Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2007 Utanríkisráðuneytið

Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu

Ræða Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra, um mannréttindi í íslenskri utanríkisstefn, flutt við Háskólann á Akureyri 30. apríl 2007

Góðir áheyrendur,

Ég vil byrja á að þakka fyrir að vera hér með ykkur í dag til að fjalla um málefni sem mér er afar hugleikið - mannréttindi.

Mannréttindi eru afar víðtækur málaflokkur sem snertir alla, alls staðar og eru óháð tíma og rúmi. Áður en lengra er haldið langar mig að vitna í orð Nelsons Mandela.  Hann sagði:

„Ég hef gengið um langan veg til að öðlast frelsi. Ég hef uppgötvað, eftir að hafa klifið háan tind, að klífa þarf fjölmarga enn. Ég staðnæmist til að kasta mæðinni, skoða sjóndeildarhringinn og líta yfir farinn veg.  En ég get aðeins staðnæmst í stutta stund, því frelsi fylgir ábyrgð, og ég dirfist ekki að drolla, því göngu minni er langt frá því lokið. 

Þetta eru orð að sönnu því aldrei má láta staðar numið í baráttunni fyrir frelsi og  mannréttindum. 

Tæplega 60 ár eru liðin frá samþykkt mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Með henni var lagður grunnur að gerð mannréttindasamninga á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana. Í yfirlýsingunni er að finna ákvæði um grundvallarmannréttindi og ber þar hæst réttinn til lífs, frelsis og mannhelgi, bann við pyntingum, þrælahaldi og mismunun hvers konar, réttinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, réttinn til menntunar og heilbrigðis. 

Mannréttindayfirlýsingin kveður á um að allir eigi kröfu á að mannréttindi þeirra séu virt og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

Virðing fyrir mannréttindum hér á landi eru talin sjálfsagður hluti af menningu okkar og eðlilegur hluti daglegs lífs á Íslandi. Grunngildi okkar eru virðing fyrir lýðræði, jafnrétti og mannlegri reisn, sem og samfélagi sem auðkennist af umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Þessi gildi eru samofin samfélagi okkar og á heildina litið getum við verið stolt af íslensku samfélagi. En við þurfum að halda vöku okkar og takast á við þau vandamál sem hér skjóta upp kollinum. 

Vart getur það verið annað en brot á mannréttindum þegar börnin okkar verða fyrir einelti og öðru ofbeldi í skólum landsins eða í netheimum, eins og nýleg dæmi eru um? Hvað með klámvæðinguna og fylgifiska hennar, mansal, kúgun og ofbeldi. Síðast um helgina var í fréttum haldið fram að versti fylgifiskur klámiðnaðarins -mansalið - teygði anga sína hingað til lands. Einhverjar þær stúlkur sem hér starfa sem svokallaðir dansarar séu ekki á Íslandi af fúsum og frjálsum vilja.  Þetta þarf að rannsaka og ég held að það geti vart verið flókið í svo litlu samfélagi sem við lifum í. Hörmulegur aðbúnaður verkafólks og iðnaðarmanna, sem hýrist í húsnæði sem vart er bjóðandi og á kjörum sem ekki eru í líkingu við þau sem hérlendir njóta, eru einnig töluvert í fréttum. Ég vona að þau dæmi sem tekin hafi verið séu einsdæmi en ekki merki um að virðing fyrir samborgurum okkar og réttindum þeirra fari þverrandi og gróðarsjónarmiðin standi ein eftir.

Þótt okkar viðfangsefni kunni að virðast léttvæg samanborið við þau gífurlegu vandamál sem fjölmörg ríki standa frammi fyrir og þær þjáningar sem þjóðir og þjóðabrot ganga í gegnum, eru þau ekki léttvæg þeim sem fyrir þeim verða. Við verðum því, líkt og Nelson Mandela, að halda áfram göngu okkar og standa mannréttindavaktina. 

Góðir áheyrendur,

Mannréttindamálum er gjarnan skipað á bekk með “mjúku málunum” svokölluðu og þannig gefið til kynna að þau skipti ekki jafn miklu máli og hin “hörðu mál”. En ég hlýt að spyrja: Hvað er “mjúkt“ við pyntingar, dauðarefsingar, kynferðislegt ofbeldi og barnaþrælkun? Svona skilgreiningar standast vitanlega enga skoðun.

Enda vekja tölur um mannréttindabrot óhug. Í rúmlega 150 ríkjum heims eru dæmi um að pyntingum og öðrum grimmilegum aðferðum sé beitt og í um 70 þessara ríkja er slíkt ástand útbreitt eða viðvarandi. Aftökur eru framdar víða í heiminum án dóms og laga og þannig grundvallarrétturinn til lífs virtur að vettugi. Yfir 80 ríki heims leggja blátt bann við kynferðissambandi milli einstaklinga af sama kyni og í sumum ríkjum heims er samkynhneigð refsiverð að viðlagðri dauðarefsingu.  Þá er áætlað að 100 til 140 milljónir kvenna og stúlkna hafi verið þvingaðar til að gangast undir kynfæralimlestingar af einhverju tagi. Ég gæti haldið áfram, en læt hér staðar numið.

En hefur Ísland hlutverki að gegna í baráttnunni gegn mannréttindabrotum á alþjóðavettvangi? Erum við of fá og mjóróma í hinum fjölmenna kór alþjóðasamfélagsins? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki.

Á síðasta ári kom hingað til lands fjölmenn sendinefnd frá Afríkuríkinu Djíbútí. Sendinefndin taldi hátt í 30 karlmenn – enga konu – með forseta og utanríkisráðherra landsins í broddi fylkingar. Nokkrum dögum fyrir heimsóknina birtu Sameinuðu þjóðirnar skýrslu sem sýndi mjög bágborið ástand mannréttindamála í landinu. Ég stóð frammi fyrir þeirri spurningu hvort ég ætti að hitta utanríkisráðherrann, eða sína vanþóknun íslenskra stjórnvalda með því að hitta hann ekki.

Ég tók þá ákvörðun að hitta utanríkisráðherrann og ræða við hann um mannréttindamál. Okkar rödd heyrist nefnilega og hún skiptir máli. Auðvitað geta verið uppi þær aðstæður að réttast sé að halda sig til hlés, en almennt er ég þeirrar skoðunar að rétt sé að talast við og eiga samskipti. Ef málatilbúnaður viðmælandans er gagnrýniverður er hægt að freista þess að hafa þar jákvæð áhrif á. Ríki sem ekki fylgir sannfæringu sinni eftir á alþjóðavettvangi á lítið erindi í öryggisráð S.þ. eða aðrar ábyrgðastöður á alþjóðavettvangi. 

Þetta á ekki síst við í mannréttindasviðinu. Hér höfum við margt fram að færa. Við eigum virta sérfræðinga á þessu sviði og við erum í framvarðasveit þjóða sem láta sig mannréttindi varða. Ég tel nauðsynlegt að við leggjum okkar af mörkum við að tryggja að íbúar heims njóti þeirra mannréttinda sem kveðið er á um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í öðru alþjóðastarfi.

Í þessu ljósi ákvað ég í nóvember á síðasta ári, með áðurnefnd grunngildi okkar Íslendinga að leiðarljósi, að mörkuð yrði heildstæð stefna Íslands til að efla og vernda alþjóðleg mannréttindi til framtíðar. Stefnan er eðlilegt framhald af auknu framlagi og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi almennt og vaxandi áherslu á mannréttindi í öllu alþjóðastarfi.

Markmið stefnunnar er að gefa yfirsýn yfir áherslur íslenskra stjórnvalda. Með henni er lýst stuttlega þeirri þróun sem átt hefur sér stað á alþjóðavettvangi í mannréttindamálum og með hvaða hætti Ísland leggur sitt af mörkum í aðgerðum til að vernda og efla virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindum. Ennfremur er lýst helstu áherslum Íslands og afstöðu til fjölmargra sviða mannréttinda og litið til framtíðar. 

Stefnan var unnin í samráði við félagasamtök, stofnanir og innlenda og erlenda sérfræðinga á sviði mannréttinda. Ég vil nota tækifærið hér og koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komu að þessari vinnu.  Stefnan mun jafnframt koma út á enskri tungu á næstu vikum en íslensku útgáfuna er frá og með deginum í dag hægt að nálgast á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Í stefnunni segir að mannréttindi séu algild, órjúfanleg og háð innbyrðis, það sé á ábyrgð stjórnvalda og alþjóðsamfélagsins að vernda borgarana og mikilvægt sé að brugðist verði við mannréttindabrotum innan ramma alþjóðlegrar samvinnu og á grundvelli alþjóðasamninga.

Ef ég stikla að öðru leyti á stóru þá lýsir stefnan áherslum Íslands í þá veru að beita sér gegn ofbeldi og mismunun á hendur konum og börnum. Lögð er áhersla á baráttuna gegn mansali, réttindi minnihlutahópa og fatlaðra, sem og bættum réttindum samkynhneigðra. Einnig má í stefnunni finna áherslur Íslands í baráttunni gegn mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða svo og mikilvægi þess að virða mannréttindi flóttamanna í hvívetna. Lögð er áhersla á að efla réttarríkið og vernda mannréttindi í baráttunni gegn hryðjuverkum, og undirstrikuð tengsl mannréttinda, friðar og öryggis og ábyrgðar alþjóðasamfélagsins í því samhengi. Í stefnunni segir meðal annars að Ísland muni halda áfram að beita sér fyrir algeru banni við pyntingum, afnámi dauðarefsinga og aftökum án dóms og laga og baráttunni gegn mannshvörfum og refsileysi. 

Góðir áheyrendur,

Þegar kemur að mannréttindamálum er sannarlega verk að vinna, bæði heima og heiman. Ég tel þörf á aukinni mannréttindafræðslu á öllum skólastigum hér heima. Við getur gert betur hvað það varðar. Menntun og fræðsla er lykilþáttur í að efla umburðarlyndi og virðingu fyrir mannréttindum og menningarlegri fjölbreytni.

Ég fagna því framtaki Barnaheilla að styrkja samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, skóladeildar Akureyrarbæjar og framhaldsskólanna á Akureyri um kennslu mannréttinda á öllum skólastigum. Eitt megin viðfangsefni verkefnisins er að vinna gegn mismunun á grundvelli, kyns, kynþáttar, þjóðernis, trúar eða lífsskoðunar, fötlunar eða kynhneigðar. Einnig fagna ég átaki Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og Námsgagnastofnunar sem gáfu á dögunum út kennsluefni fyrir grunnskóla sem ætlað er að auka þekkingu ungmenna á mannréttindum og draga úr fordómum. Hvoru tveggja er gott framtak sem ég styð heilshugar. 

Við eigum að hlúa að æskunni okkar og undirbúa hana eins vel og við getum til þátttöku í okkar fjölbreytta samfélagi og samfélagi þjóðanna. Ég vil gjarnan leggja mitt lóð á vogaskálarnar og hef ákveðið, í tilefni af 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna á næsta ári, að gefa út litla handbók sem inniheldur sérstaka útgáfu mannréttindayfirlýsingarinnar fyrir börn, t.d. eldri deildir leikskólanna og yngri deildir grunnskólanna.

Fullveldi ríkja er ekki gild rök, hvorki stjórnmálalega né lögfræðilega, gegn viðbrögðum alþjóðasamfélagsins þegar alvarleg og útbreidd mannréttindabrot eru framin.  Hins vegar er mikilvægt að viðbrögð alþjóðasamfélagsins séu innan ramma alþjóðlegrar samvinnu og grundvallist á alþjóðasamningum. 

Á síðastliðnum árum hefur innflytjendum, flóttafólki og farandfólki fjölgað á Íslandi. Hnattvæðingin stuðlar að auknum fólksflutningum bæði faglærðra og ófaglærðra, fjölskyldna og ferðamanna.  Hnattvæðingin hefur skapað þörfina fyrir vinnuafl frá öðrum ríkjum og á það einnig við um Ísland.  Íslenskt atvinnulíf hefur sóst í auknum mæli eftir erlendu vinnuafli. Þó að innflytjendur, flóttafólk og farandfólk hér á landi séu ekki hátt hlutfall af þjóðinni þá hefut þetta fólk auðgað íslenskt samfélag á margvíslegan máta.  Við eigum að taka vel á móti þeim sem  sækja Ísland heim og forðast hleypidóma. Hér þarf að auka fræðslu og umburðarlyndi.  

Mig langar að staldra við mikilvægi „samvinnu“ alþjóðasamfélagsins þegar unnið er að hnattrænni mannréttindavernd og þá sérstaklega í þeim málaflokkum sem ekki virða landamæri. Baráttan gegn mansali sem er talin sú skipulagða glæpastarfsemi sem vex hvað hraðast í heiminum. Ekkert ríki getur eitt og sér spornað gegn þessari vá og krefst baráttan gegn mansali fjölþættrar og skilvirkrar alþjóðasamvinnu ef hún á að ná tilætluðum árangri. 

Að mínu mati var ein mikilvægasta niðurstaða Leiðtogafundarins 2005 sú viðurkenning aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna á því að einstök ríki og alþjóðasamfélagið geta ekki vikið sér undan þeirri skyldu að vernda borgarana.  Jafnframt hétu aðildarríkin því að bregðast við í samræmi við þessa skyldu.

Við stofnun nýs mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þarf að gæta þess að varpa ekki 60 ára mannréttindastarfi Sameinuðu þjóðanna fyrir róða.  Þess vegna leggur Ísland áherslu á að mannéttindaráðið fjalli um ástand mannréttindamála í einstökum ríkjum, því að slík umfjöllun veitir mikilvægt aðhald.

Í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 1993 er að finna svokallaðar Parísarreglur, sem mörkuðu rammann um innlendar mannréttindastofnanir. Þar er gert ráð fyrir því að mannréttindastofnun sé opinber stofnun á fjárlögum viðkomandi ríkis, óháð stjórnvöldum. Sjálfstæði, fjárhagur og fagmennska slíkrar stofnunar eru ennfremur tryggð með lögum.

Slíkri stofnun er ekki ætlað að leysa af hólmi aðrar stofnanir eða félög sem starfa á sviði mannréttinda. Mannréttindastofnun er þó ætlað að vera veruleg viðbót við mannréttindastarfsemi og uppbyggingu mannréttindamála í viðkomandi landi.

Það er mikilsvert fyrir okkur Íslendinga að setja sem fyrst á laggirnar okkar eigin mannréttindastofnun sem uppfylli Parísarreglurnar, og ég tel ekki úr vegi að slík stofnun gæti verið starfrækt í tengslum við háskólasamfélag líkt og er hér á Akureyri. Um hana þarf að setja lög eins og ég nefndi áðan. Ég tel mikilvægt að hugað verði að því hið allra fyrsta og mun ég beita mér fyrir því þegar nýtt Alþingi kemur saman aftur eftir kosningar. 

Með þetta í huga hef ég falið félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri að kynna sér þessar reglur sem og annað alþjóðasamstarf á þessu sviði og skila skýrslu þar um.

Ísland hefur aldrei átt sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi aukins vægis mannréttindamála í alþjóðastarfi og þeirrar staðreyndar að Ísland hefur töluvert fram að færa á þessu sviði er tímabært að sækjast eftir sæti í nýju mannréttindaráði í samráði og samvinnu við önnur Norðurlönd. Finnar sitja í ráðinu sem stendur, en kjörtímabili þeirra líkur nú í sumar. Danmörk er nú í framboði með stuðningi allra Norðurlanda og það skýrist um miðjan maí hvort Danir nái kjöri. Í framhaldi af því munu íslensk stjórnvöld skoða möguleika á því hvenær geti orðið af framboði Íslands í ráðið.

Allt er í heiminum hverfult og við erum sífellt að takast á við nýja og breytta heimsmynd, sem kallar á ný viðfangsefni, einnig á sviði mannréttinda. Íslensk stjórnvöld fylgjast náið með þróun alþjóðlegrar mannréttindaumræðu og munu sérstaklega beita sér á þeim sviðum þar sem Ísland getur látið gott af sér leiða og miðlað af þekkingu sinni og reynslu. 

Þakka ykkur fyrir.

 

Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu (PDF - 1,36 Mb)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum