útflutningsráð verði í vaxandi mæli ráðgefandi um uppbyggingu utanríkisþjónustunnar. Ný samráðsnefnd atvinnulífsins hefur komið saman og veittist mér sú ánægja að stýra einum slíkum fundi nýlega þar sem kynnt var sameiginlegt útflutningsdagatal og sérstök síða utanríkisráðuneytisins, sem opnar atvinnulífinu greiðari leið til að koma á framfæri athugasemdum varðandi viðskiptaumhverfi sitt. Ég hef lagt áherslu á að utanríkisráðuneytið leggi sitt af mörkum til að greiða fyrir samskiptum við atvinnulífið.

Hlutverk utanríkisþjónustunnar er, eins og heiti hennar gefur til kynna, fyrst og fremst að veita þjónustu. Þeir sem veita þjónustu þurfa að laga sig að kröfum viðskiptavina sinna. Á undanförnum árum höfum við því lagt áherslu á að mæta  þörfum viðskiptalífsins. Oft er gagnlegt að taka mið af því hvernig  önnur ríki þjóna hagsmunum atvinnulífsins. Við berum okkur stundum saman við Dani en gerum okkur jafnframt grein fyrir því að það er dýrt að vera Íslendingur. Við getum ekki boðið uppá þjónustu nær 90 sendiráða eins og Danir, metnaði okkar verður að vera stillt í hóf. Með þessu er ég ekki að segja að sú gagnrýni sem fram hefur komið sé með öllu ósanngjörn. Íslensk utanríkisþjónusta er ekki hafin yfir gagnrýni, þar má sem annars staðar ýmislegt betur fara. Eðlilegt er einnig að fara reglulega yfir vinnubrögð og skilvirkni þeirra í ljósi breyttra aðstæðna. Stundum þurfum við að sjá fyrir þá þróun sem framundan er og er sendiráð í Kína gott dæmi um slíka forsjálni. Við þurfum að vita fyrir hverja við erum að vinna og hvort þeim markmiðum sem að er stefnt sé náð. Þau eru að þjóna framtíðinni en ekki fortíðinni. Við höfum því ákveðið að fara vandlega yfir vinnulag þjónustunnar með það að leiðarljósi að auka skilvirkni og hagkvæmni. Gert er ráð fyrir að kynna hugmyndir í þeim efnum á næstunni. Gagnrýnin og málefnaleg umræða er öllum mikilvægt aðhald og getur leitt til góðs. Það á einnig við um utanríkisþjónustuna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum