Hoppa yfir valmynd
10. maí 2004 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra í tilefni af útgáfu Genfarsamninganna á íslensku

Sigu nú saman fylkingar meðr ógrligu herópi og geystum gný, og var sem kvæði viðr í himinskýjunum og skylfi hamrar og hafs bárur og hvað sem á jörðu var. Skutust menn fyrst á með gaflokum, flettiskeptum og spjótum; þá var gerð grjóthríð svo mikil að eigi sá til sólar ... Gekk sá leikr til hádegis; þá varð nokkurt hlé á orrustunni; lágu valkestirnir svo þykkt, að tók meðalmanni í öxl.“

Þannig lýsir skáldið Benedikt Gröndal orrustunni við Solferino á Ítalíu, sem hann lýsti í skopádeilu sinni Heljarslóðarorrustu. Upphafið að Genfarsamningunum, sem við fögnum útgáfu á hér í dag, má rekja til styrjaldarinnar miklu, sem Benedikt Gröndal kallaði svo. Henry Dunant, stofnandi Rauða krossins, kom að vígvellinum við Solferino þann 25. júní 1859 en þá lágu 40 þúsund eftir, særðir eða fallnir. Þeir tilheyrðu ýmist herjum Austuríkis eða Frakklands. Dunant skipulagði líknarstarf óbreyttra borgara undir kjörorðunum „tutti fratelli“ – allir eru bræður.

Hugmyndin um aðstoð án þess að fara í manngreinarálit er meginregla í hjálparstarfi og eitt af grundvallarmarkmiðum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Það er gaman að geta þess fyrir okkur að við eigum hliðstætt dæmi úr Íslendingasögunum um aðstoð án þess að farið sé í manngreinarálit. Í 23. kafla Víga-Glúmssögu segir frá bardaga Glúms og Esphælinga, sem svo eru nefndir í sögunni. Undir lok átakanna segir: „Þess er getið að Halldóra kona Glúms kvaddi konur með sér „og skulum vér binda sár þeirra manna er lífvænir eru úr hvorra liði sem eru.““ Síðan er því lýst hvernig þær líknuðu sárum eftir bestu getu. Að vísu kunni Víga-Glúmur konu sinni, Halldóru Gunnsteinsdóttir, litlar þakkir fyrir að bjarga lífi helsta andstæðings síns, en það er önnur saga; segja má að hún sé okkar Henry Dunant – þótt ekki hafi hún stofnað heil samtök í kringum hugsjón sína.

Genfarsamningarnir svokölluðu eiga með öðrum orðum upphaf sitt að rekja aftur til miðrar 19. aldar en hins vegar voru þeir ekki gerðir í þeirri mynd sem þeir eru nú fyrr en í kjölfar hörmunga heimsstyrjaldarinnar síðari eða árið 1949. Þeir eru fjórir talsins og síðar voru gerðar við þá tvær viðbótarbókanir.

Samningarnir hafa ótvírætt sannað gildi sitt í þeim hernaðarátökum sem geisað hafa frá gerð þeirra en þeir hafa hver sína sérstöðu. Fyrsti samningurinn fjallar um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna á vígvelli. Annar samningurinn er um bætta meðferð særðra, sjúkra og skipreika sjóliða á hafi. Stríðsföngum er tryggð vernd í þriðja samningnum. Fjórði samningurinn sem fjallar um vernd almennra borgara á stríðstímum er þeirra viðamestur og ennfremur einna mikilvægastur. Árið 1977 voru gerðar tvær viðbótarbókanir við samningana. Fyrri bókunin kveður á um vernd fórnarlamba vopnaðra átaka milli ríkja og sú seinni eykur verulega vernd fórnarlamba vopnaðra innanríkisátaka og er fyrsti alþjóðasamningurinn sinnar tegundar. Hún er í raun til fyllingar 3. gr. samninganna sem þeir eiga allir sameiginlega en hún tekur sérstaklega til átaka sem eru ekki alþjóðlegs eðlis.

Þannig kveða Genfarsamningarnir m.a. á um mun meiri vernd til handa almennum borgurum en áður hafði þekkst en þróunin hefur því miður verið sú að almennir borgarar hafa í vaxandi mæli orðið fórnarlömb hernaðarátaka. Skýrasta dæmið um það er sú ógn sem almenningi stafar af hryðjuverkum en þau hafa öðrum þræði beinst gegn borgurum sem eiga sér einskis ills von. Þá stefna þau ekki síður heimsfriðnum í tvísýnu.

Við Íslendingar höfum blessunarlega búið langt frá heimsins vígaslóð og hvorki þekkt sverð né blóð allt frá miðöldum þegar Víga-Glúmur og félagar flugust á. Hins vegar vorum við óþyrmilega minnt á harðan veruleika stríðsins þegar Bretar gengu hér á land á þessum degi, 10. maí, fyrir 64 árum. Að vísu virðast landsmenn ekki hafa verið sér mjög meðvitandi um þá hættu sem fólst í því að hafa dregist með þessum hætti inn í heimsstyrjöldina síðari. Tveimur dögum eftir hernámið þóttust menn á Borgarfirði eystri sjá ókunnar flugvélar á suðurleið og voru loftvarnarflautur þeyttar í Reykjavík með þeim árangri að fjöldi fólks þaut út í glugga til að sjá hvað væri að gerast í stað þess að leita skjóls í kjöllurum.

Heimildir greina frá því að stríðsvanur maður hafi látið eftirfarandi orð falla í tilefni af þessum viðbrögðum: „Það er ég viss um, að fjöldi fólks í Reykjavík dæi af forvitni, ef til loftárásar kæmi.“ Mannfall Íslendinga varð hins vegar nokkurt á stríðsárunum, einkum á hafi úti. Alls missti íslenska þjóðin 153 menn af stríðsvöldum en ef bætt er við áhöfnum á tveimur togurum sem líklegt má telja að sokkið hafa vegna stríðsátaka hækkar talan í 211. Það er hlutfallslega álíka manntjón og sumar styrjaldarþjóðir urðu fyrir. Ísland stóð þannig ekki hjá í heimsstyrjöldinni síðari heldur mátti þola sára blóðtöku líkt og aðrar þjóðir.

Genfarsamningarnir hafa á undanförnum áratugum sannað gildi sitt. Í kjölfar alþjóðlegra dómstóla um stríðsglæpi í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og glæpi í Rúanda var ákveðið að koma á fót Alþjóðlega sakamáladómstólnum árið 1998. Dómstóllinn hefur lögsögu til að dæma í málum er varða stríðsglæpi en meðal þeirra eru gróf brot á Genfarsamningunum frá 1949 og önnur alvarleg brot sem framin hafa verið í milliríkjaátökum.

Þannig er framkvæmd þessara mikilvægu samninga í stöðugri þróun. Aðild okkar að Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn var fylgt eftir með sérstökum lögum sem sett voru hér á landi árið 2000. Þar er, líkt og með dómstólinn sem stofnaður var vegna glæpa í fyrrum Júgóslavíu, kveðið á um aðstoð við dómstólinn vegna rannsóknar eða meðferðar máls og beiðni vegna fullnustu dóma.

Heimsbyggðin hefur því miður enn á ný verið óþyrmilega minnt á mikilvægi þess að hafa skýrar reglur um meðferð fanga á stríðstímum. Fregnir af illri meðferð fanga breskra og bandarískra hermanna í fangelsum í Írak hafa verið helsta umfjöllunarefni heimsfjömiðlanna á undanförnum dögum og er óhætt að segja að menn setji hljóða yfir þeim myndum og þeim lýsingum sem gefnar eru. Þau voðaverk sem lýst hefur verið má á engan hátt verja, né þá sem standa fyrir slíku. Það er skylda yfirstjórnar herliðsins í Írak að láta þegar í stað fara fram opinbera rannsókn á þeim alvarlegu ásökunum sem fram hafa komið og hinum seku verður að refsa.

Íslensk stjórnvöld studdu aðgerðir til þess að koma hinum illa harðstjóra Saddam Hussein frá völdum. Það hefur nú tekist. Hann ríkti yfir þjóð sinni sem grimmur harðstjóri og miskunnarlaus böðull, en það eru nöturlegar kveðjur til hinnar nýfrjálsu íröksku þjóðar að ákvæði Genfar-sáttmálans séu ekki virt af herjum vestrænna lýðræðisríkja. Það eru ekki þau skilaboð sem írakska þjóðin á skilið og ekki þau skilaboð sem við Íslendingar viljum senda frá okkur, né íbúar vesturlanda sem þekkja mannréttindi og kosti lýðræðisins af eigin raun og eru ekki tilbúnir til þess að snúa aftur til þess tíma er slíkt var af skornum skammti, eða skorti jafnvel alveg.

Við munum líklega seint þurfa að feta í fótspor Halldóru Gunnsteinsdóttur úr Víga-Glúmssögu og gera að sárum særðra og fallinna í átökum hér á landi en engu að síður munu fylkingar heimsins því miður seint hætta að síga saman með ógurlegum herópum og geystum gný. Genfarsamingunum er ætlað að tryggja rétt þeirra er verða fórnarlömb slíkra átaka.

Það er von mín og trú að útgáfa okkar styrki stöðu þessara merku samninga enn frekar og efli hag almennra borgara á stríðstímum, Við fögnum í dag útgáfu utanríkisráðuneytisins og Rauða kross Íslands á íslenskri þýðingu Genfarsamninganna sem nú hefur litið dagsins ljós en ein af þeim skyldum sem við höfum undirgengist með undirritun samninganna er að þýða þá á íslensku. Þeir eru miklir að vöxtum og umfangsmikil vinna liggur að baki íslenskri þýðingu þeirra. Undirbúningur útgáfunnar hefur staðið lengi yfir og margir lagt hönd á plóg við að gera hana sem best úr garði.

Ég færi þeim öllum bestu þakkir fyrir. Önnur skylda sem okkur er lögð á herðar með því að undirrita þessa merku samninga er að kynna efni þeirra fyrir Íslendingum. Hin nýja Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, sem nú mun hefja kennslu í mannréttindum og mannúðarrétti, mun kynna þá um allt land í samráði við Rauða krossinn og utanríkisráðuneytið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum