Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2010 Utanríkisráðuneytið

Umsókn Íslands um aðild að ESB er grundvallarþáttur í endurreisninni

 

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra opnaði í morgun ráðstefnu um stuðning Evrópusambandsins (ESB) við atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun í aðildarríkjum þess.

Í ávarpi sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á að umsókn Íslands að ESB væri grundvallarþáttur í endurreisninni. Við þurfum traustari umgjörð utan um okkar atvinnu- og efnahagslíf, við þurfum langtímastöðugleika fyrir fjölskyldur og fyrirtæki, og við þurfum að rjúfa vítahring verðbólgu, vaxta og verðtryggingar sem hér er allt að sliga. Við þurfum að losa okkur við kollsteypuhagkerfið, sagði Össur.

Utanríkisráðherra sagði ESB ekki vera töfralausn en lýsti þeirri skoðun sinni að aðild gæti orðið okkur að verulegu liði við að byggja upp nýtt Ísland. Hann sagði hrakspár og hræðsluáróður í tengslum við Evrópusamstarfið og Ísland aldrei hafa reynst á rökum reistar, ekki við inngöngu Íslands í EFTA árið 1970 og ekki við aðildina að EES árið 1994.

Hann sagðist þess fullviss að tryggja megi grundvallarhagsmuni Íslands í fyrirhuguðum aðildarviðræðum enda væru fjölmörg fordæmi fyrir því að ESB hefði komið til móts við sérstöðu nýrra aðildarríkja. Staða Íslands væri sterk í því tilliti, hvort sem litið væri til sjávarútvegs, landbúnaðar eða annarra atvinnugreina. Nú væri enn meiri ástæða en nokkru sinni fyrr að fá úr því skorið hvað falist getur í aðild.

Í lokaorðum sínum hvatti utanríkisráðherra til þess að aðildarferlið yrði okkur öllum til sóma og að á Íslandi færi fram opin umræða um kosti og galla aðildar. Við skulum bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og ræða málin út frá því hvað er best fyrir Ísland í bráð og lengd. ESB snýst um framtíðina, sagði Össur í ávarpi sínu.

Á annað hundrað manns taka þátt í ráðstefnunni sem fram fer í Salnum í Kópavogi í dag og á morgun, auk fjölda erlendra fyrirlesara frá stofnunum ESB. Fyrirlesarar frá Möltu, Finnlandi, Danmörku og Eistlandi fjalla um reynsluna af þeim stuðningi sem þessi ríki hafa notið.

Ávarp utanríkisráðherra er hér, ásamt vefupptöku. Ráðstefnan í Salnum er í beinni útsendingu á vefnum á http://stelkur.skrin.is:8080/utn_2010_04

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum