Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2007 Utanríkisráðuneytið

Jafnréttis- og utanríkismál

Ræða Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra

um jafnréttismál og utanríkismál

í Háskólanum á Akureyri 23. apríl kl. 12.00

Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið að vera hér með ykkur í dag til að ræða jafnréttismálin, málefni sem er mér mjög hugleikið.

Í júní á síðasta ári varð ég þess heiðurs aðnjótandi að verða fyrsta konan í sögu íslenska lýðveldisins til að gegna embætti utanríkisráðherra. Það var löngu kominn tími til að kona tæki við stjórnartaumunum í utanríkisráðuneytinu, en ráðuneytinu hafði þá verið stjórnað af karlmönnum allt frá stofnun þess, eða samfleytt í tæp 66 ár. Utanríkisráðuneytið var því rétt að verða löggilt gamalmenni þegar þangað gekk loksins inn kona.  

Á hverjum einasta degi geng ég fram hjá röð ljósmynda af fyrri utanríkisráðherrum þjóðarinnar, sem hanga á vegg fyrir utan skrifstofuna mína. Alls eru þetta sautján karlar og eru mér dagleg áminning um hversu mikið karlaveldi utanríkisráðuneytið hefur lengst af verið.

Áður en ég kom í utanríkisráðuneytið hafði ég verið iðnaðar- og viðskiptaráðherra í tæp sex og hálft ár. Ég var einnig fyrsta konan til að gegna því embætti, en 26 karlar höfðu þá áður setið þar á ráðherrastól. Það er í raun og veru ótrúlegt að hugsa til þessa.  

En jafnvel ennþá ótrúlegra er að hugsa til þess að enn þann dag í dag séu fimm ráðuneyti þar sem kona hefur aldrei haldið um stjórnartaumana. Þetta eru rótgrónu atvinnuvegaráðuneytin tvö, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, auk samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis, að ógleymdu forsætisráðuneytinu. Það að konur hafi aldrei komið að stjórnun þessara mikilvægu ráðuneyta er áminning um að þótt ýmislegt jákvætt hafi gerst í jafnréttisátt hér á landi á síðustu árum, eigum við enn langt í land.

Góðir áheyrendur, 

Áherslur og gildi kynjanna eru um margt ólík og því er afar mikilvægt að bæði konur og karlar taki að sér stjórnunarstöf á öllum sviðum mannlífsins. Í starfi mínu sem utanríkisráðherra hef ég sérstaklega gert mér far um hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi við alla stefnumörkun. Segja má að það hafi verið ærið mörg tækifæri til breytinga á þeim bænum því í ráðuneytinu voru karllæg gildi rótgróin.

Hið mikla magn testósteróns, sem hefur svifið yfir vötnum í utanríkisráðuneytinu til þessa, hefur án efa haft áhrif á þau áherslumál sem Ísland hefur sett á oddinn í utanríkismálum í gegnum tíðina. Stundum má segja að þar hafi ekki allaf verið á ferðinni málaflokkar sem ættu að vera forgangsatriði herlausrar þjóðar. 

Það er mín skoðun að í alþjóðastarfi eigi Íslendingar að einbeita sér að verkefnum þar sem reynsla okkar og þekking kemur helst að gagni. Þróunarmál, mannréttindamál, friðargæsla og jafnréttismál eru meðal þeirra mála sem ég hef lagt aukna áherslu á í starfi mínu sem utanríkisráðherra. Þessi mál hafa stundum verið kölluð “mjúku málin”. Þannig hefur verið gefið til kynna að þau skipti ekki jafn miklu máli og önnur mál, sem þá er lýst sem hinum “hörðu málum”. En ég spyr: Hvað er “mjúkt“ við fátækt og hungur, mannréttindi, málefni flóttamanna, barnahermennsku eða uppbyggingu stríðshrjáðra svæða? Þetta eru ekki málefni sem varða konur frekar en karla, eða eru “mýkri” en önnur mál.

Eitt af mínum fyrstu verkum í embætti utanríkisráðherra var að gera gagngerar breytingar á skipulagi og áherslum Íslensku friðargæslunnar með það fyrir augum að íslensk sérþekking nýttist sem best og verkefnin hentuðu jafnt konum sem körlum. Konur voru aðeins um 14% friðargæsluliða í byrjun árs 2004 og 16% þegar ég tók við stjórnartaumunum í utanríkisráðuneytinu. Nú er staðan gjörbreytt. Af 30 friðargæsluliðum á vettvangi eru 13 konur, eða 43%.

Kona er nú yfirmaður Íslensku friðargæslunnar og hefur hún á síðustu mánuðum unnið að því að koma þeim áherslubreytingum sem ég hef sett á oddinn til framkvæmda. Í kjölfarið hafa fjölmörg ný og áhugaverð verkefni litið dagsins ljós. Nýlega fór kona til starfa í Palestínu þar sem hún starfar á vegum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þá er kona að störfum með Kvennahjálp Sameinuðu þjóðanna í Serbíu og brátt tekur kona við hlutverki upplýsingafulltrúa Atlantshafsbandalagsins í Írak. Kynjahlutfall hefur verið jafnað í eftirlitssveitunum á Srí Lanka og nú starfa fjórar konur með friðargæsluliðinu í Afganistan, þar á meðal er þróunarfulltrúi í héraðsteymi, sem leggur í starfi sínu sérstaka áherslu á málefni kvenna og barna. Á svæðinu, sem er eitt fátækasta hérað Afganistan, er mikið af ekkjum og munaðarlausum börnum svo verkefnin eru ærin. Það er ekki síst mikilvægt í löndum eins og Afganistan að friðargæsluliðar séu af báðum kynjum. Af menningarlegum ástæðum getur nefnilega verið ómögulegt fyrir erlenda karlmenn að ræða við innlendar konur, ekki síst með hagsmuni kvennanna sjálfra í huga. 
 

Eitt þeirra verkefna sem þróunarfulltrúinn í Afganistan hafði yfirumsjón með á síðasta ári var námskeið fyrir ljósmæður og yfirsetukonur, sem ráðist var í í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Um 40 afganskar konur úr héraðinu sóttu námskeiðið og var því afskaplega vel tekið. Þar var fjallað um meðgöngu og fæðingu, umönnun nýbura, næringu þungaðra kvenna og kvenna með barn á brjósti, sem og ýmis vandamál sem geta komið upp við fæðingu. Zontahreyfingin á Íslandi gaf til verkefnisins töskur með búnaði til að nota í verkefninu sem nýtist nú ljósmæðrum og yfirsetukonum sem starfa langt frá hefðbundnum spítölum úti í afskekktum héruðum.

Ég tel þetta námskeið vera gott dæmi um hvernig hægt er að hafa bein jákvæð áhrif til langs tíma á einfaldan hátt og með litlum tilkostnaði. Með því að mennta yfirsetukonur eykst öryggi kvenna sem ala barn í afskekktum héruðum til muna, en ungbarnadauði er mjög hár í Afganistan.  

Í nafni Íslands er unnið mikið og merkt þróunarstarf um allan heim. Á tíma mínum í ráðuneytinu hef ég lagt aukna áherslu á þróunarmál og þá einkum málefni kvenna og barna. Nýlega ákvað ég t.d. að styðja verkefni á vegum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í Úganda og Malaví, sem gengur út á það að dreifa skólamáltíðum til barna. Ég var einmitt í Úganda fyrir skemmstu þar sem þrjár konur, starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, bera hitann og þungann af íslenskri þróunaraðstoð í landinu og njóta mikils trausts allra þeirra sem til þekkja.

Einnig get ég nefnt að í ár verður tekið á móti 25-30 flóttamönnum. Stefnt er að því að tekið verði á móti hópi úr verkefni Sameinuðu þjóðanna sem beinist sérstaklega að konum og börnum á skilgreindum hættusvæðum. Fyrir tveimur árum kom hingað einmitt hópur kvenna og barna frá Kólumbíu á grundvelli þessa verkefnis og hefur aðlögun hópsins gengið mjög vel. Hópurinn sem við bjóðum velkominn síðar á þessu ári verður einnig frá Kólumbíu. 

Ég lít á það sem skyldu okkar, sem erum svo heppin að búa við eitt besta velferðarkerfi sem þekkist, að vinna að því að bæta aðstöðu kvenna sem þurfa að líða kúgun, misrétti og ofbeldi víða um heim. Jafnréttismálin þarf að skoða í hinu stóra og alþjóðlega samhengi og þar er mikið verk að vinna.

Ég hef lagt mig fram við að nýta tækifæri sem gefist hafa í alþjóðasamstarfi til að vinna að framgangi réttindamála kvenna. Þannig fjallaði ég t.d. um málefni kvenna í ræðu minni í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðasta haust. Þar tók ég einnig þátt í hringborðsumræðum kvenutanríkisráðherra sem sóttu allsherjarþingið og var það sérstaklega ánægjulegt. Þar ræddum við leiðir til að auka völd kvenna og þátttöku þeirra, einkum í stjórnmálum og á vinnumarkaðinum. Ég greindi þar frá stöðu jafnréttismála hér á landi og þeim leiðum sem við höfum farið til að jafna rétt kynjanna.

Það hlýtur að vera forgangsverkefni okkar að stuðla að bættum kjörum og aðstæðum kvenna um allan heim. Það er einlæg skoðun mín að heimurinn væri betri og öruggari staður ef fleiri konur væru þar í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum. Ég tel að konur velti afleiðingum ákvarðana sinna fyrir sér á annan hátt en karlar gera. Konur hugsa sig að minnsta kosti tvisvar sinnum um áður en þær senda börnin sín eða annarra í stríð eða styðja átök á alþjóðavettvangi.

Góðir áheyrendur,

Þeirri goðsögn að konur veigri sér við því að axla ábyrgð og taka að sér stjórnunarstörf hefur löngum verið haldið á lofti sem skýringu eða nokkurs konar afsökun fyrir bágbornum hlut kvenna. Sú söguskýring skellir í raun skuldinni á konurnar sjálfar. Það blasir hins vegar við hverjum sem kynnir sér málin að ástæðan liggur alls ekki hjá konunum. Eftir rúmlega tveggja áratuga þátttöku í stjórnmálum finnst mér augljóst að skýringarnar eru aðrar og mun kerfislægari. Ástæðan er einfaldlega sú að konur þurfa að sækja fram á grundvelli gilda og viðmiða karlanna í stað þess að sækja fram á eigin forsendum. Það eru einnig gerðar mun meiri kröfur til kvenna sem komast upp metorðastigann, en karla í sömu stöðu. Kerfið vinnur gegn konum.

Konur sem hafa náð langt í stjórnmálum hafa stundum valið að tileinka sér karllæg gildi og fyrir vikið uppskorið viðurnefni á borð við “járnfrúin”, líkt og Margret Thatcher mátti bera, eða vargar, skass og jafnvel lopapeysukerlingar. Mun meiri kröfur eru gerðar til útlits kvenna í stjórnmálum en karla og algengt er að konur þurfi að breyta háttum sínum og framkomu. Kona sem stendur fast á sínu þykir frek og hörð á meðan karl, sem þannig er ástatt um, er sagður ákveðinn og að hann standi fastur á sínu. Það sem þykir jákvætt í fari karla, er neikvætt í fari kvenna.

Ég þori að fullyrða að konur sem sækjast eftir ábyrgðarstöðum reka sig á mun meira mótlæti en karlar. Konur eru einfaldlega settar undir aðra mælistiku en karlar og verða oft fyrir meiri og óvægnari gagnrýni. Árangur minn og framganga í embætti utanríkisráðherra er t.d. veginn og metinn út frá öðrum forsendum en hvað fyrirvera mína varðar.

Það vakti talsverða athygli þegar endurminningar Margrétar Frímannsdóttur, komu út fyrir síðustu jól. Í bókinni lýsir Margrét á eftirminnilegan hátt hvernig hún þurfti að berjast við samflokksmenn sína og hvernig í sífellu var gert lítið úr reynslu hennar og þekkingu, og hún sniðgengin í mikilvægum málum.

Þegar Margrét var þingflokksformaður var hún t.d. látin bíða frammi á gangi á meðan flokksbræður hennar ræddu hvernig lenda ætti umræðunni um EES-samninginn. Einnig lýsir hún eitruðu andrúmsloftinu á þingflokksfundum eftir að hún sigraði Steingrím J. Sigfússon í formannskosningunni árið 1995. Þrátt fyrir að vera formaður flokksins var hún hundsuð á þingflokksfundum og markvisst unnið gegn henni í ýmsum málum.

Ég er viss um að flestar konur í pólitík þekkja þann heim sem Margrét lýsir í bókinni, þótt ekki hafi allar konur orðið fyrir jafn miklu andstreymi og hún hefur bersýnilega orðið fyrir í sínum flokki.

Ég vil efast um að það sé meðvitað, en í viðureignum á hinu pólitíska sviði gerast karlmenn oft sekir um særandi ummæli í garð kvenna sem jaðra við kvenfyrirlitningu. Þannig er mér í fersku minni þegar Sighvatur Björgvinsson lét þau orð falla um Ingibjörgu Pálmadóttur, sem tók við af honum í embætti heilbrigðisráðherra, að hún væri barnaleg og reynslulaus. Hefði hann sagt þetta við karlmann í embætti ráðherra? Ég leyfi mér að efast um það. Össur Skarphéðinsson kallaði mig papparáðherra á fyrstu vikum mínum í embætti. Hefði hann haft þvílík ummæli uppi um karlmann? Næsta örugglega ekki. Einnig voru ýmsir sem höfðu uppi háðuleg orð um enskukunnáttu mína þegar ég steig mín fyrstu skref sem utanríkisráðherra. Voru slík orð höfð uppi um t.d. Davíð Oddsson á sínum tíma? Mig rekur ekki minni til þess. Góðir félagar mínir Guðni Ágústsson og Geir H. Haarde hafa látið falla miður heppileg orð um konur, og ég þykist reyndar vita að eiginkonur þeirra hafi tekið þá til bæna fyrir vikið!

Enn eitt dæmið má finna í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í febrúar síðastliðnum þar sem fjallað er um Margréti Sverrisdóttur sem unga konu sem ósanngjarnt sé að krefja svara um afstöðu til allra mála. Af hverju er ósanngjarnt að krefja konu í pólitík um afstöðu hennar til allra mála? Er endilega rétt að lýsa Margréti Sverrisdóttur sem ungri konu? Hún er fædd árið 1958 og verður því 49 ára síðar á þessu ári. Er ekki með því að kalla Margréti “unga konu” verið að draga úr reynslu hennar og gera lítið úr henni? Talaði einhver um Árna Magnússon sem “ungan mann” þegar hann tók við embætti félagsmálaráðherra 37 ára gamall? Það held ég ekki. Við viljum ekki að um okkur sé farið silkihönskum, heldur krefjumst við þess einfaldlega að við fáum sömu meðferð og karlarnir.

Annað sem konur í stjórnmálum reka sig oft á er að kerfsbundið er reynt að koma inn hjá þeim sektarkennd. Gefið er til kynna að með þátttöku í stjórnmálum séu þær að vanrækja börn sín, maka og heimili. Þetta er reyndar viðhorf sem ég held að allar konur sem hafa mörg járn í eldinum þurfi að kljást við. Samhliða störfum sínum og klifri upp metorðastigann eiga konurnar að vera frábærar eiginkonur og mæður, elda framandi og spennandi mat, líta vel út, fara reglulega í ræktina, vera vel lesnar og vel úthvíldar. Við þurfum sem sagt að vera ofurkonur!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fjallaði nýlega um samkennd kvenna á Alþingi í viðtali, þar sem hún fullyrti að konur væru tillitssamari hver við aðra, en almennt tíðkist í stjórnmálum. Ég hef áður tekið undir þessi orð Ingibjargar Sólrúnar. Við þingkonurnar deilum ákveðnum reynsluheimi og höfum þurft að kljást við líkar hindranir og viðhorf við að komast inn á þing. Kannski er það þess vegna sem við náum oft að hefja okkur upp úr skotgröfunum og sandkassanum, þótt að á hinum pólitíska vettvangi tökumst við vissulega hart á.

Það gerum við þó alltaf með virðingu fyrir andstæðingnum. Ég myndi t.d. aldrei lýsa pólitískum andstæðingi mínum sem “druslu og gungu” eins og þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni var eitt sinn lýst, eða segja andstæðingi mínum að þegja eins og Steingrímur J. Sigfússon sagði blákalt við mig í umræðuþætti í útvarpi fyrir nokkrum árum. Þá sagði sami einstaklingur við Siv Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra í spjallþætti hjá Agli Helgasyni nýverið: “Það sem Siv er að reyna að segja er... ” Það gefur augaleið að skelegg kona eins og Siv þarf enga aðstoð frá pólitískum andstæðingum sínum til að skýra sitt mál. Steingrímur J. kallar sig þessa dagana róttækan femínista.

Konur og karlar eru í pólitík á sömu forsendum. Við erum ekki úr postulíni og viljum taka á málum af alvöru og festu. Við viljum þó að okkur sé sýnd virðing -  sama virðing og karlar sýna hver öðrum.

En hvað er til ráða? Við konur eigum auðvitað ekki að sætta okkur við svona hegðun, eða að særandi ummæli séu látin falla og að aðrar og meiri kröfur séu gerðar til okkar kvenna en til karla. Við eigum að segja hingað og ekki lengra, taka höndum saman og ákveða mörkin. Við ætlum ekki að taka þátt í hanaslag, olnbogaskotum eða sandkassaleik, heldur viljum við að málin séu rædd og krufin í upplýstri umræðu. Konur þurfa að standa saman fyrir ákveðnum gildum á borð við virðingu og mannúð. Við þurfum að stuðla að því að fleiri konur komist til áhrifa í samfélaginu.

Það er mikilvægt að við höfum þetta í huga í kosninunum í vor. Framboðslistar eru að mestu leyti tilbúnir fyrir kosningarnar í vor og hefði ég viljað sjá fleiri konum þar raðað ofar á lista. Árið 1995 var hlutur kvenna á þingi aðeins fjórðungur. Í kosningunum árið 1999 jókst hlutur kvenna um tíu prósentustig og fór upp í 35%. Í kosningunum 2003 fór hlutur kvenna hins aftur niður, í rétt rúmlega 30% þó hlutfallið hafi batnað eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið og varaþingmenn tekið þar sæti. Ef við rýnum betur í kosningatölurnar frá 2003 kemur í ljós að staða kvenna er verri á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu. Í síðustu Alþingiskosningum var hlutur kvenna á Reykjavíkursvæðinu rúmlega 30% og í Suðvesturkjördæmi 55%. Á landsbyggðinni var hlutur kvenna hins vegar aðeins 20%.

Það verður spennandi að sjá hver hlutur kvenna verður í kosningunum í næsta mánuði, en því miður er útlitið ekki sérstaklega bjart. Það er þó ánægjulegt að segja frá því að nákvæmlega jafn margar konur og karlar eru í framboði fyrir Framsóknarflokkinn. Alls skipa 126 einstaklingar listana, eins og lög gera ráð fyrir, 63 karlar og 63 konur. Þrjár konur og þrír karlar leiða lista fyrir Framsókn og í fjórum efstu sætunum sitja 10 karlar og 14 konur. Þetta er jafnrétti í orði og á borði.

Fjórar konur gegna nú ráðherraembættum og er ríkisstjórn því að þriðjungi skipuð konum. Það er ekki nóg. Í raun hefur það komið í hlut okkar framsóknarmanna og kvenna að jafna kynjahlutföllin í ríkisstjórninni, en frá Framsóknarflokki sitja í ríkisstjórn þrjár konur og þrír karlar.

Við næstu ríkisstjórnarmyndun verður hlutur kvenna að vera betri en aðeins þriðjungur, eins og nú er. Þá verða þeir flokkar sem mynda munu ríkisstjórn að huga að hlut kynjanna. Einnig tel ég afar mikilvægt að konur komist til áhrifa í þeim fimm ráðuneytum þar sem kona hefur aldrei verið við stjórnvölinn.

Það er einfaldlega þannig að konur sjá hlutina stundum með öðrum augum en karlar. Það er í raun ótrúlegt að konur hafi aldrei verið við stjórnvölinn í hinum rótgrónu atvinnuvegaráðuneytum. Eru konur kannski ekki í landbúnaði eða sjávarútvegi? Sjálf er ég bóndi og tel mjög mikilvægt að landbúnaðarmálin verði skoðuð með hagsmuni kvenna, jafnt sem karla.

Hið sama á við um samgöngumálin. Konur jafnt sem karlar nota samgöngur og hafa að jafnaði aðra sýn á skipulagsmál en karlar. Konur vilja frekar þéttari byggð og blönduð hverfi. Konur vilja hagkvæmara, umhverfisvænna, öruggara og heilsusamlegra skipulag þannig að ekki þurfi að aka langar vegalengdir til vinnu, í skóla eða á dagheimili. Konur vilja ekki stórar umferðaæðar og flókin mislæg gatnamót með slaufum þvert og kruss.

Fjármálaráðuneytið hefur peningavöldin og má segja að það gagnist konum lítt að vera heilbrigðisráðherrar, félagsmálaráðherrar eða menntamálaráðherrar ef þær hafa aldrei lyklavöldin að hinum samfélagslegu gæðum. Loks hefur kona aldrei farið með völdin í sjálfu forsætisráðuneytinu og vonandi líður ekki önnur öld án þess að kona fái lyklavöldin á þeim bænum.

Nú er ég ekki að gagnrýna þá góðu karla sem sitja, eða hafa setið, sem ráðherrar í ofangreindum fimm ráðuneytum. Það er hins vegar mikilvægt að konur jafnt sem karlar skiptist á að fara með völd í hinum ólíku málaflokkum. Það er ekkert til sem heitir kvenna- og karlamálefni - harðir eða mjúkir málaflokkar.

Góðir áheyrendur,

Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar hafa karllæg gildi oft verið ríkjandi í utanríkisráðuneytinu og hefur ráðuneytið lengi vel verið mikið karlavígi. Ég geri þó ráð fyrir að það eigi eftir að breytast á næstu árum. Ef litið er á yngsta starfsfólkið í ráðuneytinu eru hlutföllin nokkuð jöfn, en konur eru 46% af sendiráðsriturum og sendiráðunautum í ráðuneytinu, sem eru fyrstu tvö þrepin í hinum diplómatíska metorðastiga. Staðan versnar vissulega eftir því sem ofar dregur í stiganum. Aðeins fimm konur gegna nú embætti sendiherra, en 31 karl. Þar erum við að vissu leyti að glíma við fortíðarvanda þar sem hér á árum áður réðust fáar konur til utanríkisþjónustunnar í fulltrúastörf.

Þær konur sem hafa hlotið sendiherranafnbót eru miklir dugnaðarforkar og hef ég gert mér far um að reyna að nýta starfskrafta þeirra sem best. Þótt fáar konur séu sendiherrar gegna þær afar ábyrgðarmiklum störfum í ráðuneytinu. Þannig gerði ég nýlega skipulagsbreytingar í ráðuneytinu og skipti starfsemi ráðuneytisins upp í tvö svið, alþjóða- og öryggissvið annars vegar og viðskiptasvið hins vegar, til viðbótar við rekstrar- og þjónustuskrifstofu. Báðum sviðunum er nú stýrt af konum og er kona auk þess staðgengill ráðuneytisstjóra.

Í dag mun ég undirrita nýja og endurskoðaða jafnréttisáætlun og fjölskylduáætlun fyrir utanríkisráðuneytið. Meðal þeirra breytinga sem koma inn með nýrri jafnréttisáætlun er að tekið er sérstaklega fram að kynin hafi jafnan rétt til töku fæðingarorlofs, samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt er tekið fram að kynin eigi sama rétt til að vera heima hjá veikum börnum sínum, innan marka gildandi reglna.

Nú er það svo að oft geta ýmsar áskoranir fylgt því að starfsmaður á fámennri starfstöð erlendis fari í fæðingarorlof. Það er þó aðeins verkefni til að ráða fram úr og fagna ég því að það hefur færst í aukana í utanríkisráðuneytinu að starfsmenn af báðum kynjum nýti sér fæðingarorlof sitt. Það er mikilvægt jafnréttismál að karlar og konur taki jafna ábyrgð í uppeldi barna og mikilvægt fyrir framgöngu kvenna í utanríkisþjónustunni að kynin axli þar jafna ábyrgð.

Dömur mínar og herrar – eða ætti ég kannski að segja: “Herrar mínir og dömur”?

Það er verðugt rannsóknarefni að skoða hvaða ástæður liggja að baki því að konur hafa ekki átt auðvelt uppdráttar í íslenskri pólitík, sem og hvaða hindranir standi í vegi fyrir konum í viðskipta- og atvinnulífi. Hér á Akureyri eru kjöraðstæður til að stunda slíkar rannsóknir. Hér er Jafnréttisstofa staðsett á háskólasvæðinu og hér eru nýjar og spennandi námsgreinar á borð við nútímafræði, þjóðfélagsfræði og samfélags- og hagþróunarfræði kenndar í bland við eldri og rótgrónari fræði. Sá heimur sem konur í stjórnmálum þurfa að kljást við er verðugt rannsóknarefni og ég myndi gera það sem í mínu valdi stendur til að styrkja slíkt rannsóknarstarf hér við skólann.

Við stöndum frammi fyrir stóru verkefni - að jafna rétt kynjanna því að víða er enn pottur brotinn. Ég trúi því þó að við séum á réttri leið og að jafnræði milli kynjanna muni aukast þannig að konur verði í framtíðinni í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum til jafns við karla og að kynin axli saman ábyrgð á börnum og fjölskyldulífi. Jafnrétti er eilífðarverkefni sem alltaf þarf að hlúa að. Það þýðir ekki að láta deigan síga og segja að jafnrétti muni koma að sjálfu sér. Þetta er verkefni sem kynin verða að takast á við í sameiningu. Jafnréttismál er ekki bara mál kvenna heldur samfélagsins alls.

Konum og körlum er stundum stillt upp sem andstæðum pólum. Konur eru þá sagðar vera frá Venus og karlar frá Mars. Stundum eru karlar sagðir stunda aðgerðapólitík og konur samræðupólitík. Auðvitað er aldrei hægt að alhæfa um kynin þar sem einstaklingar eru jafn ólíkir og þeir eru margir.

Kyn er þó vissulega eitt af því sem hefur áhrif á hvernig við sjáum og upplifum hlutina sem einstaklingar. Kynin hafa ólíka kosti og þurfum við á verðleikum bæði kvenna og karla að halda. Það verða að vera átök eða samræður á milli gilda karla og kvenna, því þannig vegum við hvort annað upp. Eins og í góðu hjónabandi, þar sem hjón taka sameiginlegar ákvarðanir um rekstur heimilisins, þurfa bæði kynin að koma í sameiningu að stjórnun landsins og rekstri þjóðarbúsins. Fuglinn þarf tvo vængi til að fljúga og ná til efstu hæða. Það sama á við um hag Íslands. Til að hann sé sem vænstur þurfa konur og karlar til jafns að standa í brúnni.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum