Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2006 Utanríkisráðuneytið

Málþing um samskipti Íslands og Evrópu

Kæru málþingsgestir og fyrirlesarar,

Ég vil í upphafi þessa málþings fagna því frumkvæði Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands að efna til þessarar málstofu um samskipti Íslands og Evrópu, en vandaða og fordómalausa umræðu um þetta mikilvæga málefni tel ég afar mikilvæga.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að leiða umræður, jafnframt því að veita gagnrýnið aðhald þar sem þurfa þykir, en láta ekki skoðanir okkar sveiflast eftir dægurmálaumræðunni og skoðanakönnunum hverju sinni.

Háskólasamfélagið veitir okkur bæði aðhald og stuðning til þessa. Það er mikilvægt að báðir þessir hópar fari vel með það kennivald sem þeir hafa og stuðli að upplýstri og yfirvegaðri umræðu um mikilsverð samfélagsleg málefni, en láti kreddur og utanaðkomandi þrýsting lönd og leið.  

Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að við nálgumst Evrópuumræðuna út frá mörgum sjónarhornum, rétt eins og gert er á þessari ráðstefnu. Ekki út frá einstökum fræðigreinum - heldur flóru þeirra; og ekki út frá hagsmunum einstakra atvinnugreina eða þjóðfélagshópa - heldur út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Við erum Evrópuþjóð, eigum sögulega og menningarlega samleið með Evrópu, og langstærstur hluti viðskipta okkar er við Evrópuþjóðir. Vegna þessara nánu tengsla við Evrópu ákvað Ísland árið 1994, ásamt öðrum EFTA-ríkjum, að gerast þátttakandi í Evrópusamrunanum, þó með þeim hætti að við stæðum áfram lögformlega utan Evrópusambandsins.  

Nú, tæpum þrettán árum síðar, er svo komið að tíu nýjar þjóðir í austan- og sunnanverðri Evrópu hafa ákveðið að ganga inn í ESB, auk Rúmeníu og Búlgaríu, sem verða aðilar í upphafi nýs árs. EFTA-ríkið Sviss hefur markvisst styrkt tengsl sín við ESB með tvíhliða samningum, en eins og við munum höfnuðu Svisslendingar EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hafa Ísland og Noregur að fullu tekið þátt í Schengen-samstarfinu, á meðan sumar Evrópuþjóðir sitja að hluta til hjá á þeim vettvangi. Loks má bæta því við að nokkur aðildarríki ESB hafa hafnað upptöku evru á sama tíma og ýmsir aðilar hér á landi hafa viljað kanna upptöku hennar.

Því má segja að sum ríki, sem standa utan ESB, taki þátt með nánari og dýpri hætti í ESB samstarfinu en önnur sem eru fullgildir aðilar að sambandinu. 

Ég nefni þetta hér þar sem mér finnst umræðan um þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum einskorðast um of við lögformleg samningstengl okkar við ESB án þess að skyggnst sé undir yfirborðið og litið á hið raunverulega samstarf.

Ég tel að það sé afar mikilvægt að við áttum okkur á því að Ísland hefur tekið stór skref í Evrópusamrunanum - skref sem hafa haft mikil og margvísleg áhrif á íslenskt samfélag. Kjósi Ísland í framtíðinni að gerast aðili að Evrópusambandinu tel ég að slíkt skref, án þess að gera lítið úr því, hafi minni áhrif á daglegt líf Íslendinga en stökkið sem tekið var við aðildina að EES, jafnvel þótt að hin lögformlega breyting yrði vafalaust meiri.  

Góðir gestir, 

Ég held að það sé óþarft að fjölyrða um þau jákvæðu áhrif sem EES-samningurinn hefur haft á íslenskt samfélag og viðskiptalíf. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig íslenskt athafnafólk hefur fagnandi tekið nýjum tækifærum og nýtt sér þau til hins ítrasta. Þó verður að hafa hugfast að samningurinn veitti okkur tækifæri sem einnig hefði verið hægt að glutra niður. Ef ekki hefði einnig komið til stefnufesta ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, umfangsmikið einkavæðingarferli, skattalækkanir og mikilvægar breytingar á lífeyrisskerfinu hefði útkoman eflaust orðið önnur.  Veldur hver á heldur.

Þá tel ég ekki síður mikilvægt að gefa gaum þeirri hugarfarsbreytingu, sem átt hefur sér stað á liðnum árum. Okkur hefur vaxið ásmegin og við höfum öðlast aukna trú á sjálfum okkur. Við erum stolt af því að vera Íslendingar og stöndum keikari en nokkru sinni fyrr á alþjóðavettvangi. Aukin tengsl og samgangur við nágranna okkar á öllum sviðum hefur þroskað okkur, bæði sem einstaklinga og þjóð - ekki einungis í viðskiptalífinu, heldur einnig á sviði menningar, mennta, vísinda, lista og stjórnmála, svo dæmi séu tekin. 

Orðræðan er að breytast. Sleggjudómar eru fátíðari og hnútukastið hefur minnkað. Í frumbernsku EES töluðu stjórnmálamenn um að Þjóðverjar myndu kaupa alla banka, flestar jarðir og stærstu matvöruverslanir í landinu. Útnárinn Ísland hyrfi í hendur erlendra auðhringa á augabragði og ódýrt vinnuafl svipti landann atvinnu sinni. Samningurinn myndi mögulega opna þeim dyr sem ætluðu að flytjast til Evrópu, en hann yrði til óheilla fyrir marga þá sem eftir sætu og ætluðu „að vera Íslendingar áfram“ eins og sumir orðuðu það. Jafnvel var rætt um að samningurinn væri kvenfjandsamlegur þar sem einkum karlmenn nýttu sér reglur samningsins um frjálsa för launþega á sama tíma og eiginkonur þeirra væru fastar í „gettóum farandverkamanna“. Aðrir töldu að fátækt og auðnuleysi myndu steypast yfir Íslendinga og einhverjir að þjóðin myndi glata tungu sinni, menningu og sjálfstæði á örskömmum tíma. Þeir sem gengu lengst töluðu um svik og landráð og svona í lokin má geta þess að við samþykkt EES-samningsins á Alþingi voru þau orð látin falla að þar sem „danskur maður“ færi með æðstu völd í EB værum við „óbeint komin undir þeirra yfirráð á ný“.

Þó að einhverjir eigi eflaust erfitt með að varast brosi þá dettur mér ekki til hugar að gera lítið úr því fólki sem lét þessi orð falla. Sjálf sat ég hjá við afgreiðslu EES-samningsins, reyndar í stjórnarandstöðu.

Það eina sem ég vil draga fram með þessari upprifjun orðræðunnar er að ég er þess fullviss að flestum þætti umræða af þessu tagi sérkennileg í dag.

Góðir gestir,

Yfirveguð og málefnaleg viðbrögð allra málsmetandi stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna við nýlegu upphlaupi þingmanns Frjálslynda flokksins um innflytjendur er skýrt dæmi um hversu mörg skref okkur hefur auðnast að stíga á þessari þroskabraut okkar í samskiptum við aðrar þjóðir.

Svipaða sögu er að hægt segja af þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu. Á upphafsdögum þess snérist öll umræða um vegabréfaleysi, biðraðir á flugvöllum og það hversu mikið breytingar og stækkanir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar myndu kosta.

Í þeirri baráttu sem við heyjum á degi hverjum í glímunni við alþjóðlega glæpahringi, mansal og fíkniefnasmygl leikur Schengen-samstarfið lykilhlutverk og það hefur sennilega aldrei haft meira vægi fyrir Ísland en einmitt nú. Þá tel ég einsýnt að þær breytingar sem orðið hafa á varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna við brottför varnarliðsins muni færa okkur nær frændum okkar á Norðurlöndunum og öðrum Evrópuríkjum.

Og auðvitað hljóta spurningar að vakna þegar hver áhrifamaðurinn af öðrum í viðskiptalífinu lýsir áhyggjum af sveiflum íslensku krónunnar og þau neikvæðu áhrif sem þeim fylgja.

Góðir gestir,

Framsóknarflokkurinn hefur á síðustu árum verið í fararbroddi fyrir opinni umræðu um Evrópumál og freistað þess að stuðla að fordómalausum skoðanaskiptum um þær leiðir sem færar eru í samstarfi Íslands og Evrópusambandsins.

Að sama skapi og íslenskar eiginkonur létu ekki þrengja að sér í evrópskum farandverkamannagettóum megum við Íslendingar ekki festast í gettói hugarfarsins.

Við megum til að mynda ekki láta heimatilbúna aðildarskilmála ráða ferðinni. Við værum enn í Kaupmannahöfn að ræða um sambandsslit ef við hefðum nálgast hlutina á þann hátt. Minnimáttarkennd er ekki stíll okkar Íslendinga.

Við eigum að taka virkari þátt í Evrópusamvinnunni og hafa meira um örlög okkar að segja. Við höfum margt fram að færa og Evrópa getur lært af okkur á ýmsum sviðum. Við höfum byggt upp eitt sterkasta lífeyrissjóðakerfi álfunnar á örfáum áratugum, göngum vel um auðlindir og nytjastofna hafsins og erum til fyrirmyndar í umhverfismálum, svo nokkur dæmi séu tekin. Við eigum að koma íslenska módelinu á framfæri og hafa þannig áhrif á mótun álfunnar sem við búum í.

Hvort sem við gerum það innan eða utan Evrópusambandsins verður að koma í ljós en ákvörðun um aðild tökum við að sjálfsögðu á okkar forsendum þegar og ef við kjósum.

Við erum á góðri leið með að breyta fálmkenndum upphrópunum um Evrópumál í yfirvegaðar samræður. Þessi ráðstefna hér í dag mun efalítið stuðla enn frekar að upplýstri, ígrundaðri og fordómalausri Evrópuumræðu.

Ég lýsi nú ráðstefnuna hér með setta.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum