Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2007 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra á aðalfundi FÍS

Ágætu stórkaupmenn og aðrir áheyrendur,

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa aðalfund ykkar hér í dag. Félag íslenskra stórkaupmanna er gamall og rótgróinn félagsskapur, sem fagna mun 80 ára afmæli sínu á næsta ári. Þið eruð því litlu yngri en Framsóknarflokkurinn, sem fagnaði 90 ára afmæli sínu á síðasta ári.

Þessi félagsskapur á sér sterkar rætur í íslensku viðskiptalífi og íslenskir stórkaupmenn hafa sannarlega tekið þátt í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum. Við höfum horfið frá því samfélagi hafta og hamla sem áður einkenndi íslenskt þjóðfélag. EES-samningurinn, aðild okkar að Alþjóða­viðskiptastofnuninni og hið sífellt stækkandi net fríverslunarsamninga okkar við ríki utan EES hafa orðið til þess að Ísland telst nú á meðal opnustu hagkerfa veraldar. Á sama tíma hefur kaupmáttur almennings aukist svo mjög að í raun má tala um lífskjarabyltingu í þeim efnum. Þessar miklu breytingar hafa skapað íslensku atvinnulífi fjölmörg ný og spennandi tækifæri og íslenskir stórkaupmenn hafa sannarlega ekki farið varhluta af þeim.

Vitaskuld hafa sumir sýnt meiri útsjónarsemi í að nýta sér þessi tækifæri en aðrir - og uppskorið eftir því. Mörg íslenskt fyrirtæki hafa náð framúrskarandi árangri á síðustu árum og margir Íslendingar hafa safnað meiri auði en áður eru dæmi um í Íslandssögunni. Í mínum huga er það alltaf fagnaðarefni þegar Íslendingar ná góðum árangri og góður árangur á viðskiptasviðinu er þar síst undanskilinn. En á sama tíma verðum við að undirstrika að velgengni fylgir líka ábyrgð. Við eigum að gera þá kröfu til þeirra einstaklinga sem komist hafa í miklar álnir að þeir sýni ábyrgð gagnvart samfélaginu og láti gott af sér leiða.

Í mínum huga felst samfélagsleg skylda fyrirtækja hins vegar ekki aðeins í því að leggja góðum málstað lið. Ég aðhyllist sjónarmið samvinnu og hef ekki kvikað frá þeirri sannfærinu minni að fyrirtækin í landinu mega ekki einblína um of á skammtímagróða, heldur á samfélagið allt heimtingu á að þau sýni ábyrgð í gjörðum sínum. Síðustu daga hefur kastljósið einmitt beinst að birgjum og heildsölum þar sem ýmsar upplýsingar benda til þess að birgjar hafi hækkað verðlag sitt. Vitanlega verða allir hlutaðeigandi að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að lækkuðu matvælaverði og berjast gegn verðbólgunni og ég hlýt að vekja heildsala og birgja til umhugsunar um ábyrgð þeirra.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við höfum að undanförnu skapað allar forsendur til þess að stuðla að lækkuðu vöruverði hér á Íslandi. Þar vegur þungt hið víðtæka net fríverslunarsamninga sem við Íslendingar höfum tryggt okkur á undanförnum árum. Raunar er vandfundin sú þjóð sem býr við víðtækara net fríverslunarsamninga en Ísland. Nýlega luku EFTA-ríkin við gerð fríverslunarsamnings við Egyptaland og við erum vongóð um að EFTA takist að ljúka samningaviðræðum við Kanada á næstunni. Innan skamms munum við hefja formlegar samningaviðræður við Kína, en Ísland er fyrsta Evrópuríkið sem Kína hefur eiginlegar fríverslunarviðræður við. Þá er skemmst að minnast Hoyvíkur-samningsins við Færeyjar, sem er víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert. Einnig hafa EFTA-ríkin og Indland ákveðið að hefja könnun á hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning milli EFTA og Indlands. Í raun þýðir þetta að fríverslunarnet okkar gæti innan fárra ára náð til helming alls mannkyns.

Stundum hefur heyrst sú gagnrýni að EFTA-ríkin geri fríverslunarsamninga við ríki sem Ísland hafi lítil sem engin viðskipti við. Nú á ég bágt með að trúa að íslenskt viðskiptalíf sjái ekki þau tækifæri sem fólgin eru í nánari viðskiptatengslum við Kína eða Indland. Það má hins vegar vissulega til sanns vegar færa að viðskiptin hafa ekki alltaf verið mikil við sum þeirra ríkja sem við höfum í sameiningu við hin EFTA-ríkin gert fríverslunarsamninga við. En hér verða menn að átta sig á því að fríverslunarsamningar þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að skapa tækifæri fyrir aukin viðskipti. Það er svo í höndum fyrirtækjanna að meta hvort og hvernig megi nýta þau tækifæri. Viðskipti okkar við Egyptaland hafa til dæmis verið hverfandi, en nýgerður fríverslunarsamningur gæti orðið Íslendingum hvatning til þess að sækja þangað beint, til dæmis eftir grænmeti og ávöxtum sem hingað til hafa mögulega fengist dýrari annars staðar frá.

Það kann að koma ýmsum á óvart en staðreyndin er sú að tollar á landbúnaðarvörur eru hér almennt lágir. Það kann að koma mörgum ykkar á óvart, en raunin er sú að í þeim fríverslunarviðræðum sem EFTA-ríkin hafa átt við ríki utan EES hefur íslenska landbúnaðarkerfið aldrei reynst verulegur ásteytingarsteinn. Með öðrum orðum, sú staðreynd að við höfum viljað styðja við íslenskan landbúnað hefur ekki reynst okkur fótakefli þegar við höfum samið um aukna fríverslun við aðrar þjóðir.

En þrátt fyrir að tollar séu hér almennt lágir verður hið sama ekki endilega sagt um önnur opinber gjöld sem lögð eru á vörur. Í því samhengi nefni ég sérstaklega vörugjöldin, sem ég tel reyndar úr sér gengin og hljóta að verða næsta verkefni stjórnvalda að taka til algerrar endurskoðunar. Afnám vörugjalda á matvörur, aðrar en sætindi og sykurdrykki nú um næstu mánaðarmót, met ég sem upphafið á þeirri vegferð.

Góðir fundarmenn,

Þeir viðskiptasamningar sem íslensk stjórnvöld hafa gert við önnur ríki á undanförnum árum hafa gert íslensku viðskiptalífi kleift að taka virkan þátt í alþjóðavæðingunni. En þó að aukin alþjóðaviðskipti séu vissulega á meðal helstu drifkrafta alþjóðavæðingarinnar, megum við ekki horfa á alþjóðavæðinguna eingöngu út frá sjónarhorni viðskiptanna.

Á undanförnum árum hefur orðið stóraukin umræða um umhverfismál hér á landi, sem er mikið fagnaðarefni. En stundum hefur umræðan hér á Íslandi um loftslagsmálefni þróast á fremur undarlegar brautir. Af umræðunni hér mætti jafnvel stundum halda að bygging álvera á Íslandi sé helsta ástæðan fyrir hlýnun loftslags. Vitaskuld er það fjarri sanni. Raunar stafar fremur lítil mengun frá álverum í samanburði við flesta aðra stóriðju. Við Íslendingar eigum kannski erfitt með að trúa því, en erlendis er það í raun raforkuframleiðslan sem er víða stærsti mengunarvaldurinn. Raforkuframleiðsla flestra Evrópuþjóða er þannig háð notkun jarðefnaeldsneytis á borð við kol, gas eða olíu. Staðreyndin er því sú við Íslendingar erum í hópi þeirra fáu þjóða sem búa við þá gæfu að eiga gnægð hreinna orkugjafa.

En þessari gæfu hlýtur einnig að fylgja ábyrgð. Við getum ekki litið framhjá hlýnun loftslags og látið sem hún komi okkur ekki við. Á okkur hlýtur að hvíla sú ábyrgð að reyna að finna leiðir til að nýta þær hreinu orkuauðlindir sem við búum við á þann hátt sem koma mannkyninu öllu til góða. Annars værum við að víkjast undan þeirri skyldu að leggja okkar af mörkum til þess að leysa þennan hnattræna vanda.

Íslensk náttúra er svo sannarlega einstök og okkur ber skylda til að vernda hana eins og unnt er. Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmálamanna á næstu árum hlýtur að verða að finna leiðir til þess að sætta náttúruverndar- og nýtingarsjónarmið. Slík sátt má hins vegar ekki aðeins vera á forsendum höfuðborgarsvæðisins, eins og mér hefur stundum þótt brenna við, heldur verður hún að taka fullt tillit til sjónarmiða landsbyggðarinnar. Íbúar á landsbyggðinni eiga einfaldlega skilið þá virðingu að þeir sem andmælt hafa virkjunar- og álversframkvæmdum leggi fram raunhæfar tillögur um hvernig laða megi að fjárfestingu og atvinnu í hinar dreifðu byggðir. Hér duga ekki hástemmdar en innantómar yfirlýsingar. Framkvæmdir við byggingu skýjaborga stuðla ekki að hagvexti og veita engum atvinnu.

Góðir fundarmenn,

Fyrir fáeinum árum var sjávarútvegurinn í raun eina stoðin sem íslenskt atvinnulíf hvíldi á. Á undanförnum árum hefur okkur tekist skjóta fleiri styrkum stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Orkuframleiðsla og stóriðja eru á meðal þessara stoða, að ógleymdum vexti og útrás íslenskra fyrirtækja, ekki síst fjármálafyrirtækjanna, sem skapað hafa mikil verðmæti og mörg vel launuð störf. Við erum því ekki lengur með öll eggin í sömu körfunni.

En þrátt fyrir að stoðunum hafi fjölgað þá hefur sú staðreynd ekki breyst að við Íslendingar erum flestum öðrum þjóðum háðari viðskiptum við útlönd. Ásýnd Íslands og ímynd á alþjóðavettvangi skiptir því sífellt meira máli fyrir íslenska hagsmuni og íslenskt viðskiptalíf. Það þekkið þið eflaust af eigin raun.

En ímyndin er vandmeðfarin. Það tekur langan tíma og þolinmæði að byggja upp jákvæða ímynd, en það má á stuttum tíma skapa sér neikvæða ímynd. Þetta þekkjum við líka úr pólitíkinni. Við þurfum því að sýna sérstaka aðgát þegar kemur að þeim málum sem geta haft áhrif á ímynd Íslands. Hvalveiðar eru gott dæmi um það. Þó ég sé sannfærð um réttmæti málstaðar okkar í hvalveiðimálum getum við ekki skellt skollaeyrum við varnaðarorðum þeirra sem varað hafa við neikvæðum áhrifum hvalveiða á íslenska viðskiptahagsmuni. Að sjálfsögðu munu stjórnvöld fara vandlega yfir hvaða áhrif hvalveiðar geta haft á ímynd Íslands og íslenska viðskiptahagsmuni áður en ákvörðun verður tekin um frekari stórhvalaveiðar á þessu ári. Sterk og öflug ímynd Íslands getur orðin ein of okkar dýrmætustu auðlindum í framtíðinni. En við verðum að fara varlega í umgengni okkar við þessa auðlind eins og aðrar auðlindir okkar.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum