Hoppa yfir valmynd
2. maí 2007 Utanríkisráðuneytið

Samráðsvettvangur með atvinnulífinu

Ræða Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra

á samráðsvettvangi með atvinnulífinu

Egilsstöðum 2. maí

[TALAÐ ORÐ GILDIR]

Ágætu fundarmenn, velkomnir austur.

Í dag eru fimmtán ár síðan samningurinn um evrópska efnahagssvæðið var undirritaður í Oportó í Portúgal, þann 2. maí 1992. Samningurinn var vissulega umdeildur á þeim tíma. Það var ekki óeðlilegt, enda um stórt skref að ræða fyrir íslenska þjóð að stíga á alþjóðabraut.

Fyrir 15 árum óraði í raun engann fyrir þeirri vegferð sem þá hófst. Samningurinn hefur um margt verið lykillinn að því Íslandi sem við þekkjum í dag, og stefna ríkisstjórnarinnar gert einstaklingum og fyrirtækjum kleift að nýta þau tækifæri sem í samningnum felast.

Mönnum hættir nefnilega til að taka EES-samningnum sem gefnum hlut og gleyma hversu geysimikla þýðingu hann hefur haft í för með sér. EES-samningurinn og hagfelldar aðstæður á heimavelli hafa í raun gert okkur kleift að leggjast í víking á nýjan leik og skapa upphaf að mesta hagsældarskeiði sem íslensk þjóð hefur nokkru sinni upplifað.

Við höfum nú nýlokið samningaferli um stækkun EES-samningsins, sem að öllu jöfnu helst í hendur við stækkun Evrópusambandsins. Að mínu mati er samningurinn mjög hagstæður fyrir Ísland, ekki síst í ljósi lítilla sögulegra viðskipta við nýju aðildarríkin. Það er nefnilega löngu liðin sú tíð að við Íslendingar getum fengið allt fyrir ekkert. Á sama tíma og okkur vex ásmegin á alþjóðavettvangi verðum við að vera reiðubúin að axla auknar byrðar og leggja okkar að mörkum.

Í þessu ljósi ber að skoða vilja íslenskra stjórnvalda til að reiða af hendi meira fé í þróunarsjóð EFTA, hinn aukna markaðsaðgang sem við veitum t.d. á sviði landbúnaðarvara til handa Evrópusambandsríkjunum og vilja okkar til að undirgangast skilmála um frjálsa för fólks.

Því eru upphrópanir og upphlaup ákveðinna stjórnmálamanna varðandi frjálsa för fólks á EES-svæðinu ekki bara hvimleið, heldur beinlínis leikur að því fjöreggi þjóðarinnar sem EES-samningurinn í raun er. Innflytjendur eru ekki vandamál á Íslandi. Innflutt vinnuafl er ekki að taka störf frá Íslendingum, innflytjendur eru ekki að mergsjúga íslenska velferðarkerfið. Þvert á móti leggja þeir mun meira til samfélagsins en þeir fá til baka.

Þar með er ekki sagt að við Íslendingar eigum að vera með öllu andvaralausir gagnvart erlendum áhrifum á okkar lífshætti og menningu. En það er undir okkur sjálfum komið - og engum öðrum - hvort íslensku þjóðfélagi takist að nýta þann mannauð sem hingað kýs að koma. Til þess verðum við að skapa fólki af erlendum uppruna tækifæri til að rækta hæfileika sína og þekkja rétt sinn og skyldur. Börn innflytjenda þurfa til dæmis oft sérstakan stuðning í skóla og tungumálakennsla og símenntun fyrir foreldrana er lykilatriði til farsællar aðlögunar.

Ágætu fundarmenn,

Frá síðasta fundi hefur heilmargt á daga okkar drifið. Við höfum, eins og áður sagði, samið um stækkun EES, hafið fríverslunarviðræður við Kína, gert samkomulag um jarðvarmarannsóknir við Indland, endurnýjað loftferðasamninga við Noreg, Danmörku og Svíþjóð og fullgilt fríverslunarsamning við Egyptaland svo stiklað sé á því helsta.

Hvað utanríkisráðuneytið varðar hef ég aðeins hrist upp í skipan mála og var um margt kominn tími til. Um síðustu áramót tók gildi nýtt skipurit fyrir ráðuneytið og hefur því nú verið skipt upp í tvö svið - alþjóða- og öryggissvið og viðskiptasvið. Allar fagskrifstofur ráðuneytisins munu heyra undir þessi tvö fagsvið sem leidd eru af sérstökum sviðstjórum. Þeim verður ætlað að samræma stefnu og starf ráðuneytisins á hvoru fagsviðinu fyrir sig. Að auki er svo sérstök rekstrar- og þjónustuskrifstofa í ráðuneytinu. Markmiðið með þessum breytingum er ekki síst að auka skilvirkni og bæta þjónustu, meðal annars gagnvart atvinnulífinu. Reynslan af skipulagsbreytingunum hingað til þykir mér lofa góðu.

Reglulega koma upp umræður um það að íslenska utanríkisþjónustan sé of stór, of dýr og jafnvel óþörf. Sjálfstætt og fullvalda ríki verður að sjálfsögðu að halda úti burðugri utanríkisþjónustu, þótt auðvitað verði fámenn þjóð að sníða okkur stakk eftir vexti á hverjum tíma. Þannig var opnuð ný aðalræðisskrifstofa í Færeyjum þann 1. apríl s.l. Margs konar ástæður lágu að baki þeirri opnun eins og nærri má geta, en viðskiptahagsmunir réðu þar augljóslega miklu. Í heimi sívaxandi og marbreytilegra tengsla og viðskipta verður íslensk utanríkisþjónusta fyrst og fremst að vera skilvirk og sveigjanleg og svara kalli tímans hverju sinni.

Í aðdraganda þessa fundar kom upp sú hugmynd að hafa sérstakt þema til umfjöllunar. Úr varð að fjalla sérstaklega um útflutning á orkuþekkingu Íslendinga. Þar er sannarlega að verða mikil gróska og vilja margir meina að á þessu sviði sé þegar hafin næsta stóra útrás Íslands á erlenda markaði. Sem fyrrum orkumálaráðherra er mér þetta auðvitað sérstakt fagnaðarefni.

Mér er það sérstök ánægja að fulltrúar sex þeirra fyrirtækja sem standa hvað fremst í eldlínunni og eru í fararbroddi á þessu sviði sáu sér fært að vera með okkur hér í dag til þess bæði að kynna þeirra fyrirætlanir og taka þátt í umræðum um þessi mál.

Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að möguleikar til útrásar á þessu sviði byggja algerlega á grunni þeirrar pólitísku stefnumörkunar sem átt hefur sér stað hér innanlands á þessu sviði. Útrásin í þessum geira sprettur úr þeim frjóa jarðvegi sem við höfum skapað hér á landi.

Við búum nú í aðdraganda kosninga við það sérkennilega andrúmsloft að stjórnmálaflokkar, sem að öllu jöfnu vilja láta taka sig alvarlega, tala í fullri alvöru um að nóg sé komið af uppgangi og þróun íslensks iðnaðar og atvinnulífs.

Mér er svona málflutningur sannast sagna hulin ráðgáta. Við hljótum einmitt að stefna að enn aukinni hagsæld og að nýta áfram þau tækifæri sem okkur standa til boða, meðal annars á sviði orkumála. Það forskot sem við höfum í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á sviði bæði vatnsafls- og jarðhitavirkjanna kemur ekki til af sjálfu sér. Það er afrakstur umfangsmikillar reynslu við að beisla náttúruauðlindir.

Við sem höfum stutt við og staðið fyrir uppbyggingu af þessu tagi, samanber þá miklu virkjun sem hér er risin við Kárahnjúka og hið nýja álver Alcoa á Reyðarfirði, að ógleymdum háhitavirkjunum, nú síðast á Reykjanesi og á Hellisheiði, höfum gert það meðal annars í þeirri trú og vissu að með þessu væri Ísland að leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni veraldar. Í þessu samhengi hef ég stundum haft á orði að Ísland sé ekki hluti vandanum, heldur lykillinn að lausninni.

Uppbygging orkufreks iðnaðar á Íslandi þar sem orkan er sótt í vistvænar og endurnýjanlegar náttúruauðlindir hefur ekki aðeins bein jákvæð áhrif á umhverfið og losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki síður er jákvæð sú útrás á orkuþekkingu, sem við nú horfum fram á, sem mun verða til þess að draga úr mengun og efla vistvæna orkuframleiðslu um heim allan.

Í starfi mínu sem utanríkisráðherra, og áður sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hef ég hvarvetna orðið var við að litið er til Íslands sem forystuþjóðar á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa. Í síðustu viku átti ég t.a.m. fund með starfsystur minni frá Póllandi um orkumál og síðar í dag mun ég eiga fund með varaforsætisráðherra Slóvakíu um sama efni. Þá er í undirbúningi samstarfsyfirlýsing við Indland. Annað fjölmennasta ríki heims er þar að leita eftir samstarfi við eitt það fámennasta. Á þessu sviði stöndum við einfaldlega fremst þjóða og samstarf við Ísland þykir eftirsóknarvert.

Á nýliðnum vetri varð okkur tíðrætt um ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. Sjálfbær nýting okkar á náttúruauðlindum er hluti af okkar ímynd. Hvaða önnur þjóð getur stært sig af því að yfir 70% af hennar orkuþörf er mætt með endurnýjanlegum hætti?     Við eigum að vera stolt af þeim árangri sem við höfum náð og við eigum að halda áfram á sömu braut. Það er ekki einasta skynsamlegt, heldur jaðrar við að vera siðferðileg skylda okkar.

Góðir fundarmenn,

Samráðsfundir af þessu tagi eru mikilvægur vettvangur til skoðanaskipta. Eins og svo margt sem lítur að samskiptum hins opinbera við atvinnulífið fara slík skoðanaskipti fram í Reykjavík. Ég ákvað hins vegar að nota tækifærið og hitta ykkur hér á Austurlandi og bjóða fyrirtækjum á Austurlandi til þátttöku í fundinum.

Hér í grenndinni er að ljúka framkvæmdum við mestu mannvirkjagerð Íslandssögunnar og nýlega tók til starfa álver á Reyðarfirði sem verður eitt það stærsta og fullkomnasta í heimi. Ég vona sömuleiðis að Húsvíkingar og nærsveitamenn muni njóta viðlíka uppbyggingar í sínu heimahéraði með álveri á Bakka.

En það verður að hafa í huga að landsbyggðin lifir ekki á stóriðju og virkjunum einum saman. Samkeppnisstaða landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu er veik og ýmislegt má gera til þess að bæta þar úr svo allir beri hag af. Til að mynda teldi ég mikilvægt að prósenta virðisaukaskatts á flutningum yrði færð úr 24,5% niður í 7%. Góðar samgöngur skipta landsbyggðina geysimiklu og við eigum að hafa metnað í okkur til þess að bæta um betur á því sviði. Hið sama gildir um fjarskipti og háhraðatengingar, sem segja má að séu samgöngur nútímans.

Svo má velta fyrir sér hvort að nýr flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu sé endilega brýnasta verkefnið sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag. Væri kannski nær að efla eitthvað af okkar stærri flugvöllum á landsbyggðinni, s.s. Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll, og gera þeim kleift að sinna millilandaflugi svo sómi sé af og flugrekstraraðilar eru að kalla eftir? Ég nefni þetta hér og í þennan hóp þar sem umræðan á Íslandi er æði oft höfuðborgarmiðuð, ef svo má að orði komast.

Komið er að lokum þessa kjörtímabils. Ég hef nú verið tæpt ár í embætti utanríkisráðherra og haft mikla ánægju af. Ég neita því ekki að minn hugur stendur vissulega til þess að geta haldið hér áfram því næg eru verkefnin. En enginn veit hvað verður og fyrir mitt leyti vil ég þakka samstarfið þennan tíma.

Rétt í lokin langar mig þó, á 15 ára afmælisdegi EES-samningsins, að deila með ykkur minni sýn á hvað við verðum stödd að öðrum fimmtán árum liðnum m.t.t. þess þema sem hér er til umfjöllunar.

Ég er þeirrar skoðunar að fámenn eyþjóð verði ávallt verða háð sjálfbærri nýtingu á náttúrulegum auðlindum sínum. Ég sé því fyrir mér áframhaldandi uppbygginu íslensks orkubúskapar, ekki síst á sviði jarðvarma. Orkunýting okkar mun ekki aðeins beinast að hefðbundinni stóriðju, heldur að annars konar starfsemi á sviði hátækni. Vitað er t.a.m. af áhuga öflugra alþjóðlegra net- og tölvufyrirtækja í þessu samhengi.

Ég sé einnig fyrir mér að áframhaldandi uppbygging íslensks orkubúskapar muni haldast í hendur við þekkingarútrás okkar á sviði orkumála. Sú þekkingarútrás mun ekki einungis birtast í útflutningi á þekkingu, heldur munu þjóðir einnig sækja hingað til lands til að afla sér þekkingar á þessu sviði.

Fyrirhugaðir alþjóðlegir orkuháskólar á Akureyri, Reykjavík og Reykjanesbæ munu efalítið spila þar stórt hlutverk. Þannig mun hin hreina og tæra orka sem býr í iðrum jarðar og mannauður og hugvit styrkja jákvæða ímynd Íslands sem land til búsetu, náms eða ferðalaga. Þær ákvarðanir sem teknar eru í dag eru afdrifaríkar fyrir Ísland framtíðarinnar.

Þakka ykkur aftur fyrir komuna og ég hlakka til að eiga við ykkur skoðanaskipti hér í dag.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum