Hoppa yfir valmynd
30. október 2006 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra á fundi Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands

Kæru ráðstefnugestir og fyrirlesarar,

Doctor Zafaar Adeel, Welcome to Iceland. It is a pleasure to have you here.

Mér er það sönn ánægja, ekki síst sem ráðherra þróunarsamvinnu, að fá að hitta ykkur í upphafi þessa fundar, þar sem þið fjallið um eyðimerkurmyndun heimsins og keðjuverkun hennar á loftslag, lífríki, mannlíf og fæðuöryggi þjóða heims.

Baráttan við auðnina hefur verið ein helsta barátta Íslendinga í meira en þúsund ár og fyrir eitt hundrað árum sýndu Íslendingar þá framsýni að setja lög um landgræðslu, hugsanlega elstu lög af því tagi í heiminum, að því mér er sagt.

Hundrað ára starf íslenskra landgræðslumanna hefur skilað árangri sem eftir er tekið um allan heim. Við höfum aflað okkur reynslu og dýrmætrar þekkingar og eignast frábæra vísindamenn á sviði landbóta og endurheimtar jarðvegs.

Mörg þróunarlönd glíma við svipaðan vanda. Jarðvegur er undirstaða fæðuöflunar og endurheimt jarðvegs er víða um heim forsenda fyrir baráttu þessara ríkja gegn fátækt og hungri.

Jarðvegseyðing er vaxandi vandamál, sem torveldar baráttu Sameinuðu þjóðanna gegn hungri og fátækt en yfirstandandi ár er helgað baráttunni gegn landhnignun og eyðimerkurmyndun.

Við Íslendingar hljótum að spyrja okkur að því hvernig við getum best orðið að liði í þessari sameiginlegu baráttu þjóða heimsins. Við höfum sýnt það með stofnun og rekstri sjávarútvegs- og jarðhitadeilda Háskóla Sameinuðu þjóðanna, að liðsinni okkar skiptir máli þegar kemur að fræðslu og miðlun þekkingar á þeim sviðum, þar sem við höfum aflað okkur mikilvægrar sérþekkingar.

Við höfum snúið baráttunni gegn uppblæstri lands og jarðrofi úr því að vera hörð glíma við alvarlega ógn í það að verða mikilvægt þekkingarsvið, þar sem við getum orðið öðrum að liði.

En þeirri baráttu er síður en svo lokið hér á landi. Ég sé fyrir mér vaxandi hlutverk íslenskra bænda við landbætur og jarðvegsheimt. Ég sé fyrir mér vaxandi þátt íslenskra sérfræðinga í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir á þessu sviði. Og ég sé fyrir mér vaxandi hlut Íslands í baráttunni fyrir Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um afnám fátæktar og hungurs með aðstoð við þróunarríki í formi fræðslu og miðlunar sérþekkingar.

Það er jarðvegur fyrir þess háttar hjálp.

Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir að bjóða mér hingað og óska ykkur fræðandi og ánægjulegs fundar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum