Hoppa yfir valmynd
7. mars 2007 Utanríkisráðuneytið

Ársfundur Útflutningsráðs Íslands

Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra

á ársfundi Útflutningsráðs Íslands

Góðir fundarmenn,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þennan ársfund Útflutningsráðs. Ég vil jafnframt fagna því að Útflutningráð hafi í dag ákveðið að beina athyglinni að listum og ímynd þjóða og það verður athyglisvert að heyra hvað fyrirlesarar dagsins hafa að segja um þetta mikilvæga málefni.

Ímynd Íslands hefur verið í brennidepli undanfarið, nú síðast á Viðskiptaþingi í síðasta mánuði. Að undanförnu höfum við Íslendingar orðið meðvitaðri um hversu mikilvæg auðlind ímynd okkar á alþjóðavettvangi getur verið. En við getum ekki gengið að jákvæðri ímynd okkar sem sjálfsögðum hlut. Við getum heldur ekki gengið að því vísu að aðrar þjóðir upplifi okkur á sama hátt og við sjálf. Að byggja upp jákvæða og sterka ímynd kallar á þrotlausa vinnu, mikla útsjónarsemi og ríka þolinmæði.

En hvaða ímynd viljum við Íslendingar hafa á alþjóðavettvangi? Oft hefur borið á því í umræðum um árangur af útrás íslenskra fyrirtækja að gripið sé til alþekktra staðalmynda af okkur Íslendingum sem ljóshærðum víkingum sem fullir sjálfstrausts og með vænan skammt af óskammfeilni hafa gert strandhögg í viðskiptalífi stærri nágrannaþjóða okkar. Slíkar staðalmyndir eru vissulega skemmtilegar og geta jafnvel verið til nokkurs gagns. Ég held þó að í þeim felist í besta falli aðeins lítið brot af sannleikanum og þeirri ímynd sem við Íslendingar viljum að aðrir hafi af okkur. Ég held að við Íslendingar viljum umfram allt hafa þá ímynd að hér búi velmenntuð og víðsýn þjóð sem státi af öflugu menningarlífi, ríkri menningararfleifð og fögru umhverfi; þjóð sem skapað hefur kraftmikið samfélag sem einkennist af velmegun og jöfnuði.

Ég er sannfærð um að við Íslendingar höfum öll tækifæri til þess að skapa okkur slíka ímynd. Hér njótum við meðal annars þess að við erum Norðurlandaþjóð og almennt má segja að Norðurlöndin hafi tekist að skapa sér mjög sterka ímynd. En við verðum jafnframt að gera okkur grein fyrir því að þessi ímynd kemur ekki af sjálfri sér, heldur verðum við að vinna með skipulögðum hætti við að byggja hana upp. Það kallar á samhent átak hins opinbera og atvinnulífsins og í þeim efnum hlýtur Útflutningsráð einmitt að gegna lykilhlutverki.

Lista- og menningarlíf þjóðarinnar er ákaflega mikilvægur þáttur í ímynd okkar. Við Íslendingar eigum listafólk í fremstu röð á sviði myndlistar, bókmennta, leiklistar, kvikmyndagerðar og tónlistar. Sú hugmyndaauðgi og frjósemi sem einkennt hefur íslenska samtímamenningu hefur sannarlega styrkt ímynd Íslands. Raunar hefur menning okkar þjóðar verið útflutningsvara um nokkurt skeið. Þannig tölum við oft um að okkar góða listafólk beri út hróður Íslands. Upphaflega merkir orðið hróður einmitt lofkvæði. Má ekki segja að íslensku skáldin sem fluttu erlendum höfðingjum lofkvæði hafi orðið fyrst til að gera íslenska menningu að útflutningsvöru? Og íslensku listafólki hefur sannarlega tekist að bera hróður Íslands út fyrir landsteinanna. Við eigum að taka höndum saman við að styðja við bakið á þeim í þeirri viðleitni að breiða út listsköpun sína.

Utanríkisþjónustan hefur löngum gegnt mikilvægu hlutverki við að koma íslenskri menningu og listum á framfæri á erlendri grundu. Að jafnaði hefur ekki verið úr miklum fjármunum að spila en dugnaður, hugmyndaauðgi og áræði okkar ágæta starfsfólks í sendiráðum Íslands erlendis vil ég meina að hafi verið til fyrirmyndar í þessum efnum. En sá árangur sem utanríkisþjónustan hefur náð í þessu tilliti má einnig að miklu leyti þakka góðu samstarfi utanríkisþjónustunnar og íslenskra fyrirtækja, sem margsinnis hafa verið boðin og búin til að styrkja og styðja við verkefni af þessu tagi. Sérstaklega hefur orðið aukning á þessu sviði að undanförnu, enda eru fyrirtækin sífellt meðvitaðari um mikilvægi þess fyrir jákvæða ímynd sína að styðja við menningu og listir. Samstarf af þessu tagi er því allra hagur og ég vil nota þetta tækifæri hér og nú til þess að þakka fyrir þann rausnarskap sem atvinnulífið hefur sýnt í þessum efnum.

En við höfum jafnframt metnað til þess að styðja enn betur við íslenskt listafólk á erlendri grundu. Með það í huga undirrituðum við menntamálaráðherra sérstakt samkomulag um samstarf utanríkisráðuneytis og menntamálaráðuneytis á sviði menningarmála. Í því felst að ráðuneytin munu marka stefnu á þessu sviði, sem meðal annars á að taka mið af því að efla áhuga erlendis á íslenskri list og menningu, auka möguleika og áhrif íslenskra listamanna á alþjóðlegum vettvangi, bæta menningarímynd Íslands og auka gagnkvæm menningarsamskipti við önnur lönd og menningarsvæði. Til að ná þessum markmiðum munu bæði ráðuneytin leggja fé af mörkum til þessa verkefnis þegar á þessu ári. Jafnframt er stefnt að því að auka fjárframlögin í áföngum á næstu árum. Ráðuneytin skipa jafnframt fulltrúa í sérstakan samráðshóp sem mun funda reglulega til þess að marka stefnu og ákveða hvaða verkefni verða styrkt. Ég vil jafnframt segja að ég vonast til þess að samstarf stjórnvalda og atvinnulífs á þessu sviði muni eflast enn frekar á komandi árum.

En samstarf atvinnulífsins og hins opinbera getur skilað markverðum árangri á fleiri sviðum. Síðastliðinn fimmtudag kom ég aftur heim eftir tíu daga ferð til Úganda og Suður-Afríku. Þar sá ég með eigin augum hversu mikilvægt framlag okkar á sviði þróunarmála er.

Í þeim efnum hefur orðið mikil breyting á síðustu árum. Ríkisstjórnin stefnir að því að framlag okkar Íslendinga til þróunarsamvinnu muni nema 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2009. Okkar miðar vel áfram við að ná þessu markmiði. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2007 mun framlag okkar til þróunarmála nema um 3,2 milljörðum króna, sem er um 0,27% af vergum þjóðartekjum okkar. En það er jafnframt ánægjulegt að merkja má ákveðna viðhorfsbreytingu á meðal þjóðarinnar þegar kemur að þróunarmálum. Einstaklingar og fyrirtæki leggja nú sífellt meira til hjálparstarfs og íslensk félagasamtök vinna afar gott starf í mörgum þróunarlöndum.

En við getum og eigum að gera betur. Milljónir manna um allan heim búa við sáran skort á nauðsynjum. Við Íslendingar eigum að sjá sóma okkar í að leggja okkar af mörkum til þess að bæta hag þessa fólks. En ég sé einnig fyrir mér að atvinnulífið, frjáls félagasamtök og hið opinbera geti í auknu mæli tekið höndum saman. Slíkt gæti orðið til þess að skjóta sterkari stoðum undir það góða starf sem nú þegar er verið að vinna á þessu sviði og ég hyggst beita mér fyrir því að svo verði.

Í þessu samhengi vil ég einnig nefna að ímynd þjóða ræðst ekki einvörðungu af því hversu frambærilegum listamönnum eða frammúrskarandi fyrirtækjum þau eiga að skipa. Ég nefndi hér að framan að sterk ímynd Norðurlandanna auðveldar okkur Íslendingum að efla okkar eigin ímynd. En í því samhengi er rétt að minna á að ein helsta orsök þess að Norðurlöndin hafa skapað sér sterka ímynd á alþjóðavettvangi er sú að þau hafa verið í fararbroddi þjóða heims á sviði þróunarmála, friðargæslu og mannúðarmála. Það góða starf sem Norðurlöndin hafa unnið af hendi hefur orðið til þess að þau njóta trausts á alþjóðavettvangi og iðulega er leitað til þeirra þegar inna þarf af hendi vandasöm og krefjandi verkefni. Stundum er þeim sjónarmiðum haldið fram í opinberri umræðu hér á landi að við Íslendingar eigum að halda okkur til hlés í alþjóðlegu samstarfi. En staðreyndin er sú að ímynd laumufarþeganna í alþjóðlegu samstarfi er sjaldan jákvæð, á meðan þau ríki sem eru tilbúin til þess að leggja sitt af mörkum uppskera jákvæðari og sterkari ímynd. Virk þátttaka Íslands í alþjóðlegu samstarfi, þar sem við Íslendingar höldum á lofti þeim gildum sem íslenskt samfélag byggir á - gildum mannúðar, lýðræðis, jafnréttis og virðingar fyrir mannréttindum - er þess vegna mikilvægur þáttur í að styrkja ímynd Íslands.

Að undanförnu hafa heyrst þær raddir úr viðskiptalífinu að hvalveiðar Íslendinga kynnu að skaða ímynd Íslands. Ég hef áður sagt að ég telji að stjórnvöld verði að hlusta gaumgæfilega á varnaðarorð af þessu tagi. Þess vegna tel ég rétt að áður en ákvarðanir verði teknar um framhald hvalveiða, sérstaklega á stórhvelum, verði áhrif þeirra á ímynd Íslands og íslenska viðskiptahagsmuni skoðuð vandlega. Jafnframt verði náið samráð haft við atvinnulífið um næstu skref í þessum efnum. Góð ímynd Íslands er ekki einkamál þeirra fyrirtækja sem eru í útrás eða sinna ferðaþjónustu, heldur sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Ég er raunar sannfærð um að það muni ráða miklu um lífskjör okkar í framtíðinni hvort okkur muni auðnast að skapa Íslandi sterka og jákvæða ímynd.

Góðir fundarmenn,

Í störfum mínum í utanríkisráðuneytinu hef ég styrkst í þeirri skoðun að ríkisvaldið getur gert enn betur í því að samhæfa og samræma starf sitt á vettvangi útflutningsaðstoðar, ímyndar landsins, ferðamála og alhliða upplýsingagjafar. Líklega eru atburðir síðasta árs, þegar um tíma leit út fyrir að ímynd Íslands gæti beðið hnekki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, eitt besta dæmið um þetta. Til allrar hamingju tókst með samstilltu átaki að vinda ofan af mörgum þeirra rangfærslna sem haldið var fram í erlendum fjölmiðlum um íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Eigi að síður sýnir þetta dæmi í hnotskurn að við getum gert enn betur í að samhæfa starf allra þeirra sem vinna að því að gæta að ímynd Íslands erlendis.

Í þeim efnum tel ég að við sem störfum á vettvangi hins opinbera hljótum að spyrja okkur hvort ekki sé tímabært að endurskipuleggja í heild sinni hvernig sinna eigi útflutningsaðstoð, menningarútrás og markaðs- og ímyndarmálum Íslands. Slíkt mætti mögulega tengja hugmyndum um endurskipulagningu á Stjórnarráði Íslands og verkaskiptingu ráðuneyta. Þannig tel ég að við hljótum að taka það til íhugunar hvort ekki mætti sameina á einni hendi t.a.m. starf Útflutningsráðs, Ferðamálastofu, viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og fyrrgreint menningarsamstarf utanríkis- og menntamálaráðuneyta.

Ég vil leggja ríka áherslu á að í þessari hugmynd er með engu móti falin gagnrýni á starf þeirra sem nú sinna útflutningsaðstoð, menningarútrás og markaðs- og ímyndarmálum Íslands. Öðru nær, sá árangur sem þessir aðilar hafa náð á undanförnum árum er til vitnis um hverju við getum áorkað við að greiða götu íslensks atvinnulífs og íslenskra listamanna. En dæmin sanna jafnframt að við getum skyndilega staðið frammi fyrir aðstæðum sem kunna að tefla ímynd Íslands í tvísýnu. Slík staða kallar á fumlaus viðbrögð og náið samráð allra hlutaðeigandi aðila. Við hljótum því að spyrja hvort að núverandi skipan mála sé sú sem best er til þess fallin að ná settum árangri.

Góðir fundarmenn,

Ég veit að enginn sem hér er staddur velkist í nokkrum vafa um hversu mikilvægt það er fyrir Ísland að skapa sér jákvæða og trausta ímynd. Ég vil því hvetja alla þá sem starfa að ímyndarmálum Íslands, þar með talin stjórnvöld, viðskiptalífið og listafólk, að taka höndum saman og styðja við bak hvers annars í þeirri viðleitni að skapa öfluga og jákvæða ímynd af Íslandi. Í því ljósi er viðfangsefni þessa fundar afar mikilvægt og ég vona að þið munið eiga árangursríkan og ánægjulegan dag.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum